Skynsamlega talað.

Ég hef sett það fram áður í blogginu mínu að framundan gæti verið löng og ströng barátta Íslendinga fyrir því að ná eyrum hinna sanngjarnari og hyggnari viðsemjenda okkar erlendis sem vilja kynna sér allar aðstæður okkar og koma fram við okkur af skilningi þegar samið yrði um málalok vegna hruns bankanna okkar.

Ég upplifði það nógu sterkt vestur í Bandaríkjunum í októberbyrjun í haust hvaða áhrif það hefur og til hvers það leiðir að hrópa: "við borgum ekki" og gefa þar með færi á að við séum úthrópaðir af þjóðum veraldar að óathuguðu máli. Aðeins samningaleiðin er fær út úr þessu máli og sú sigling getur tekið mörg ár. 


mbl.is Erlendar skuldir þjóðinni ofviða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Turnarnir þrír.

Á sínum tíma var það takmark Samfylkingarinnar að breyta íslensku stjórnmálalandslagi að nýju í það að tveir turnar væru þar hæstir, líkt og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn voru á síðustu öld allt fram til 1978.

Könnun Gallup ætti að vera marktækari en netkönnunin sem var gerð fyrir nokkrum dögum. Gallup er bæði á netinu og símanum, með sex sinnum stærra úrtaki og stendur yfir í tvær vikur. 

Ef úrslit kosninga yrðu á þá lund sem Gallup sýnir nú gætu hverjir þeirra þriggja flokka sem eru stærstir myndað stjórn tveir. Stjórn Sjálfstæðisflokks og VG næði þó ekki meirihluta atkvæða og hlyti að teljast ólíklegt að VG verðlaunaði sjallana fyrir 18 ára siglingu þjóðarskútunnar inn á strandsstað. 

Auk þess fær Sjálfstæðisflokkurinn yfirleitt minna fylgi í kosningum en í skoðanakönnunum. 


mbl.is Samfylkingin stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími fyrir þetta, - ekki lýðræðisumbætur.

Athygli vakti á sínum tíma þegar karpað var á þingi um sölu á víni í matvöruverslunum á sama tíma og búsáhaldabyltingarfólkið kallaði þúsundum saman fyrir utan þinghúsið á aðgerðir til að bætj stjórnarfar og bjarga heimilum og fyrirtækjum.

Síðustu daga hefur mátt heyra raddir um það að alls ekki sé tími til að ræða betrumbætur á kosningalögum og stjórnarskrá eða þá um hugsanlegt stjórnlagaþing. 

Meðal þessara "tímafreku" umbóta er sú einfalda breyting að setja töluna 1,6% eða 2% í stað 5% lágmarksfylgis framboðs til Alþingis. 

Þetta er náttúrulega alltof mikil fyrirhöfn fyrir þingið því að ráðherrar og þingmenn þurfa miklu heldur að skeggræða fram og til baka um tilfærslur á dagsetningum á reglugerðum og það hvort þeir hafi "stolið" hugmyndum frá hver öðrum. 

En úr því að þingmenn eyða tímanum í rifrildi um fjaðrir á líklega við gamla máltækið: "Svo flýgur hver sem hann er fiðraður til. " 


mbl.is Þingmenn karpa um fjaðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alkul er alltaf algert.

Fyrstu tvö orð fréttarinnar um alkul í bílasölu fela í sér tvítekningu sem er bæði óþörf og merkingarlaus. Annað hvort er alkul alkul eða ekki alkul. Það er ekkert kaldara til en alkul. Að tvítaka orðið "al" er óþarft.

Orðin "algert alkul" eru dæmi um tilhneigingu blaðamanna til að ofgera og nota hástigsorð í slíkum mæli að í lokin verða þau máttlaus.

Nýleg dæmi um þarflausa notkun hástemmdra lýsingarorða er vaxandi notkun orðanna "gríðarlegur" og "hrikalegur." Orðið "mikill" er á undanhaldi, - þykir ekki nógu krassandi.

Um daginn heyrði ég mann tala um að það væri gríðarlega lítil bílasala. Lýsingarorðið "gríðarlegur" táknar eitthvað mjög mikið eða stórt. Þetta minnir á orð ráðherra eins hér í gamla daga þegar hann sagði: "Gengi krónunnar sígur upp á við."  


mbl.is Alkul í bílasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sættir á Kanarí.

Klörubar 15. feb ´09Allt er gott sem endar vel hefur verið sagt. Og það átti við í kvöld þegar haldin var fjölmenn vikuleg samkoma á Klörubar á Kanarí.

Þegar ég átti leið út af samkomunni til að sinna símtali kom til mín maðurinn sem ég greindi frá í bloggi mínu í gær með yfirskriftinni "Mótmæli á Kanarí." 

Maðurinn kvaðst sjá eftir því sem gerst hafði í gærkvöldi og bað mig og vinafólk mitt um fyrirgefingu. 

Það mál var auðsótt og við féllumst í faðma sem vinir, - málið dautt. 

Og þó ekki hvað varðar það að þarna var stofnað til vináttutengsla sem annars hefðu varla orðið að veruleika. 

Það er ekki algengt að svona málum ljúki á þennan hátt þannig að allir málsaðilar hafi af fulla sæmd. 

En þannig var það í þessu tilfelli og er gott að hafa stofnað til nýrra vináttutengsla í framhaldi af atviki, sem hefði verið leiðinlegt í minningu allra viðstaddra. Hafi þessi nýi vinur okkar heiður fyrir.

Og samkoman sem myndin hér að ofan er af, var til sóma og ánægju fyrir alla sem að henni stóðu.  


Bloggfærslur 16. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband