14.4.2009 | 19:20
Sjálfseyðingarflokkurinn ?
Um þessar mundir þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins helming af því fylgi sem hann hafði oft á tíðum í Reykjavík, verður flokkurinn að fara að leita sér að góðum markhópum fyrir boðskap sinn.
Einn þessara hópa gæti verið það fólk sem vill sem minnstu breyta, jafnvel ekki því ófremdarástandi sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi öðrum flokkum fremur yfir þjóðina.
Kannski er það niðurstaðan að þessi markhópur geti lyft eitthvað undir 22ja prósenta fylgi flokksins í Reykjavík norður. Mér finnst erfitt að sjá hvernig það geti verið flokknum til framdráttar að standa gegn því að tryggt sé í stjórnarskrá að auðlindir landsins séu í eigu þjóðarinnar og auknir séu möguleikar á beinu lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum.
Hugsanlega má bæta við þriðja nafninu á þennan flokk. Matthildingar, Davíð Oddsson, Hrafn Gunnlaugsson og Þórarinn Eldjár kölluðu hann Sjálfgræðisflokkinn en nú má hugsanlega brátt fara bæta nafninu "Sjálfseyðingarflokkurinn" við.
![]() |
Stjórnarskrárfrumvarpi frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.4.2009 | 15:49
Varnaðarorðin enn í gildi.
Þegar prangið með orkuauðlindir Reykjanesskagans hófst í aðdraganda kosninganna 2007 gerði Íslandshreyfingin það eitt af helstu áherslumálum sínum að gripið yrði í taumana og komið í veg fyrir að þessar auðlindir færu úr eigu þjóðarinnar.
Þá þegar glytti í nöfn Finns Ingólfssonar og fleiri þekktra fjáraflamanna hinnar banvænu blöndu pólitík-viðskipti á bak við plottin og það mátti svo sem gera ráð fyrir því að fleiri slíkir væru þarna á ferð eins og nú hefur komið á daginn.
Stundum nota menn stórar ættartöflur til glöggvunar til að sjá tengsl höfðingja Sturlungaaldar og gaman væri ef einhver góður fjölmiðlamaður setti svipaða töflu upp núna sem sýndi hvernig einstaka menn sátu í mörgum nefndum sem tengdu viðskiptalíf og stjórnmálaflokka saman eins og vefur kóngulóar.
Guðlaugur Þór væri ekki eins tortryggður nú ef hann hefði látið vera að sitja í nefndum þeirra aðila sem nú kemur í ljós að mynduðu hagsmunanetið 2006-2007.
Og varnaðarorðin frá vorinu 2007 eru enn í fullu gildi um hættuna á því að láta gróðapunga, eins og Matthías Bjarnason kallaði þá, leiða þjóðina inn á braut glötunar helstu verðmæta landsins.
![]() |
Orkuútrásin og Fl Group |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)