Hálfri öld á eftir öðrum landshlutum.

Vestfirðir eru hálfri öld á eftir öðrum landshlutum varðandi samgöngur. Þetta er eini fjórðungurinn sem ekki hefur aðalflugvöll sem getur verið opinn allan sólarhringinn. Eini fjórðungurinn með engan alþjóðlegan flugvöll.

Afleiðingin er sú að í skammdeginu er aðeins fært til að fljúga nokkra klukkutíma á dag til Ísafjarðar og oft falla niður nokkrir dagar í röð sem ekkert er hægt að fljúga.

Vestfirðir eru eini fjórðungurinn þar sem ófært er landleið mikinnn tíma árs á milli helstu byggðarkjarna.

Það voru mistök á sínum tíma að leggja heilsársleiðina um Steingrímsfjarðarheiði í stað þess að fara vestar og láta aðalleiðina til Ísafjarðar liggja um innri hluta Breiðafjarðar.

Það hefði kallað á meiri áherslu á endurbætur á leiðinni um Barðaströnd vestur.

Það hefur líka að mínum dómi verið röng forgangsröðun að hafa ekki lokið við að gera jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar mun fyrr sem og heilsársleið um Dynjandisheiði.

Ef heilsársleið væri milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar gæti Patreksfjarðarflugvöllur boðið upp á eina flugvallarstæðið á Vestfjörðum sem hægt væri að nota að næturlagi. Vegabætur myndu tryggja Innan við tveggja tíma akstur þaðan til Ísafjarðar

Af ástæðum, sem mér eru óskiljanlegar, hefur flugbrautin á Patreksfirði verið stytt verulega svo að hún er ekki nothæf fyrir jafnstórar flugvélar og áður var. Hrein afturför.

Allt er á sömu bókina lært. Það er skiljanlegt en jafnframt dapurlegt að grípa eigi til þess örþrifaráðs að hlamma niður risa olíuhreinsistöð á einum af fallegustu stöðum Vestfjarða. Engar slíkar stöðvar hafa verið reistar á Vesturlöndum á síðustu 20 árum vegna þess að enginn vill hafa slík ferlíki nálægt sér.

Ef olíuhreinsistöðina rekur upp á sker má allt eins búast við því að boðið verði upp á stæði vestra fyrir kjarnorkuúrgang með svipuðum rökum og nú eru notuð um nauðsyn olíuhreinsistöðvarinnar.


mbl.is Búið að opna Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnhlekkur keðjunnar.

Bubbi Morthens er að tala um einn af hlekkjunum fimm í keðjunni sem hægt er að líkja efnahagslífi þjóðarinnar við og engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Um þetta bloggaði ég fyrr í vetur og hlekkirnir eru þessir: Heimilin-fyrirtækin-bankarnir/fjármálafyrirtækin/sjóðirnir-ríkissjóður-sveitarfélögin.

Ef keðjan á að halda má enginn hlekkurinn bresta, síst af öllu grunnhlekkurinn, heimilin. Þetta er spurningin um jafnvægislist og verður að hafa í huga að ríkissjóður og sveitarsjóðir eru í eigu okkar allra og lífeyris- og fjármögnunarsjóðir auk bankanna eru einnig í almanna eigu nú um stundir.

Þegar rætt er um að koma í veg fyrir að einhver hlekkurinn bresti verður að hafa tvennt í huga: Að ekki sé lakar hugsað um viðkomandi hlekk, í þessu tilfelli heimilin, heldur en aðra hlekki.

Það er rétt hjá Bubba að svonefndir ofurstyrkir til flokkanna eru smámunir miðað við tugi og hundruð milljarða sem viðfangsefnin núna snúast um. Hann gleymir því hins vegar að hafi verið samband á milli þessara styrkja og stórfyrirtækja, var á þeim vettvangi verið að fara með tugi milljarða króna og í REI-málinu var um að ræða spurningar um tugi milljarða í eigu almenning.

Ef ofurstyrkirnir voru aðeins lítill ístoppur, horfir málið öðruvísi við ef þetta var aðeins toppurinn á risavöxnum ísjaka sem undir var.


mbl.is Bubbi er sleginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið er gallagripur.

"Lýðræðið er hræðilegur gallagripur en það hefur ekki fundist neitt skárra" var einu sinni sagt,
Ef á annað borð á að sjá hvað býðst í samningum við ESB liggur beinast við að sækja um aðild og bera síðan árangur samninganna undir þjóðaratkvæði.

En staðan hefur verið þannig að málið er í pattstöðu, truflar önnur mál flokkanna og samskipti þeirra og heldur þeim í gíslingu. Einhvern tíma verður að taka af skarið.

Ef eina leiðin út úr þessu ástandi er sú að taka málið út úr flokkafarveginum með því að þjóðin ákveði beint hvort ganga eigi til aðildarviðræðna til að sjá hvað kemur út úr þeim er það skárri kostur heldur en að sigla áfram í núverandi ástandi.

Berum þetta saman við það að hópur fólks sé á ferð á Kanaríeyjum og sjái varning til sölu á sölustað.
Ósætti verður í hópnum um það hvort það sé þess virði að fara inn og skoða verslunarmöguleikana, sem geta kannski falist í því að það verði prúttað eitthvað um einstaka hluti.

Þá liggur beinast við að meirihluti hópsins ráði því hvort farið skuli inn eða ekki. Þegar inn er komið kemur síðan í ljós hvort verðið verði viðunandi.

Þetta geta sem sagt verið tvær ákvarðanir, annars vegar hvort yfirleitt eigi að líta inn í búðina og síðan hvort hægt sé að sætta sig við viðskiptin sem í boði eru.

Það tefur og gerir mál óskýrari að hafa tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB-aðild. En ef þessi lausn er skárri heldur en að þetta mál sé endalaust óútkljáð finnst mér liggja beinast við að velja hana.

Við lítum stundum til Noregs sem fyrirmyndar. Og hvað gerðu Norðmenn? Þeir sóttu tvisvar um en í bæði skiptin var norska þjóðin ekki nógu ánægð með samninginn sem fékkst. Og hvað er svona voðalegt að þjóðin taki beint ákvarðanir í þessu stóra máli, jafnvel þótt hún þurfi að gera það tvisvar?


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla „slæmur kostur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband