12.4.2009 | 16:45
Hvað um núverandi kerfi ?
Lögin um opinberan fjárstuðning til stjórnmálaflokka voru settar af ástæðum, sem risastyrkjamálið hefur varpað ljósi á voru bráðnauðsynlegar.
Þær voru einfaldlega þær að stjórnmál og viðskipti fela í sér banvæna blöndu hættunnar á hagsmunaárekstrum og spillingu.
Atburðirnir 2006 eru liðnir og hollt að líta til núverandi ástands og þess sem þurfi að breyta nú.
Núna fá flokkarnir fjárstuðning í réttu hlutfalli við atkvæðatölu. Þetta er ekki með öllu sanngjarnt. Hefur flokkur með 33% fylgi tíu sinnum réttara fyrir sér en flokkur með 3,3% fylgi? Það er afar hæpið að halda slíku fram.
Grunnkostnaður kosningabaráttu er hinn sami hjá stórum framboðum og smáum. Lágmarkspeninga þarf til að stofna til kosningabaráttu með mannskap, húsnæði og auglýsingum, ekki síst ef framboðið er á landsvísu.
Öll framboð þurfa að safna jafn mörgum frambjóðendum á lista og jafn mörgum meðmælendum.
Er sanngjarnt að í þjóðfélagi auglýsinganna fái 33% framboðið tíu sinnum meira fé til að auglýsa stefnu sína en 3,3% framboðið ?
Þótt fleiri leiti til stórra flokka en lítilla um upplýsingar og annað ættu líka að vera fleiri sem geta lagt framboðinu lið.
Er sanngjarnt að nýtt framboð, sem hefur komist yfir alla þá hjalla sem þarf að klífa til að bjóða fram, fái ekkert framlag á meðan hin, sem hafa verið á ríkisjötunni um árabil, hafa úr fjárstyrk að moða ?
Ég tel að í ljósi reynslunnar þurfi að gera þurfi þrjár breytingar á núverandi lögum.
1. Finna nýja úthlutunarformúlu sem setur "gólf" á framlagið, þ. e. lágmarksframlag, þannig að fylgishlutföllin fari ekki að hafa áhrif fyrr en komið er upp fyrir þá lágmarksupphæð sem öll framboð þurfa að hafa til að geta aðeins verið með.
2. Það er jafn dýrt að fara í framboð og kosningabaráttu til 4ra ára og 2ja ára. Ef kjörtímabilið styttist þarf að taka tillit til þessa.
3. Ef framboði tekst að klífa allar hindranir sem settar eru til að bjóða fram, ætti það að fá eitthvert framlag strax fyrir kosningar til að vega upp á móti því sem gömlu framboðin hafa á milli handanna.
![]() |
Augljós mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.4.2009 | 16:04
"Tók í mann...sem tók í Svein..."
Ég man ekki lengur vísuna um slagsmálin, sem ég heyrði þegar ég var ungur. Þar var verið að reyna að gera sér grein fyrir því hvar ábyrgðin lægi á því að slagsmál brutust út og vísan endaði svona:
"Tók í mann, sem tók í hann, sem tók í mann, sem tók í Svein."
Þetta kemur í hugann þegar menn reyna að greina sauðina frá höfrunum í þeirri atburðarás sem fór af stað þegar Guðlaugur Þór Þórðarson talaði við innabúðarmenn hjá Landsbankanum og FL Group og úr urðu risastyrkirnir sem Geir Haarde tók á sig að hafa endanlega blessað yfir og nýráðinn framkvæmastjóri hefur nú sagt af sér.
Raunar kemur REI-málið alltaf af og til upp í umræðunni um ástandið sem orðið var í íslenskum stjórnmálum fyrir 2-3 árum.
Á sínum tíma fengu sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að heyra að þeir hefðu sýnt fákunnáttu, einfeldningsskap og klaufagang í því sem var kallað REI-klúðrið og fyrst og fremst skrifað á þeirra reikning en ekki hinna "æfðu stjórnmálamanna."
Þeir voru hafðir mjög að háði og spotti.
Ég held að smám saman muni þessi mynd fá annan blæ í huga fólks. "Bragð er að þá barnið finnur" segir máltækið og hafi sexmenningarnir verið óæfðir og barnalegir nýliðar í stjórnmálum, hefur komið í ljós að þau höfðu tilfinningu fyrir því að ekki var allt eins og það átti að vera.
![]() |
Söfnuðu fé fyrir flokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2009 | 14:43
"Nusan", - "Litli gulur".
Vegna athugasemdar við bloggið um Rússajeppanna varðandi NSU-Prinz bíla skelli ég hér inn nokkrum myndum af framleiðslu NSU-verksmiðjanna í Neckarsulm í Vestur-Þýskalandi. Spurt var um happdrættisbíl og líklega var hann af þeirri gerð sem sést hér til hægri.
Verksmiðjurnar framleiddu frábær vélhjól um miðja síðustu öld sem settu heimsmet í hraðakstri. Vélin í hjólunum hét NSU-Max og var háþróuð á þess tíma mælikvarða, með fjórgengi en ekki tvígengi og yfirliggjandi kambás.
1957 var ákveðið að skella sér í bílaframleiðslu með því að sjóða saman tvær Max-vélar og gera úr tveggja strokka 583cc vél. Hannaður var byltingarkenndur bíll, NSU Prinz, fyrsti örlitli bíllinn sem var með hjólin úti í hornunum og lægri miðað við hæð en aðrir bílar á þeim tíma.
Myndir af bílum af þessari gerð eru númer 3 og 4 hægra megin, talið ofan frá.
Hann var á stærð við Mini, en vegna þess að aftursætið var fyrir framan afturhjólin var það svo breitt að oftlega voru fimm fullorðnir í þessum litla bíl hjá mér á sínum tíma.
Hann var framleiddur frá 1958-62 í rúmlega 100.000 eintökum og var hraðskreiðasti og snarpasti smábíll þess tíma í krafti 30 hestafla vélarinnar, sem var sett þversum aftur í með sambyggðum gírkassa.

Bíllinn var einungis 480 kíló, 250 kílóum léttari en Volkswagen, sem líka var með 30 hestafla vél. Tannstangarstýrið hárnkvæmt og fljótt, aðeins 2,4 snúningar borð í borð.
Ég átti gulan bíl af þessari gerð 1959-63, þá minnsta, einfaldasta, sparneytnasta bíl landsins. Ég hef aldrei síðar tekið í bíl með jafnskemmtilega aksturseiginleika, Porsche 911 meðtalinn.
Fjórir menn gátu tekið bílinn upp. Þess vegna var númerið R-10804. Ef það er borið hratt fram og aðeins óskýrt heyrist "einn núll átta núll fjórir" hljóma eins og "einn og loft´onum fjórir!
Aðeins tveir bílar af þessari gerð voru fluttir til Íslands.
1962-73 framleiddu verksmiðjurnar NSU Prinz 4, sem var í grunninn sami bíll en með aðeins stærri yfirbyggingu og rúmaði fimm í sæti, var léttasti og sparneytnasti fimm manna bíllinn á markaðnum.
Rúmlega 100 bílar voru fluttir inn af þessari gerð og ég átti einn slíkan 1963-65. Framleidd voru um hálf milljón eintaka af þessum bíl. Myndir af honum eru efstu myndirnar til hægri. Hann þótti vera vasaútgáfa af Corvair og síðar stældu Sovétmenn hann með bíl af Zaz-gerð.
1964-73 framleiddu verksmiðjurnar NSU 1000 og 1200. Sá bíll var lengri á milli hjóla og með fjögurra strokka þversum-vél afturí, 43-71 hestafla.
Fáir voru fluttir til Íslands, enda hafði komið í ljós að vegna þess minni bróðir hans, Prinz 4, var með bratta afturrúðu sogaðist ryk inn í vélina. Þetta var aldrei vandamál á elsta Prinzinum sem var með aftursveigðar rúður að aftan.
Við þessu var gert á NSU 1000 með því að loftinntakið á hliðinni en skaðinn var skeður. NSU Prinz TT var geysiskemmtilegur og vinsæll keppnisbíll og Audi TT dregur nafn sitt af honum. (Audi keypti NSU verksmiðjurnar síðar) '
Ég átti NSU 1000 1965-66, feyki skemmtilegan bíl með miklu innanrými miðað við þyngd og stærð.
NSU-Prinz 110 og 120 voru með lengri framenda og framleiddir síðustu ár verksmiðjanna. Örfá eintök komu til Íslands og ég sá einn mjög ryðgaðan á Ystafelli fyrir nokkrum árum.
Merkilegasti bíllinn með NSU-merkinu var NSU Ro 80. Lítil mynd af honum sést hér að ofan til vinstri og ég ætlaði að setja stærri mynd inn hér fyrir neðan en tókst ekki. Bendi á að allar myndir geta menn stækkað með því að tvísmella á þær.
NSU Ro80 þótt svo byltingarkenndur þegar hann kom fram 1967 að hann var valinn bíll ársins í Evrópu. Þetta var bíll í efri milliklassa hinn fyrsti í heiminum með Wankel-vél.
Fram komu barnasjúkdómar í vélinni og bíllinn þótti ljótur að aftan með sinn háa og þvera rass, á skjön við hið langa og lága nef. Hann var hafður þannig til að ná sem minnstri loftmótstöðu.
Í dag þætti hann frábær í útliti, gersamlega "in". Svona er nú "karlmannatískan í stáli" harður húsbóndi. Ro 80 var langt á undan sinni samtíð og verksmiðjurnar fóru á hausinn vegna hans. Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.
Læt fljóta með mynd af Prinz sem aldrei var fluttur til Íslands, en það var NSU Sport Prinz.
Hann var með sama kram og elsti Prinzinn en aðra yfirbyggingu, hannaða af Bertone.


Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.4.2009 | 00:09
"...Nú aka á rokkbuxum á Rússajeppunum..."
Í tilefni af athugasemd við blogg í gær koma hér nokkrir molar um rússneska jeppann GAZ 69.
Ofangreind hending úr textanum við lagið "Rokk-kalýpsó í réttunum" lýsir vel tíðarandanum í upphafi rokksins á Íslandi.
Efsta myndin er tekin í upphafi jeppaferðar á snjó norður í Gjástykki á skírdag. Ég kom norður á litla Fiatinum og fór í ferð á 43ja ára gömlum Rússajeppa sem ég nota þar í kvikmyndatökur á heimildarmynd um Leirhnjúk-Gjástykki.
Samferða mér var Andri Karlsson á Landrover Discovery jeppa á 38 tommu dekkjum.
Rússinn er hins vegar aðeins 1650 kíló, 500 kílóum léttari og því hef ég látið nægja að hafa 35 tommu dekk undir honum. Þyngdarmunur bílanna kom í ljós þegar jeppi Andra féll tvisvar niður í gegnum snjóþekjuna þar sem Rússinn flaut yfir.
Í seinna skiptið var Rússinn notaður til að draga Discoveryinn upp en þá hafði skiptistöng farið úr sambandi í Rússanum svo að hann var bara í afturdrifinu og gróf sig niður svo að Andri varð að kippa í og jafna leikana.
Í athugasemdinni ofangreindu var minnst á Súkkujeppa 24 ára gamlan, minnsta jöklajeppa landsins, sem ég segi kannski síðar frá.
Áfram með Rússann, Vegna löndunarbanns Breta var byrjað að flytja inn rússneska bíla um miðjan sjötta áratuginn og á tímum vinstri stjórnarinnar 1956-58 var farið að flytja inn Prinz Póló.
Tákn þessa tíma varð því einstæð blanda vesturs og austurs, Annars vegar Kók og Prinz og hins vegar rokk og Rússajeppar.
GAZ 69 var framleiddur frá 1954 til 1972. Eftir það var honum breytt í útliti en hann er að grunngerð enn framleiddur sem UAZ 3151.
GAZ 69 varð til sem endurbót á eldri GAZ-jeppa, sem var bein stæling á Willys-herjeppanum, sem Bandaríkjamenn höfðu sent Rússum í stríðinu, alls 5000 stykki.
GAZ 69 varð stórkostleg endurbót.
Í Willys-jeppanum sem skóp byltingu hér á landi eftir stríð var vélin fyrir aftan framöxulinn og því fóru um 15 sentimetrar bil fyrir aftan fremri hjólskálar í súginn og ökumenn sátu alveg aftur við aftari hjólskál.
Land-Rover jeppinn var lítið skárri með þetta og millikassarnir á honum voru síðir og fjaðrahengslin sköguðu niður af því að fjaðrirnar voru undir öxlunum.
Rússarnir höfðu GAZ 69 breiðari og gátu þar með lyft körfunni og látið vélina vera yfir framöxlinum. Fyrir bragðið eru framsætin í rússajeppanum 27 sentimetrum framar en í Willys og þyngdarpunkturinn verður framar og fet af rými græðist. Mikils virði er að hafa þyngdarpunkt ekki of aftarlega á torfærubíl.
Ökumaðurinn og farþeginn frammi í GAZ 69 sitja mitt á milli öxla en ekki við afturöxul. Með því að lengja bílinn þar að auki um 25 sentimetra græddist gríðarlegt rými og farangurspláss fyrir aftan aftursæti.
Fjaðrirnar settu Rússarnir ofan á öxlana og drifkúlurnar eru mjög mjóar og gríðarhátt undir kviðinn, 15 sentimetrum hærra en á Willys og Land-Rover á þessum tíma. Rússajeppinn hafði því yfirburði á öllum sviðum í torfærum, einkum í snjó.
Stærsti kostur hans er þó ótalinn, en það voru fjaðrirnar sem voru langmýkstu blaðfjaðrir sem nokkru sinni hafa verið framleiddar í heiminum og bíllinn svo undurþýður að þægindi og torfærueiginleikar stórgræddu á því.
Keppnautarnir voru níðhastir. Á fyrstu árum torfærukeppni á Íslandi settu menn rússafjaðrir undir Willysana !
GAZ 69 er afar fallegur bíll að mínum dómi og arftakinn hræðilega ljótur í samanburðinum.
Bandarískt 4x4 tímarit valdi elsta Bronkóinn sem besta torfærubíl allra tíma miðað við keppinautana. Sá Bronkó var fyrsti vestræni jeppinn sem var nokkurn veginn af sömu stærð og GAZ 69, hár undir kviðinn og fjaðrirnar ofan á öxlunum að aftan.
Ekki var GAZ 69 gallalaus. Vélarnar frá fyrstu árunum voru skelfilega lélegar, kraftlausar, eyðslufrekar og úreltar hliðarventlavélar og endingarlitlar að auki. Eini kosturinn var sá að þær voru svo kraftlitlar að minni hætta var á að spóla eða brjóta veigalitla öxlana.
Rússinn minn er með sex strokka Broncóvél sem er hæfilega kraftmikil til að skila honum áfram án hættu á öxlabroti. Mig dreymir um að setja í hann fjögurra strokka Volguvél frá síðari tímum, sem enn er framleidd.
Síðasta sumar var unun að njóta fjöðrunarinnar í torfærum hálendisins norður af Mývatni við kvikmyndatökur og í ferð á snjó um daginn naut sín vel.
Ég á ódýrasta húsbíl landsins, svonefnda "Rússabelju", frambyggðan rússa árgerð 1985 sem mikið var notaður hér á landi
á sínum tíma sem skólabíll og verktakabíll og neðsta myndin er honum.
Þessi bíll er með ótrúlega mikið innanrými miðað við stærð. Hann er aðeins 4,36 metra langur, eða álíka langur og bílar í Golf-flokknum.
Sjá má af myndum af aðgerðum rússneska hersins í Tsjetseníu, Georgiu og á sínum tíma í Afganistan að rússneski herinn hefur notað Rússabeljuna síðustu áratugina og alveg fram á þennan dag.
Mér er sagt að hjá ýmsum nágrönnum Rússa veki bílar af þessari gerð ekki sérlega góðar minningar.
En margir Íslendingar eiga skemmtilegar minningar um þennan um margt nytsamlega og þægilega ferðabíl sem er svo hrikalega þungur og erfiður í akstri.
Að lokum skelli ég hér inn myndum af fyrirrennurum GAZ 69, GAZ 67 og 64, sem voru augljóslega eftirlíkingingar af Willys herjeppanum og síðan einnig neðst af bíl, sem sumir segja að sé fyrsti SUV-bíll heims í líkingu við bíla af svipaðri stærð og þyngd og vinsælustu bílarnir af þessu tagi nú um stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)