8.4.2009 | 12:04
Mistókst í 65 ár.
Í 65 ár hafa íslenskir alþingismenn haft tækifæri til að standa við stóru loforðin, sem gefin voru við lýðveldisstofnunina um að lagfæra stjórnaskrána, sem að stofni til er runnin frá stjórnarskrá Danmerkur 1849.
Sumar stjórnarskrár, eins og sú bandaríska, hafa staðist vel tímans tönn. Það segir þó ekkert um það hvort aðrar stjórnarskrár henti jafn vel öld fram af öld. Sú danska frá 1849 er að talsverðu leyti orðin úrelt og þarfnast skurðaðgerðar.
Ótal stjórnarskrárnefndir hafa verið stofnaðar frá 1944 en nánast engum þeirra hefur tekist að koma með neinar breytingar sem skipta máli. Fækkun kjördæmanna úr átta í sex fyrir áratug var ekki stórfelld breyting.
Einu breytingarnar sem jöfnuðu vægi atkvæða að einhverju marki voru gerðar eftir tvennar kosningar sama árið.
Það var árið 1942 og síðan aftur 1959. Það er athyglisvert að þessar nauðsynlegustu breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni, voru ekki gerðar í margutalaðri sátt, sem sífellt er klifað á að sé forsenda gagnlegra breytinga, heldur barðist Framsóknarflokkurinn hatrammlega á móti.
Það má því leiða að því rök að forsenda þess að koma þessum mikilvægu réttarbótum í framkvæmd hafi einmitt verið að láta ekki minnihlutann taka málið í gíslingu og eyða því.
Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir breytingum á kjördæmaskipaninni á sínum tíma en vill nú taka málið í gíslingu eins og Framsóknarflokkurinn forðum.
Það er engin furða að við siðrof og efnahagslegt og stjórnmálalegt hrun hafi langlundargeð kjósenda þrotið gagnvart máttleysi alþingis í þessu efni.
Þetta máttleysi stafar fyrst og fremst af því að þegar 63 þingmenn fjalla um breytingar á eigin högum er ekki hægt að búast við að þeir þori að gera umtalsverðgar breytingar, hversu nauðsynlegar og einfaldar sem þær kunna að sýnast.
Alþingi Íslendinga hafði meira en hálfa öld til að gefa þjóðinni nýja og ferska stjórnarskrá. Það hefur klúðrað þessu viðfangsefni sínu og er því fallið á tíma.
![]() |
Krafa um aukið lýðræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.4.2009 | 00:18
Íslendingar hjálpa nauðstöddum.
Líklega líður ágæt tilfinning um marga stóriðjusinnana við að hugsa út í það að við Íslendingar veitum Alcoa hjálp til að minnka tap fyrirtækisins sem komst í hámæli í dag. Það gerum við með því að selja þeim orkuna á spottprís svo að tryggt sé að hvernig sem allt veltist græði þeir vel á álverinu á Reyðarfirði og síðar einnig á Bakka og jafnvel víðar.
Þegar þar að kemur verður síðan ekki ónýtt fyrir okkur Íslendinga að geta rétt útlendingum hjálparhönd með því að lofa þeim að eignast orkuauðlindirnar þegar tapið á Landsvirkjun fer að sliga okkur.
Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að fara og sjá Draumalandið, hina frábæru mynd þremenninganna Andra Snæs Magnasonar, Þorfinns Guðnasonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar sem sýnd var á forsýningu í kvöld í Háskólabíói.
Í myndinni sést vel hvernig við erum í hópi með ánauðugustu og fátækustu þjóðum heims þegar kemur að því að vera hjálpsamir við erlend stóriðjufyrirtæki í erfiðleikum og afhenda þeim land til umturnunar í þágu hins erlenda auðmagns og algerrar eignar þegar fram í sækir.
![]() |
Tap Alcoa meira en talið var |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)