21.4.2009 | 23:59
Byrjuðu að blanda sér inn 6. apríl.
Ef skilningur Sjálfstæðismanna á samskiptum við ESB er réttur byrjuðu embættismenn ESB að blanda sér inn í íslensk stjórnmál og kosningabaráttuna hér og sýna dólgshátt gagnvart Sjálfstæðisflokknum þegar fyrir hálfum mánuði.
Þá birtist grein í Financial Times um þá hugmynd ríkja í Austur-Evrópu að taka upp evru þótt skilyrði fyrir því væru ekki uppfyllt og daginn eftir var hún snarlega skotin í kaf af talsmönnum Seðlabanka ESB.
Embættismennirnir eru einungis að staðfesta þetta núna þegar spurt er frá Íslandi um þetta mál, enda engin leið að leyna því sem kom fram fyrir hálfum mánuði af þeirra hálfu.
Ég fæ ekki séð hvernig þessir embættismenn áttu að geta séð það fyrir að Sjálfstæðismenn myndu bera upp þá hugmynd tíu dögum síðar að taka upp evru einhliða. Ef þeir hefðu neitað að svara spurningum um þetta núna hefði einfaldlega verið hægt að benda á svör þeirra fyrir hálfum mánuði, sem engin leið er að þurrka út, hvað sem íslenskri kosningabaráttu líður.
![]() |
ESB blandar sér í kosningabaráttu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2009 | 11:44
Minnir á Borgaraflokkinn.
Borgaraflokkurinn á sínum tíma kom mönnum á þing vegna megnrar óánægju fólks hægra megin á miðju stjórnmálanna, - fólks sem áður hafði margt hvert kosið Sjálfstæðisflokkinn.
Í framboði fyrir Borgaraflokkinn var líka fólk vinstra megin frá eins og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.
Það gefur auga leið að þegar fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar úr ca 35% niður í 22-25% þá fer þetta fólk yfir á önnur framboð. Og óánægjan ristir miklu dýpra nú en 1987.
Fyrr á tíð hafði Sjálfstæðisflokkurinn lag á að taka upp á sína arma ýmis mál frá krötum, svo sem almannatryggingar 1946, félagslegar íbúðir á sjöunda áratugnum og ýmsa þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar.
Á þessu byggði flokkurinn fjöldafylgi sitt. Nú geta þau 10-13% Íslendinga sem áður gátu hugsað sér að kjósa flokkinn, ekki fengið það af sér eftir það hrun helblárrar hugyndafræði, sem flokkurinn var orðinn merkisberi fyrir.
Borgarahreyfingin nýtur vafalaust góðs af því að vera með líkt nafn og Borgaraflokkurinn hafði á sínum tíma.
Borgaraflokkurinn, Bandalag jafnaðarmanna, Þjóðvaki og Íslandshreyfingin toppuðu öll, svo notað sé orðalag úr íþróttamáli nokkrum vikum fyrir kosningar. Spurningin nú er sú, hvort Borgarahreyfingin toppar á réttum tíma fyrir sína baráttu og nýtur að því leyti jafnvel góðs af því að kosningabaráttan er svo miklu styttri núna en áður.
![]() |
O-listi fengi fjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)