Erlendir snillingar auðga tónlistarlífið.

imgp0320.jpg

Ég var að koma úr ferðalagi til Borgarness, Blönduóss, Sauðárkróks og Varmahlíðar. Á Blönduósi voru hljómleikar fjögurra kóra, - þar af voru þrír úr Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu. 

Þessum þremur kórum ég hef kynnst áður og þeir stóðu sig vel að vanda. En gestakórinn Sálubót úr Þingeyjarsýslu kom mér verulega á óvart og má segja að hann hafi verið einskonar senuþjófur á þessum tónleikum, einkum stjórnandinn, Jaan Alavere. 

Sjá má hann og hluta af kórnum á mynd hér til hliðar, sem því miður er dálítið óskýr. 

Ég minnist þess ekki að hafa kynnst viðlíka frammistöðu stjórnanda á tónleikum, einkum vegna þess að ásamt frábærum töktum í að stjórna kórnum, spilaði hann undir á píanó á meðan á einstæðan hátt, að ekki sé minnst á flettingar hans á nótunum á meðan.

Flutningur lagsins Arrivederci Roma varð fyrir bragðið mjög eftirminnilegur og ógleymanlegur.

Nú starfa að minnsta kosti þrír erlendir snillingar í tónlistarlífinu í Norðausturlandi.

Einum þeirra, Valmari Valjaots, kynntist ég þegar hann annaðist tvívegis hjá mér undirleik á skemmtunum á Akureyri og í Hrísey og gerði það á svo eftirminnilegan hátt að af því hef ég sögu að segja sem því miður yrði of langt mál að segja hér á blogginu. 

Maður veltir því fyrir sér hvers vegna slíkt afburðafólk flyst til Íslands og hvers vegna það flyst út á land í stað þess að búa í Reykjavík.

Á Þjóðahátíð fyrir vestan útskýrði Einar K. Guðfinnsson það með því að vitna í einn af afburða tónlistarmönnum, sem hafði flust vestur.

Þessi erlendi snillingur sagði: "Þegar maður flytur frá margra milljóna manna borg í Mið-Evrópu út á eyjuna Ísland sem liggur langt frá öðrum löndum, skiptir ekki máli hvort smábærinn, sem maður flyst til, heitir Reykjavík eða Ísafjörður." 

Um miðja síðustu öld voru margir helstu burðarásar íslensks tónlistarlífs aðfluttir útlendingar svo sem Franz Mixa, Victor Urbancic, Róbert Abraham Ottóson, Jan Moravec, Carl Billich og Jose M. Riba. 

Án slíks fólks hefði íslenskt menningarlíf orðið stórum fátækara og þetta á við enn í dag. 


Flaggskipið að koma úr kafi ?

Það hefur mátt líkja Frjálslynda flokknum við lest sex skipa. Í fyrstu kosningunum 1999 náði flokkurinn ekki 5% markinu, en flaggskip Guðjóns Arnars komst í höfn og dró næstöflugasta skipið í Reykjavík inn á þing með sér. Hin skipin sukku.

2007 var nýr skipstjóri á skipi flokksins í Reykjavík suður og seigur skipstjóri var í Suðurkjördæmi og þessi skip komust inn auk flaggskipsins, sem flutti tvo menn á þing. 

Síðustu mánuði hefur litið út fyrir að skipalest hins fyrrum togaraskipstjóra væri öll sokkin, þótt segja mætti að flaggskipið maraði í hálfu kafi. 

Guðjón Arnar átti ekki annars úrkosti en að taka áhættuna af því að láta Capacent Gallup gera sérstaka skoðanakönnun fyrir sig í stað þess að horfa upp á það ástand sem hefur blasið við í öllum skoðanakönnunum undanfarnar vikur. Þetta var síðasta vonin. 

Hann hafði ekki lengur neinu að tapa með því að láta skeika að sköpuðu núna.   

Guðjón Arnar er ólíkindatól sem enginn skyldi vanmeta. Harka og dugnaður hins fyrrum aflaskipstjóra er gríðarleg. Skipstjórinn í Reykjavík suður stökk frá borði og ætlaði yfir í stærra skip en komst aldrei um borð. Hver höndin upp á móti annarri á flotanum. 

Nú gæti það hins vegar gerst að Guðjóni Arnari takist enn og aftur að toppa á réttum tíma síðustu dagana fyrir kosningar. Það mun varla duga til að ná neinu hinna skipa hans upp úr kafinu en hins vegar verða til þess að enn og aftur nái hörkutólið á flaggskipinu að sigla því í höfn. 

Þetta verða líklega mjög spennandi kosningar í Norðvesturkjördæmi. Svo kann að fara að sagan frá 1999 endurtaki sig og að staðan verði svipuð núna og hún var fyrir tíu árum hvað snertir Frjálslynda flokkinn, sem þá yrði á ný kominn á byrjunarreit.  


mbl.is Frjálslyndir með 9,3% í NV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur útvega sönginn í NV-kjördæmi.

Í dag fór ég í Borgarnes, á Sauðárkrók og síðan á vel sótta tónleika fjögurra kóra á Blönduósi. Þar mátti sjá frambjóðendur á ferð meðal áheyrenda, til dæmis þá Jón Bjarnason, Guðbjart Hannesson og Einar K. Guðfinnsson. Þetta er líklega áhrifaríkasti vettvangur frambjóðenda þessa síðustu viku fyrir kosningar, en nú er einmitt tími tónleika hinna ýmsu kóra þar sem sett er fram uppskera vetrarins. 

Á öðrum fundum frambjóðenda með stuðningsmönnum í flokkum þeirra er mun færra fólk, en þau tengsl verða frambjóðendur þó að rækta, vegna þess að á þessa fundi koma dyggustu stuðningsmennirnir og þeir sem vinna mest fyrir flokkana. 

Hljómleikarnir á Blönduósi voru afar gefandi tónleikar á alla lund sem tóku öllum brekkusöng fram. Sjálfur kom ég aðeins við sögu á fundum Guðbjarts í Borgarnesi og á Sauðárkróki og var þar hafður söngur um hönd án gítars.

Ætla að blogga nánar um hljómleikana á Blönduósi þegar ég kem suður og setja inn myndir af þeim, en ég gleymdi græjunum til að setja þær inn fyrir sunnan . 


mbl.is Brekkusöngur fyrir kjósendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband