Ekki mesta áhyggjuefnið.

Andstaða Bandaríkjamanna við hvalveiðarnar eru ekki mesta áhyggjuefnið þótt hún sé svo sem nógu bölvuð og komi úr hörðustu átt. Aðal áhyggjuefnið er það hvort íslensk fyrirtæki tapi jafnvel margfalt meira fé en hvalveiðisinnar telja sig geta haft upp úr þessum veiðum.

Tekin er mikil áhætta á að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og það finnst mér óskynsamlegt.

Útrýmingartal Bandaríkjamanna byggist svo sem ekki á sterkum rökum, en það gera rök þeirra Íslendinga heldur ekki sem telja að hvalurinn sé að éta fiskstofna út á gaddinn.

Ef svo væri væri þessum fiskstofnun löngu útrýmt vegna þess að hvalirnir höfðu 11 þúsund ár til að gera þetta þann tíma sem maðurinn veiddi þá ekki.

Þegar ég spurði einn af þekktustu hvalasérfræðingum okkar fyrir 15 árum hvort fjölgun hvala myndi á endanum hafa þær afleiðingar að hann útrýmdi keppinautum síðum um fæðuna svaraði hann: Nei, það gerist líklega ekki, því að lífríkið myndi leita nýs jafnvægis.

Þegar hvalastofninn yrði kominn í ákveðna stærð myndi stækkun hans stöðvast vegna þess að minni fæða yrði fyrir hvern hval.

Þetta eru álíka rök og þau að refurinn sé að útrýma fuglalífi á Hornströndum. Væri svo myndi hann auðvitað hafa gert það þau þúsundir ára sem hann var í friði fyrir mönnum áður en landnám hófst.

Á nýlegri ráðstefnu kom í ljós að mjög veik rök, ef nokkur, eru fyrir því að hrefnan sé með samkeppni um fæðuframboðið að éta þorskinn út á gaddinn.

Þau rök að hægt sé að hafa einhver afgerandi áhrif með hvalveiðum standast heldur ekki vegna þess að ekki er hægt að hafa nein afgerandi áhrif á stofnana nema með því að veiða þúsundir hvala.

Eina dýrið á jörðinni sem hefur ítrekað tekist að útrýma öðrum dýrategundum er maðurinn í krafti máttar síns, getu til útrýmingar og skammtímagræðgi.


mbl.is Bandaríkin fordæma hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur 1771 ?

Síðast þegar Norðmaður var settur í forsvar fyrir mikilsverðum íslenskum málum var 1771 þegar Kristján 7 skipaði Norðmann formann í svonefndri Landsnefnd sem fékk víðtækt umboð til að koma á nauðsynlegum umbótum á Íslandi. Þá fækkaði fólki í landinu á sama tíma og fjölgaði stórum á öllum hinum Norðurlöndunum.

Góður vilji Danakonungs og Norðmannsins kom fyrir lítið. Hin innlenda valdastétt þeirra tíma var í meirihluta í Landsnefndinni og í samstarfi við sína líka í Kaupmannahöfn kom hinn íslenski aðall í veg fyrir umbætur sem hefðu getað hraðað jákvæðri atvinnuþróun hér á landi og uppbyggingu þéttbýlis í stað þess að á því varð töf í hátt í eina öld.

Vonandi mun hinn nýi seðlabankastjóri duga okkur vel þann tíma sem hann tekur hér til hendi. Vonandi endurtekur sagan frá 1771 sig ekki.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvað um hin lögin ?

Á borgarafundi í Iðnó í kvöld kom margt athyglisvert fram sem vekur spurningar um framgang annarra lagasetninga sem stjórnarflokkarnir hafa lofað heldur en hið alltumvefjandi Seðlabankafrumvarp.

Birgir Ármannsson, sem sat þarna fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, var harður í andstöðu sinni við breytingar á kosningalögunum og það var reyndar Bjarni Harðarson líka fyrir hönd hins nýja L-lista.

Þorkell Helgason upplýsti að lögfræðinga greindi á um hvort 2/3 þingmanna þyrfti til að samþykkja breytingar á kosningalögunum, en ef slíkan aukinn meirihluta þarf, fella Sjálfstæðismenn frumvarpið auðveldlega ef þeir vilja.

Eina lögfræðilega haldreipið með þessari kröfu um 2/3 virðist vera sú að enda þótt lögin sjálf bendi til þess að ekki þurfi aukinn meirihluta, finnst hið gagnstæða í fylgiskjali á fyrri stigum málsins.

Mér finnst fljótt á litið eðlilegra að þetta skrýtna fylgiskjal verði ekki látið ráða.

Steingrímur J. Sigfússson taldi að ef persónukjör yrði tekið upp myndi hann mæla með því að VG notaði sér það, enda þótt einstök kjördæmafélög réðu því raunar og myndu hugsanlega vilja annað.

Helgi Hjörvar taldi að Samfylkingin myndi hafa óraðaða lista og nota persónukjör þrátt fyrir prófkjör á undan.

Í ljós kom að þessi framboð haga undirbúningi sínum þannig að þau séu viðbúin bæði óbreyttum reglum eða breyttum, allt eftir því hver verða afdrif málsins á Alþingi.


mbl.is Búinn að staðfesta lögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband