23.2.2009 | 19:37
Vandræðagangur út af eðlilegum hlut.
Ég hef ekki haft margt gott að segja um málflutning og frammistöðu Sjálfstæðismanna að undanförnu en ég tel þá afstöðu þeirra og Höskuldar Þórhallssonar ekki vera óeðlilega að bíða eftir skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um regluverk Seðlabanka áður en frumvarpið um Seðlabankann verði endanlega afgreitt hér.
Mér finnst það meira að segja jákvætt að flokksræðið skyldi þurfa að víkja fyrir sannfæringu þingmanns, sem hann hefur getað stutt gildum rökum.
Vandræðin eru að mínum dómi fólgin í því að ofurvald flokkkanna er orðið svo inngróið í störf þingsins, að allt fer í baklás ef einn þingmaður vogar sér að fara eftir sannfæringu sinni um það að vanda til verka og tefja þó ekki frumvarpið nema í fáa daga.
Það ætti að vera keppikefli í þinginu að haga dagskrá þessi þannig að eitt frumvarp um afmarkað mál setji ekki aðra dagskrá og afgreiðslu mála í uppnám. Einn hluti af auknu þingræði og minna ráðherraræði ætti að verða sveigjanleiki sem tekur mið af þeirri skyldu þingmanna að fylgja sannfæringu sinni.
Þegar Jóhanna segir, að skýrslan umrædda snerti ekki Seðlabankafrumvarpið spyr maður sjálfan sig hvort hún sé búin að sjá hana. Síðan var náttúrulega alveg dásamleg framsóknarmennska opin í báða enda þegar Höskuldur sagði að formaður flokksins styddi afstöðu þeirra beggja, hans og Birkis Jóns, - afstöðu þar sem annar sagði nei en hinn sagði já !
![]() |
Lausn ekki fundin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.2.2009 | 14:49
Ég skammast mín ekki fyrir nafnið "Þjóðahátíð."
Ég er kannski einn af þeim sem hefði helst átt skilið af hálfu óhróðursmanna að fá miða á bílrúðu hjá mér ef ég hefði komið á fjölmenningarkvöldið á Sauðárkróki . Í augum óhróðursmanna er ég kannski aðili að "þjóðarmorði" á Íslendingum fyrir það að hafa fundið nafnið "Þjóðahátíð" á fyrstu samkomuna af því tagi, sem haldin var fyrir vestan.
Þær samkomur hafa gert hvern þann mann betri sem hefur verið þeirrar ánægju aðnjótandi að koma á þær og ekki hefur verið hægt annað en að hrífast af því sem þar hefur verið sýnt og flutt og komið þægilega á óvart.
Ég skammast mín því ekki fyrir þetta heiti en kannski er nafnið Þjóðahátíð í hugum óhróðursmanna glæpsamlega líkt orðinu þjóðhátíð sem við höfum notað allt frá árinu 1874. Hver veit hvað þessum kynþáttahöturum getur dottið í hug?
Maður er eiginlega kjaftstopp yfir orðanotkun óhróðursmannanna. Að þeir skuli dirfast að nota orðið þjóðarmorð er slíkur umsnúningur, misnotkun og gróf móðgun við milljónirnar sem hafa verið drepnar í raunverulegum þjóðarmorðum í heiminum, að það er ömurlegt að hugsa til þeirrar firringar, fávisku og óskammfeilni sem felst í svona orðanotkun.
Að mínum dómi væri ekki hægt að réttlæta þetta uppátæki með því að það hafi átt að vera hrekkur eða grín. Það eru takmörk fyrir öllu og þetta fór langt út fyrir öll takmörk.
![]() |
Óhróður settur á bíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2009 | 12:45
Hvaða viðbótarvirkjanir eru í sigti ?
Nýlega er búið að stækka fyrirhugað Helguvíkurálver sem svarar því að bæta þurfi minnst tæplega 200 megavöttum af orku við það sem áður var búið að ráðgera að pumpa upp úr jarðvarmasvæðum á Reykjanesskaganum til að anna orkuþörf 240 þúsund tonna álvers.
Ekki þarf mikla samlagningarhæfileika til að finna út að til þess að útvega nægilega orku fyrir 360 þúsund tonna risaálver þurfi alls uppundir 600 megavött af orku fyrir þessa stækkuðu verksmiðju og að það muni þýða virkjanir í Bitru, við Krýsuvík og í Neðri-Þjórsá. Engu verður eirt af "hófsemdarmönnunum" heldur valtað yfir "öfgamennina" sem vilja að einhverju verði þyrmt.
Nú virðist eiga rétt si svona að bæta við 100 megavöttum fyrir sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Á jarðvarmasvæðunum hér syðra byggist þessi orkuöflun á ofnýtingu sem valda mun því að barnabörn okkar muni þurfa að skyggnast um eftir allt að 1000 megavatta viðbótarvirkjunum, - les Torfajökull, Kerlingarfjöll, Þjórsárver, Skaftárveita og Bjallavirkjun.
Ef það verður þá ekki búið að virkja þetta allt áður, því að fíknin eftir stóriðju er óseðjandi. Ef hér væri eitthvert minnsta tillit tekið til möguleika afkomenda okkar, væri nú þegar búið að gera ráð fyrir virkjunarmöguleikum fyrir orku handa bíla- og skipaflotanum.
Hvernig væri nú að blása hið siðlausa Helguvíkurálver af og fara hægar í sakir, reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga sem gefur svipaðan fjölda starfa og álversframkvæmdin fyrir margfalt minni orkueyðslu ?
Þegar miðað er við núverandi virkjunartækni er raunar þegar komið út yfir endimörk möguleika á sjálfbærri orkuvinnslu á Reykjanesskaga sem við Íslendingar gætum auglýst sem fyrirmynd fyrir heiminn varðandi endurnýjanlega orkuöflun.
![]() |
Hreppir Ísland sólarkísilverksmiðjuna? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.2.2009 | 00:39
Kreppa og ófriður eru systkin.
Kreppa og ófriður fara oft saman. Þá hriktir í og reynir á þolrif. Sturlungaöldin á Íslandi var gott dæmi um þetta. Landgæðum hnignaði. Fyrstu aldir Íslandsbyggðar hafði ríkt gróðæri sem byggðist á hlýskeiði og ofnýtingu skóglendis en það var á enda og ennfremur fór kólnandi.
Óvíst er að seinni heimsstyrjöldin hefði skollið á ef gróðærið (the roaring twenties) hefði haldið áfram. Locarno-samningarnir byggðust á batnandi hag og auðveldari sátt á milli þjóða. Kreppan og afeiðingar hennar í Þýskalandi varð lyftistöng fyrir óánægjuafl eins og nasista sem kenndu Versalasamningunum og hinu gyðinglega fjármálaveldi um allt illt.
Mikill órói var í stjórnmálum hér á landi í kreppunni og síðan aftur þegar þrengdi að 1948 eftir gróðæri sem byggst hafði á eyðslu gjaldeyrisinnistæðna í Bretlandi sem voru uppurnar í árslok 1947.
Japanir töldu sig tilneydda til að fara í stríð vegna þess að að þeim var þrengt varðandi auðlindir af nýlenduveldunum og Bandaríkjamönnum. Þeir upplifðu auðlindakreppu.
Illindi milli stærstu ríkja Evrópu núna ættu því ekki að koma á óvart.
![]() |
Gjá á milli stærstu ESB-ríkjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)