Áhugaverð umræða í Kastljósi.

Afar áhugaverð umræða var um lánamál í Kastljósi í kvöld og það sem meira var: Báðir þátttakendurnir höfðu uppi mjög málefnalegan málflutning. Þau Tryggvi Herbertsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir eru bæði nýir talsmenn flokka sinna, ný nöfn sem skutust upp á stjórnmálahimininn í prófkjörunum og stóðu sig bæði mjög vel í erfiðri umræðu um flókið mál.

Af málflutningi þeirra mátti ráða, að þau gætu sæst á miðri leið milli sjónarmiða þeirra, annars vegar hans sjónarmiða um einfaldar byrjunaraðgerðir strax og hins vegar sjónarmiða hennar að vera ekki of fljótfær, að aðstoða ekki dýrum dómum þá sem ekki þyrftu á því að halda en halda heldur meira eftir handa þeim sem verst stæðu.

Ég get í fljótu bragði ímyndað mér að skásta leiðin væri leið sem sætti sjónarmið þeirra beggja. Aðgerðirnar gætu þá orðið í þrepum:

Fyrst einfaldar aðgerðir strax í áttina að því sem hann lagði fram, t.d. 10-15% eftirgjöf yfir heilu línuna eða með þaki sem fljótlegt og einfalt yrði að finna.

Síðar aðgerðir í framhaldinu þar sem meira yrði gert fyrir þá sem mest þurfa á því að halda.

Sem sagt: Einhvers konar blanda, enda virtust þau opin fyrir helstu röksemdum á báða bóga.

Mann datt meira að segja í hug að leggja málið einfaldlega í tveggja manna nefnd!


mbl.is Lítil heimt af lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagabætur sem borga sig.

Mestu lýðræðisumbætur liðinnar aldar kostuðu fé og fyrirhöfn vegna þess að tvennar samliggjandi alþingiskosningar þurfti til að fá þær fram.

Hrópandi óréttlæti í kjördæmaskipan var leiðrétt lítillega 1942 og það kostaði tvennar alþingiskosningar það ár.

1956 var samt svo komið að Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur hugðust spila á vaxandi lýðræðishalla með því að stofna kosningabandalag sem þeir kölluðu "Umbótabandalagið" en nafnið sem andstæðingarnir gáfu varð þó yfirsterkara; "Hræðslubandalagið". Ætlunin var að ná þingmeirihluta út á rúmlega þriðjung atkvæða en það mistókst sem betur fór.

Þetta leiddi til stjórnarskrárbreytingar 1959 sem einnig kostaði tvennar alþingiskosningar með öllum þeim kostnaði og fyrirhöfn sem slíku fylgir.

Þessi stjórnarskrárbreyting varð þó forsenda fyrir efnahagsumbótum Viðreisnarstjórnarinnar og sýndi að ábati af lagabótum getur oft orðið miklu meiri en kostnaður við þær.

Það má hugsa sér að nokkrar einfaldar breytingar á stjórnarskrá geti gert mikið gagn, ekki síður en heilt stjórnlagaþing, svo sem að láta þjóðaratkvæðagreiðslur fá stóraukið vægi og koma í stað fyrir tvennar alþingiskosningar, að ráðherrar megi ekki jafnframt vera þingmenn, persónukjör sé leyft í kosningum, 5% þröskuldurinn afnuminn og völd þingnefnda stóraukin.

Hitt blasir við að margt í stjórnarskrá okkar er úrelt enda er hún að miklu leyti hin sama og danska stjórnarskráin 1849.

Besta tákn stjórnarskrár okkar er hinn steinrunni göndull sem stendur fram úr hendi styttunnar af Kristjáni níunda við Stjórnarráðshúsið.

Samhliða umbótum og siðbót í íslensku efnahagslífi og stjórnmálum þarf því að klára það verk sem ótal stjórnarskrárnefndum hefur mistekist í 65 ár. Þingmennirnir eru fallnir á tíma og þjóðin þarf að taka við þessu verki af þeim.

Það gæti borgað sig alveg eins og umbæturnar 1959.


mbl.is Stjórnlagaþing kostar 1,7 til 2,1 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skorti yfirsýn? Já.

Færa má að því rök að á sama tíma og þjóðin þarf á fjármagni að halda til að komast út úr kreppunni séu hundruð milljarða króna, sem liggja í óseldum eða of stórum bílum, tækjum, lóðum, íbúðum og skrifstofubyggingum, ekki tiltækar vegna þess að ekkert af þessu selst eða er hægt að skipta út fyrir smærra og ódýrara.

Vonandi liggja fyrir nægar upplýsingar til þess að síðar meir verði hægt að rannsaka, hvort ekki hefði verið fyrirsjáanlegt þegar fyrir tveimur árum, að það stefndi óhjákvæmilega í kreppu á þessu sviði, hvernig sem allt annað veltist.

Mér er kunnugt um fólk sem þekkti vel til í byggingarbransanum gerði sér tímanlega grein fyrir að með engu móti væri hægt að viðhalda þessum offjárfestingum, jafnvel þótt góðæri ríkti. Þetta fólk gerði sínar ráðstafanir í samræmi við þetta.

Því miður voru engir fjölmiðlar né aðrir sem köfuðu ofan í þetta, enginn hafði áhuga á slíku heldur aðeins glæsileika "gróðærisins."

Könnun á þessu og sú aðferð sem notuð væri við hana gæti hins vegar nýst síðar á þessum sviðum sem öðrum.


mbl.is Heilu hverfin standa auð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband