Sko Höskuld !

Höskuldur Þórhallsson tók áhættu með því að leggjast á sveif með Sjálfstæðismönnum við að tefja Seðlabankafrumvarpið.

Ekki var víst að neitt það væri í skýrslunni frá ESB sem skipti máli fyrir frumvarpið og jafnvel þótt telja mætti eðlilegt að hafa sem flest í hendi, úr því að það tafði málið ekki lengur en tvo daga, hefði verið snautlegt fyrir hann ef hann hefði ekki fundið neitt bitastætt í skýrslunni.

Ef rétt reynist að breytingin á lögunum sé í anda þess sem mætir og fróðir menn erlendir vilja bæta og breyta hjá Seðlabönkum Evrópu, hafði Höskuldur sitt fram og eru væntanlega ekki aðeins Sjálfstæðismenn óánægðir, heldur líka Jóhanna og Össur, sem fullyrtu að ekkert það væri í skýrslunni sem gæti komið Seðlabankanum við.

Mér finnst eftir sem áður dapurlegt tákn um inngróið flokksræði og ráðherraræði að stöðva störf þings í tímahraki vegna þessa máls. En ríkisstjórnir hafa verið því vanir að stjórna þinginu eins og afgreiðslustofnun eða bensínsjoppu þar sem hverju máli er afmarkaður tímarammi og ekkert má út af bregða.

Sjálfur Bandaríkjaforseti þarf oft að hlíta því að stórmál gangi ekki eins hratt fyrir sig og hann óskar og er skemmst að minnast hinna stórfelldu aðgerða til hjálpar fjármálalífinu bæði í haust og um daginn.

Ef efla á þingræðið þarf framkvæmdavaldið að fara að temja sér þann sveigjanleika að þingið verði ekki verkefnalaust þótt tímatöflur allra mála gangi ekki upp. Á hverjum vetri dagar fjöldi mála uppi á þingi og eru mörg þeirra hin ágætustu mál en á sama tíma má ekki ræða eitt eða neitt og fundir liggja niðri að því er virðist fyrir tóman klaufaskap og skort á sveigjanlegu verklagi.


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð láti á gott vita.

Efnahagshrunið hefur valdið umróti í stjórnmálaflokkunum. Nú virðist loks örla á viðleitni innan Sjálfstæðisflokksins að taka ýmislegt til skoðunar þar sem áður hefði ekki verið talin ástæða til að velta við steinum.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf hins vegar lengri tíma á varamannabekknum en þrjá mánuði til þess að geta komið aftur inn á og spilað af styrk flokks og fjöldahreyfingar, sem hafði kjörorðið: "Gjör rétt, þol ei órétt!", - kjörorð sem hefur ekki heyrst þar á bæ í áratugi.

Ég á mér þann draum að sá tími komi innan nokkurra ára endurhæfingar og endurreisnar flokksins að ekki þurfi að skrifa blaðagreinar til að kvarta yfir spillingu, forsjárhyggju og afskiptasemi hjá flokki sem á að vera brjóstvörn, frelsis, mannréttinda og heilbrigðs framtaks.

Ef andi endurhæfingar er að vakna innan flokksins segi ég bara: Guð láti á gott vita.


mbl.is Gæti talist mútuþægni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband