25.4.2009 | 20:55
Hárrétt hjá Jóhönnu að nota túlk.
Ég heyri að einhverjir eru á bloggi og víðar að hnýta í Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að nota túlk í viðtölum sínum við útlendinga í dag og gefa í skyn að það sé lítillækkandi fyrir han og landið að hafa forsætisráðherra sem ekki teysti sér til að tala reiprennandi erlend mál og brillera þannig í samskiptum við útlendinga.
Þessu er ég alveg ósammála og finnst viðhorf af þessu tagi lýsa óþarfa minnimáttarkennd.
Þvert á móti hafa margir íslenskir ráðamenn gert þau mistök að ræða um viðkvæm mál við útlendinga án þess að gera það á þeim jafnréttisgrundvelli að báðir fái að tala móðurmál sitt en ekki bara annar aðilinn.
Oft hefur niðurstaðan orðið broslegur misskilningur en líka hætta á mistökum sem ekki verði bætt.
Íslenska þjóðin hefur ekki efni á misskilningi og ójafnræði í viðræðum við útlendinga nú um stundir.
Það getur að sjálfsögðu verið akkur í því að fulltrúar okkar í samskiptum við útlendinga nýti afburða tungumálafærni í þágu þjóðarinnar. En margir erlendir kollegar Jóhönnu stilla sig um að tala til dæmis ensku í slíkum tilfellum þótt þeir geti það svosem.
Jóhanna er í góðum félagsskap þegar hún notar túlk. Þetta gerðu Stalín, Krústjoff, Bresnéf, De Gaulle, Mitterand og aðrir leiðtogar helstu stórvelda heims.
Aðeins einu sinni minnist ég þess að mistök túlks hafi valdið vandræðum. Það var þegar Krjústjoff notaði rússneskt orðalag og sagði við Bandaríkjaforseta um samkeppni Bandaríkjanna og Sovétríkjanna: "Við munum grafa ykkur!"
Þetta reitti Bandaríkjamenn og Vesturlandabúa til reiði en túlkurinn hafði gert þau mistök að þýða orð Krjústjoffs eftir orðanna hljóðan en ekki eftir hinni raunverulegu meiningu.
Þetta mun hafa verið hliðstætt því að íslenskur ráðamaður segði: "Við eigum eftir að baka ykkur!" eða "Við eigum eftir að steikja ykkur!" og túlkurinn þýddi þetta sem allra nákvæmast með því að segjai: "Við eigum eftir að brenna ykkur lifandi!"
Slík mistök og misskilningur geta verið slæm en þó er mun minni hætta á slíku með því að nota túlk heldur en þegar verið er að reyna að bjarga sér á öðru máli en eigin tungumáli gagnvart viðmælanda sem er á heimavelli eigin móðurmáls.
![]() |
Birgitta kaus í Hagaskóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.4.2009 | 12:47
Fífill fegri. Draumur Héðins.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mega muna sinn fífil fegri. Í kosningunum 1927 fengu Íhaldsflokkur og Frjálslyndi flokkurinn rúmlega 50% atkvæða en Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur fengu þó meirihluta þingmanna og í kjölfarið kom fyrsta vinstri stjórnin á Íslandi, því að Framsóknarflokkurinn var þá vinstra megin við miðju miðað við það litróf vinstri/hægri sem þá ríkti.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut tæplega 50% atkvæða 1933 og Framsóknarflokkurinn var allar götur frá þessum tímum og fram eftir öldinni með meira en 20% atkvæða og komst í 28% 1967.
Hvað eftir annað fengu þessir tveir flokkar samanlagt um tvo þriðju atkvæða en samkvæmt skoðanakönnunum gætu þessir tveir flokkar fengið um 34-37% samanlagt núna en það er aðeins helmingur af því fylgi sem þeir fengu lengst af síðustu öld.
Talað var um afhroð þessara flokka í kosningunum 1978 en þó fengu þeir um 55% atkvæða þá og fjögurra þingmanna meirihluta.
Þeir tveir flokkar sem nú geta staðið fyrir straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum, Samfylking og Vinstri grænir vísa báðir til hins "skandinavíska módels" sem Jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum innleiddu snemma á síðustu öld.
Meirihluti Sf og Vg myndi þýða að það sem gerðist hjá norrænu frændþjóðunum fyrir meira en 80 árum er fyrst að gerast hér núna.
Þetta er að vísu dálítil einföldun. Sem dæmi má nefna að í ríkisstjórnunum 1944-47 og 1959-71 stóð Sjálfstæðisflokkurinn að stjórnarsamstarfi sem innleiddi baráttumál jafnaðarmanna, almannatryggingar í Nýsköpunarstjórninni og félagslegar íbúðir og öfluga lífeyrissjóðir í samvinnu við verkalýðshreyfinguna á síðara tímabilinu.
Framsóknarflokkurinn stóð að vinstri stjórnum 1934-39, 1956-58, 1971-74, 1978-79 og 1988-1991 sem mátti líkja við jafnaðarmannastjórnirnar á Norðurlöndum.
En verði meirihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að veruleika eftir þessar kosningar hefur 70 ára gamall draumur Héðins Valdimarssonar orðið að veruleika.
![]() |
Bjarni Ben kaus fyrstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2009 | 01:26
Svipað hefur gerst áður.
Skemmdarverkin við Leirtjörn eru dapurleg og fordæmanleg. Svona skrílmennska er einkennilega algeng hér á landi og ekkert nema vont um hana að segja.
En þau rifja þó upp fyrir mér litla frétt sem ég þurfti að skrifa fyrir Sjónvarpið fyrir um 30 árum sem var hliðstæð en þó brosleg í bland.
Slökkviðlið Reykjavíkurflugvallar fékk þá leyfi sem oftar til að draga saman eldfimt dót við austurenda a-v brautarinnar, - gott ef þetta var ekki flugvélarskrokkur og fleira slíkt. Síðan var flutt þangað eldsneyti til þess að kveikja í og æfa slökkviliðið í því að slökkva eldinn.
Þegar allt var að verða tilbúið varð einhverjum það á að líta á klukkuna og sá að það var kominn kaffitími. "Kaffi!" hefur stjórnandinn þá væntanlega hrópað og fóru menn við svo búið inn á stöð til að næra sig áður en kveikt væri í öllu draslinu og æfingin hæfist.
En þá vildi svo slysalega til að einhverjir pörupiltar, sem fylgst höfðu með slökkviliðsmönnunum, læddust að vettvangi meðan slökkviliðið var í kaffi og kveiktu í öllu saman svo úr varð mikið bál, enda eldsneyti og eldsmatur þarna mikill.
Slökkviliðsmenn fréttu þetta svo seint inn á kaffistofu sína að þegar þeir komu á staðinn var allt þegar brunnið til ösku.
Á þessum árum tíðkaðist það að gefa fréttum svonefnd vinnuheiti, sem notað var við útsendingu án þess að sjónvarpsáhorfendur vissu af því. Ég gaf þessari frétt minni vinnuheitið: "Brunaæfing eyðileggst í eldi."
![]() |
Vargar rústuðu æfingasvæði SHS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)