Vald peninganna.

Það hefði verið "grand" hjá Íslandshreyfingunni - lifandi landi að fara í kosningabaráttu núna og segja við fólk: "Við höfum ekkert að bjóða, engar auglýsingar, kosningaskrifstofur, fundi eða bæklinga, - ekkert að bjóða nema okkur sjálf og hugsjónir okkar."

Af svörum yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna við spurningunni um þetta mátti ráða að þetta væri ekki raunhæft, sérstaklega með tilliti til þeirrar áhættu að í kraðaki margra smárra framboða myndi vera meiri hætta en minni á því að gera ógagn að þessu sinni þótt okkur tækist að gera gagn í síðustu kosningum. 

Hreyfingin fór því inn í Samfylkinguna, fann þar eðalgræna samherja og studdi þá til þess að móta mikilvæga þætti í stefnumótum landsfundar, sem sumir marka tímamótl þótt það hafi ekki vakið athygli um sinn. 

Áður hafa menn boðið sig fram án þess að hafa fjármagn. Það hafa þeir gert í þeirri trú að hugsjónir þeirra og heiðarleiki nægðu.

Ég get nefnt nokkra en læt tvo nægja. Ólafur Björnsson prófessor var einstakur heiðusmaður sem ég kynntist sem læriföður í lagadeild Háskólans. 

Hann taldi sig vera talsmann bestu gildanna sem hann vildi að flokkur sinn, Sjálfstæðisflokkurinn, berðist fyrir. Hann andæfði því siðlausa fyrirgreiðslu- og sjálftökukerfi sem tíðkaðist á haftaárunum í spillingu helmingaskiptastjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Ólafur þurfti lengi vel ekki að óttast um þingsæti sitt, svo mikill grundvallarhugsuður sem hann var fyrir flokkinn. Þegar hann var varaður við því að keppinautur hans í prófkjöri fengi digran styrk frá Ísal í Straumsvík kvaðst hann treysta dómgreind kjósenda og ekki vilja taka þátt í peningakapphlaupi prófkjörsins.

Ólafur tapaði í prófkjörinu og var sleginn út úr íslenskri pólitík. Síðan kalla margir hann og hans líka vafalaust "lúsera." Þeim hinum sömu væri hollt að hugsa til þess að nú er gengin í garð hátíð sem byggist á því þegar líflátinn var einhver mesti "lúser" allra tíma.

Eða hvað var Kristur annað þegar hann sagði á krossinum: "Faðir, í þínar hendur fel ég anda mínn."

Í mínum huga er Ólafur Björnsson ekki lúser heldur sigurvegari. Svipað er að segja um Guðmund G. Þórarinsson sem tapaði fyrir ofurefli spillts mótframboðs í prófkjöri á sínum tíma. Af því kann ég magnaða sögu sem ég geymi með sjálfum mér.

Aðalatriðið nú er það að ég og skoðanasystkin mín erum í tímakapphlaupi við virkjanasinna sem stefna nú ótrauðir áfram þrátt fyrir kreppu og sækja meðal annars með umhverfisspjöll sín inn á heimsundrið Leirhnúk-Gjástykki, sem ég bloggaði um um daginn.

Ég tyllti mér niður hér á Akureyri til að blogga þetta á leið austur á þennan nærtækasta bardagavöll umhverfismála á Íslandi þar sem búast má við jarðýtum og borum í eyðandi sókn á þessu ári hvernig sem allt annað veltist. 

Ég væri ekki staddur hér í bráðnauðsynlegri ferð ef ég væri á kafi í kosningabaráttu eins og fyrir tveimur árum.  


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband