Að njóta neysluvöru ókeypis.

Margir þeir sem blása mikið út af ummælum Bubba kjósa að líta á þetta sem einkamál hans en gleyma því að þarna er Bubbi að tala fyrir munn margra kollega sinna og má hafa þökk fyrir hreinskilnina.

Allt frá því að Jón Leifs gerðir brautryðjandi fyrir höfundarrétt hefur sá hugsunarháttur verið landlægur hér á landi að listamenn séu afætur og óþurftarlýður sem nenni ekki að vinna almennilega vinnu eins og annað fólk.

Þótt íslensk tónlist og kvikmyndagerð hafi síðustu árin gefið mikið fé í þjóðarbúið og orðið jafnoki landbúnaðins hvað það varðar virðist þessi hugsunarháttur lifa góðu lífi enn.

Listamenn sjálfir virðast oft á tíðum hafa smitast af þessu. Ég hef undanfarin ár fengið að kynnast kjörum kvikmyndargerðarmanna og sýnist þeir flestir prísa sig sæla ef þeir eiga fyrir kostnaði við kvikmyndagerð sína án þess að reikna sér nein laun sjálfir.

Nú ráðast margir á ómálefnalegan hátt að Bubba fyrir það að þora að segja það sem honum býr í brjósti, og virðast með því telja það alveg sjálfsagt að almenningur geti notað tónlist að vild án þess að borga fyrir vinnuna sem að baki henni býr.

Margir virðast halda að tónlist, kvikmyndir og bókmenntir spretti næstum fyrirhafnarlaust og sjálfkrafa eins og gras.

Ef þetta væri þannig að notkun tónlistar sem framleiðsluvöru minnkaði niður í næstum ekki neitt væri ekkert við því að segja. Ef bílar seljast ekki til notkunar er það bara þannig.

En í þessu tilfelli er ekki um slíkt að ræða. Notkun tónlistarinnar fer ekki minnkandi heldur jafnvel vaxandi en samt vill fólk bara geta notað hana án þess að borga neitt fyrir. Af hverju á annað að gilda um tónlist sem neysluvöru en aðrar neysluvörur ?


mbl.is Bubbi hótar að hætta útgáfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfur Bjargar Runólfsdóttur.

Ég var í sveit í fimm sumur hjá Björgu Runólfsdóttur, ömmusystur minni, að Hvammi í Langadal, og líkleg hefur engin manneskja utan foreldra minna gefið mér meira á uppvaxtarárum mínum.

Skömmu eftir að hún hóf þar búskap í miðri kreppunni miklu féll stór aurskriða á jörðina úr fjallinu fyrir ofan bæinn og eyðilagði nýja rafstöð og mikið af túninu. Í kjölfarið kom skilnaður hennar við mann hennar og það varð til þess að hún missti eignarhald á jörðinni.

En hún var ekki hrakin burt ásamt börnum sínum tveimur, heldur fékk hún tækifæri til að eignast jörðina aftur með gríðarlegri baráttu og fórnarlund og eyddi til þess því sem eftir var af starfsævi hennar. Síðasta sumarið sem ég var hjá henni rann upp sú langþráða gleðistund að hún, þá 62ja ára gömul, eignaðist jörðina á ný, hafði loksins keypt hana að fullu til baka.

Í þessari miklu kreppu var kreppulánasjóður notaður tl að gefa fólki kost á að koma á ný undir sig fótum. Það var frændfólki mínu ómetanlegt að þurfa ekki að hrekjast á vergang.

Björg kenndi mér þann boðskap að skila landinu betra til afkomenda sinna en tekið var við því. Það tókst henni svo sannarlega og gæti núlifandi kynslóð Íslendinga lært mikið af þessar fátæku en hugumstóri konu að ana ekki áfram í rányrkju á orkulindum landsins og eyðileggingu mestu verðmæta þess sem bitna mun á komandi kynslóðum.


mbl.is Húsráð Tryggva Þórs þykja vond
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimurinn þráir frið.

Aukinn kjarnorkuvígbúnaður eins og Rússar auglýsa nú er nokkurn veginn versta frétt dagsins. Lögmál Murphys þess efnis að ef eitthvað geti farið úrskeiðis muni það gerast fyrr eða síðar, lætur ekki að sér hæða, og þrátt fyrir þíðuna í samskiptum stórveldanna í kringum 1990 eiga þau enn kjarnorkuvopn sem geta útrýmt öllu lífi á jörðinni.

Þetta má ekki halda svona áfram.

Í dag verður haldinn blaðamannafundur um svonefnda Heimsgöngu fyrir friði. Ætlunin er að gangan fari hringinn í kringum hnöttinn eftir að hún hefst í október í haust. Ég setti saman lag og texta af því tilefni nú rétt áðan, göngumars svohljóðandi.

HEIMSGANGA.

Gegn stríði og böli blóðs
berumst við þú og ég
og ætlum að ganga til góðs
götuna fram eftir veg.

Við göngum um götur og torg; -
um gresjur og skóga og fjöll; -
um álfurnar, borg frá borg
og berum kyndilinn öll.

:,: Heimsganga !
Heimurinn þráir frið.
Heimurinn, það erum við.
Heiminum gefum grið ! :,:


mbl.is Rússar boða endurnýjun hergagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband