Súkkulaði - unaðsleg óhollusta.

Allt sem er gott er annað hvort syndsamlegt eða óhollt. Þetta var einu sinni sagt og það er mikið til í því.

Ég er einn af þeim sem hafa alla tíð verið veikir fyrir súkkulaði. Gildi súkkulaðis sést best á því að eitt af þjóðartáknum Íslands er kók og prins. Vinstri stjórnin 1956-58 gerði fátt merkilegt en tvennt var þó gott sem hún gerði: Færði landhelgnina út í tólf mílur og fór að flytja inn Prins póló frá Póllandi. 

Þessi vara er einstæð að því leyti að innflytjandinn, Ásbjörn Ólafson, ákvað að auglýsa þetta súkkulaðihúðaða kex aldrei. 

Umboðið kom mér vitanlega hvergi nærri því þegar Þorsteinn Eggertsson gerði textann um sjóarann Prins Póló sem Magnús Ólafsson gerði ógleymanlegan með Sumargleðinni. 

Ég hef alla tíð verið forfallinn kók og prins neytandi. Allt þangað til ég fékk ofnæmi fyrir of sterkum sýlklalyfjaskömmtum sem orsökuðu lifrarbólgu, stíflugulu og ofsakláða. 

Þá varð fita bannvara í tæpa fjóra mániði og þurfti að fara stúdera fituinnilhalds alls sem neytt var. Ég léttist um 16 kíló á þessum mánuðum.

Þá kom í ljós að sú réttlæting mín fyrir Prins póló áti að það væri megrunarkex var auðvitað fjarstæða. Niðurstaða rannsókna minna var einföld: Yfir 30% af súkkulaði er hrein fita. Það er alveg eins hægt að hella í sig hreinum rjóma. 

Þriðjungur sjúklega góðs 100 gramma þungs Ritter sport súkkulaðisstykkis er hrein fita. Þetta uppgötvaði ég í flugvélinni á leið til Kanarí eftir að það var orðið of seint. Með því að narta í sig eitt slíkt lítið stykki innbyrðir maður jafn mikla fitu eins og ef maður drekkur heilan lítra af mjólk.

Eftir 52ja ára nautnarneyslu Prins Pólós, sem síðustu ár hefur falist í að meðaltali tveimur stykkjum á dag (sennilega vanmetið vegna afneitunar súkkulaðisfíkilsins) hef ég nú ákveðið að fara í bindindi á þennan unað.

Með því bægi ég frá mér hátt í einu kílói af fitu á mánuði, eða ca 10 kílóum af fitu á ári og spara mér 7-10 þúsund krónur á mánuði, ca 80-120 þúsund krónur á ári. Það munar um minna í kreppunni. 

Kókbindindi verður erfiðara. Þar er tvöföld fíkn á ferðum, samtvinnuð koffein- og hvítasykursfíkn. Fráhvarfseinkennin eru mikil.

Er búinn að skipta að mestu yfir í Kók Zero en það er auðvitað veruleikaflótti, því að gervisykurinn er sagður verri en venjulegur sykur á ýmsa lund, brenglar sykurviðbrögð líkamans o. s. frv. Blogga alveg sérstaklega um kókfíknina síðar en velti því fyrir mér núna hve mikla óhamingju, ótímabæra sjúkdóma og dauðföll hin unaðslega súkkulaðifíkn hefur leitt yfir Vesturlandabúa.  


Óákveðnir langstærsti hópurinn.

Allt fram til síðastliðins hausts hafði Sjálfstæðisflokkurinn þá sérstöðu samkvæmt skoðanakönnunum að þurfa ekki nema einn samstarfsflokk til að mynda meirihlutastjórn. Fyrir jól gátu Samfylking og VG myndað meirihlutastjórn en eftir áramót hafa engir tveir flokkar meirihluta atkvæða nema Sjálfstæðismenn og VG. Slíkt stjórnarmynstur verður þó að teljast ólíklegt eftir það sem á undan er gengið. 

Þetta er þó ekki alveg marktækt og ýmsar ástæður fyrir því. 

Þessi skoðanakönnun er með 42% óákveðna og mér skilst að hún sé bara á netinu. Í síðustu könnunum hafa framboð utan fjórflokkanna verið með 8-14% atkvæða. Þess vegna er aðeins að marka allra stærstu drætti í fylgisbreytingum stærstu flokkanna.

"Aðrir" eru líklega fleiri en einn aðili og því færu þetta 16-28 þúsund atkvæði í vaskinn utan fjórflokkanna í hverri könnun, ef 5% reglan væri í gildi. Þaðálíka fjöldi og í heilu landsbyggðarkjördæmi. 

Ef allt þetta fylgi fellur út fyrir þingfylgið virðist þingmannafjöldi tveggja af þremur stærstu flokkunum duga til myndunar meirihlutastjórnar þótt minnihluti atkvæða fylgdi þessum stjórnum. 


mbl.is Stuðningur við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrst við, svo fyrirtækið, síðast þjóðin.

Ég átti athyglisvert viðtal austur á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum um virkjunina. Þetta var á því tímabili framkvæmda þegar best átti við lýsing lögfræðings Landsvirkjunar um það hve óhemju áhættusöm þessi framkvæmd væri.

Þá lá ljóst fyrir að ekkert einkafyrirtæki, hvers stórt sem það væri, myndi vilja taka þessa áhættu. 

Ég hafði þá nýlega komist á snoðir um neyðar-símafund Landsvirkjunar, fjármálaráðherra og tengrar opinberrar stofnunar, sem hófst klukkann níu að morgni með það umræðuefni að redda Landsvirkjun um 7 milljarða króna innan klukkustundar.

Vandamálið fólst ekki aðeins í að ná í lánsfé á svo skömmum tíma heldur líka að leita afbrigða vegna ofurhárra vaxta, sem voru að sjálfsögðu óhjákvæmilegir

Þetta tókst með fyrirgreiðslu innlends banka. 

Í samtali mínu við einn af þeim sem þekkti bankann vel og aðstæður hans greindi ég frá hinni gríðarlegu hættu á að virkjunin myndi tefjast meira, en þá stefndi í minnst árs tap og einn risaborinn búinn að hjakka í meira en hálft ár í sprungusvæði sem látið var undir höfuð leggjast að rannsaka fyrirfram með þeirri útskýringu eftir á að "við ætluðum þarna í gegn hvort eð var." 

Ég spurði hvort þetta væri ekki áhyggjuefni fyrir banka sem lánaði stórfé í svona framkvæmd og fékk athyglisvert svar: 

"Nei, nei, þetta er þveröfugt. Því verr sem framkvæmdir ganga og því verr sem virkjunin á eftir að standa fjárhagslega, því betra fyrir bankann, því að þetta er allt ríkistryggt."

Svona hugarfer gengur í gegnum allt kerfið og ekkert kemur manni á óvart. Mikilvægisröðin er: 1. Ég og vinir mínir. 2. Bankinn eða fyrirtækið. 3. Þjóðin. 


mbl.is Stjórnarmenn í rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband