Svipað og um stýrivextina.

Ummæli Davíðs um bindiskylduna eru á svipuðum nótum og gagnrýnendur höfðu um stýrivaxtastefnu bankans þegar þeir bentu á að stefna bankans næði mjög takmörkuðum árangri vegna þess að svo mikið af lánaviðskiptum Íslendinga væru komin til útlanda.

Enn eitt dæmið um þann fjármálaófreskju-Frankenstein sem reis gegn skapara sínum og ég bloggaði um næst á undan þessum pistli.


mbl.is Aukin bindiskylda hefði engu máli skipt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapari Frankensteins varaði við honum.

Skapari Frankensteins ætlaði að skapa hinn fullkomna mann. Davíð Oddsson ætlaði að skapa hið fullkomna þjóðfélag stjórnlítillar græðgi og gagnrýnislausrar markaðstrúar. Thatcher, Reagan og Hannes Hólmsteinn voru spámennirnir miklu. Þorgerður Katrín sagði nýlega í viðtali að ef hún mætti vera ein á eyðieyju myndi hún geta hugsað sér að eiga þar samræður við Thatcher. Vaá !

Davíð talaði í orði um að dreifða eignaraðild að einkavæddum bönkum en á borði var bönkunum skipt upp á milli skjólstæðinga stjórnarflokkanna. Allt sem Davíð hefur gert er löglegt, líka einræðislegir stjórnarhættir hans, siðlaus eftirlaunalög sniðin að sérþörfum hans og hótanir sem byggjast á því að "hafa eitthvað á menn."

Þrjú orð hans, "við borgum ekki" voru einhver afleitustu og dýrustu mistök Íslandssögunnar.

Davíð og Geir trúðu á Thatcher, Reagan og Bush og vildu taka þau sér til fyrirmyndar. Það er því til lítils að kenna gjaldþroti hinnar villtu græðgisstefnu þessa þríeykis erlendis um ófarirnar hér.

Ófarirnar urðu auðvitað verri hér en annars staðar af því að hér var farið hraðast með himinskautum og ríkisstjórn og Seðlabanki héldu uppi of háu gengi sem kallaði á ofneyslu og hrikalega skuldasöfnun, ekki hvað síst hjá sjávarútveginum sem blæddi fyrir hágengisstefnuna og hélt sér á floti með lánum.

Þegar skepnan reis síðan gegn skapara sínum og Davíð horfði á aðfarir Frankensteins hinna íslensku sjálftöku- og oftökustjórnmála, fór hann að vara við honum, rétt eins og gerðíst í sögunni um hinn skelfilega skapnað á sinni tíð.

Davíð varaði hins vegar helst við Frankenstein í trúnaðarsamtölum sem hann hefur nú dregið upp úr pússi sínu en lætur vera að greina frá þeim fjölmiðlasamkomum þar sem hann neyddist til að rugga ekki bátnum um of opinberlega, heldur tala um að bankakerfið væri traust og sterkt, þótt ýmsar blikur væri á lofti.

Síðan ásakar hann fjölmiðlamenn nú um að hafa trúað þessu marklausa hjali sínu.

Davíð vitnaði margsinnis í kvöld í orð ónafngreinds fólks sem hefði sagt honum að hann væri eini maðurinn sem hægt væri að treysta. Mannkynssagan greinir frá ýmsum mönnum sem litu þannig á sjálfan sig, nánast goðum líka, og kunni það oft ekki góðri lukku að stýra.


mbl.is Fjármagnsflutningar Kaupþings höfðu mikil áhrif á Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð í stuði með sprengjuregn!

Ekki sveik Davíð Oddsson hvað snerti dramatíkina í Kastljósviðtalinu, sem var að ljúka. Hann sprengdi margar bombur og lumar áfram á nokkrum uppi í erminni. Hvað sem manni finnst um ábyrgð Davíðs á hruni "gróðærisins" verður því ekki neitað að vopnfimur getur hann verið og ekkert lamb að leika sér við.

Sum trix hans voru að vísu billeg eins og að snúa spurningunni um vanhæfi upp á spyrilinn, - alveg dæmigerður útúrsnúningastíll Davíðs, en margt sem hann sagði útskýrði betur stöðu hans og gjörðir og var full þörf á því.

Ég bloggaði um það um daginn að ekki yrði komist hjá því að líta á viðfangsefni stjórnvalda eins og boðhlaup þar sem bæði sá sem afhendir keflið og sá sem tekur við því, eru hlaupandi á brautinni á sama tíma. Davíð benti á þetta atriði varðandi skiptinguna á einum degi frá Seðlabankastjóra yfir í bráðabirgðaseðlabankastjóra.

Meðal bombanna var frásögn hans af fundi hans með ríkisstjórninni 30. september. Segi hann rétt frá því hvað hann og aðrir sögðu þar er ríkisstjórnin með allt niður um sig varðandi þann fund en ekki Davíð. Ég hef áður bloggað um það að hugmynd hans um þjóðstjórn hefði verið eðlileg, jafnvel þótt hann seildist þar yfir í pólitíkina.

Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjuleg orð og gjörðir en Davíð var víst skammaður fyrir að vera að "dramatísera."

Hann hefði þess vegna mín vegna mátt orða utanþingsstjórn í ljósi þess að aðalatriði málsins var það sem hann segist hafa sagt að bankakerfinu yrði ekki bjargað og að það myndi hrynja allt innan skammst tíma. Ekkert smámál.

Það er skiljanlegt að hann skyldi verða svekktur yfir því að í fjölmiðla láku aðeins ummæli hans um þjóðstjórn. Þau voru látin leka út af ríkisstjórnarfundi þar sem á að vera hægt að treysta að trúnaður ríki og ein og sér virðast þau ekki hafa gefið rétta mynd af því sem gerðist á þessum fundi.

Davíð hefur snilligáfu dávalds í samtölum og þegar hann ásakaði Sigmar og aðra fjölmiðlamenn fyrir það að hafa ekki tiltekið þau skipti þegar hann varaði við ástandinu, hefði Sigmar getað bent honum á það á móti að á fundum Davíðs með fjölmiðlamönnum, svo sem í maí í fyrra, fullyrti hann að bankarnir stæðu sterkir og fjármálalífið væri í meginatriðum traust. Sigmar sat þá sem dáleiddur.

Eftir því sem Davíð segir núna áttu fjölmiðlamenn ekki að taka mark á honum þegar hann talaði opinberlega í viðurvist fjölmiðla, heldur að vita um einkasamtöl hans við yfirmann sinn, forsætisráðherra. Þarna slapp Davíð mjög billega. En magnaður er hann og makalaus, aldrei verður það af honum skafið.


mbl.is Davíð í Kastljósviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bolludagur hér um árið - sprengidagur núna.

"Bolludagsmál" Davíðs Oddssonar og Hreins Loftssonar hér um árið gerði allt vitlaust. Kastljósviðtal við hann í október byrjun síðastliðið haust er afdrifaríkasta viðtal allra tíma í íslenskum fjölmiðlum. Skyldi hann geta haldið áfram að færast í aukana í kvöld og toppa þetta !

Hlekkirnir sex. Enginn má bresta.

Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Líkja má íslensku þjóðarbúi við keðju með sex hlekkjum, en þeir eru heimilin, fyrirtækin, fjármálastofnanirnar, sveitarfélögin, opinberir sjóðir og ríkissjóður.

Nú er óumflýjanlegt að allir þessir hlekki veikist stórlega en stefna verður að því að sú veiking dreifist jafnt á keðjuna svo að enginn einn hlekkur bresti. Á þann veg einan er von til þess að ekki verði hér stórum verra hrun en þegar er orðið.

Ef heimilin hrynja, slitnar keðjan og hið sama á um hvern hinna sex hlekkja, sem nefndir voru hér að framan. Í stórum dráttum má segja, að koma verði heimilunum og fyrirtækjunum til hjálpar að svo miklu leyti sem það valdi því ekki að hinir hlekkirnir fjórir, einn eða allir, bresti.

Ef fjármálakerfið hrynur aftur fara fyrirtækin og heimilin sömu leið.

Það er reikningsdæmi og ágiskun hve langt sé hægt að ganga til að styrkja heimilin og fyrirtækin. Við verðum að muna að ríkissjóður er bara við sjálf, þjóðin sem leggur í hann fé og á hann. Það eru okkar peningar sem nota verður þegar veitt eru framlög úr honum. Svipað er að segja um sveitarfélögin og opinberu sjóðina.

Þeir flokkar sem standa að núverandi þingmeirihluta verða að láta reikna þetta dæmi sem best og byggja aðgerðirnar á þeirri útkomu. Sé útkoman sú að með því að styrkja einn hlekkinn svo mikið að einhver eða allir hinir hlekkirnir bresti, er allt í uppnámi.

Ég ætla bara rétt að vona að Framsóknarmenn geti sýnt útreikninga sem sýni að tillögur þeirra séu raunhæfar. Reynslan af kosningaloforðum þeirra 2003 hræðir, Þá unnu þeir kosningasigur út á það lofa út og suður.

Húsnæðiskaupendum lofuðu þeir gulli og grænum skógum þvert ofan í rökstuddar aðvaranir um það að allt of langt væri gengið og of mikil áhætta tekin.

Í ljós kom að stefna Framsóknarflokksins setti af stað keðjuverkun sem átti stóran þátt í því hvernig komið er.

Keðjan verður að halda þótt allir hlekkirnir veikist stórlega. Enginn einn þeirra má bresta, - þá er þetta búið.


mbl.is Kosningar verða 25. apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband