11.5.2009 | 21:26
Ekki keppni fatahönnuða.
Keppni er nefnd Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Hvað þýðir það?
Atriðin hljóta að vera nokkurn veginn í þessari mikilvægisröð.
1. Þetta er söngvakeppni, ekki endilega söngkeppni eða söngvarakeppni, þótt söngurinn skipti auðvitað máli. Þetta er keppni um besta lagið, lag sem eigi eftir að lifa í flutningi ótal söngvara. Lagið "Heyr mína bæn" var besta lagið í einni keppninni og vann verðskuldað þótt söngkonan var ekki sú besta, - Ellý söng þetta lag margfalt betur síðar.
2. Textinn við lagið. Einhvert vanmetnasta atriðið. Til úskýringar nefni ég lag, sem var ekki í söngvakeppni, en er mjög gott. Bítlarnir gerðu þetta lag sem hét fyrst "Scrambled egg." Hefði það orðið jafn frábært með þeim texta og með hinum endanlega texta: "Yesterday"?
3. Söngurinn. Hann skiptir miklu máli. Við þekkjum mörg dæmi um það.
4. Útsetning lagsins og hlutverkaskipan.
5. Sviðsuppsetning (kóreógrafí).
6. Útlit og aldur flytjandans þarf að passa við lagið og lyfta því frekar en hitt.
7. Fatnaður.
Mjög mikilvægt er að einráður stjórnandi sjái um að þessi atriði séu öll í lagi og vinni saman, en ekki hvert á móti öðru og að þeim sé rétt forgangsraðað.
Á þetta hefur oft skort og hér kem ég að hættu sem er á ferðum núna: Þetta er ekki keppni í fatnaði, ekki keppni fatahönnuða.
Kann vel að vera að fatnaðurinn, sem viðkomandi fatahönnuður hefur valið, veki lang mesta athygli, og myndi sigra í sérstakri keppni fatahönnuða á stórri tískusýningu, en þá hættir fatnaðurinn að styðja lagið og flutning þess og stelur athyglinni frá því.
Við munum eftir fatnaðinum hlægilega í Gleðbankanum og buxnakjól Selmu, sem rændi hana sigri.
Besta dæmið sem ég veit um fatnað er úr norskri kosningabaráttu á áttunda áratugnum.
Formaður Miðflokksins kom í sjónvarpskappræður með æpandi rauðskræpótt hálsbindi og allir á heimlinu fóru að tala um hálsbindið og tóku ekki eftir því sem maðurinn sagði.
Eftir á var hálsbindinu kennt um ósigur flokks hans og gott ef ekki stjórnarskipti.
Ég er dauðhræddur við þetta kjólhlass sem Jóhanna Guðrún á að vera í. Sverrir Stormsker kallar það gardínuafganga. Það hefur þegar vakið athygli, umtal og deilur og mér líst ekkert á blikuna.
![]() |
Jóhanna Guðrún ekkert stressuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.5.2009 | 20:18
Berlusconi gleður íslenska framfarasinna.
Þeir sem hafa hafa verið á móti því að friða "kofadrasl" eins og Bernhöftstorfuna og slík hús hafa fengið öflugan bandamann, sem hefur borið hróður framfarasinnaðra nýbyggingasinna og skömm íslenskra húsfriðunarsinna á öldum ljósvakans um allan heim, ef marka má frétt í útvarpinu nú í kvöld.
Frétttin sem nú flýgur um heiminn greinir frá því að Berlusconi hafi sagt á fundi með páfanum að það væri nú munur að sjá allar glæsibyggingarnar í Róm samanborið við kirkjuræksnið í Finnlandi sem hann hefði verið ræstur að morgni til að skoða í margra klukkustunda ferðalagi.
Sagði Berlusconi að ef kirkjukofi þessi hefði verið á Ítalíu væri fyrir löngu búið að rífa hann og mátti af fréttinni ráða að ítalska mikilmennið hefði þótt næstum móðgandi að láta sig eyða mörgum klukkustundum í að skoða kofadrasl og grjót.
Finnar komu af fjöllum,fóru í rannsóknarblaðamennsku og fundu út að Berlusconi hafði ruglað saman Finnlandi og Íslandi og að kirkjuræksnið að tarna hefði ergt hann í Þingvallaferð með Davíð Oddssyni.
Þar með hefur fréttaflutningur þessi erlendur beint skömminni frá Finnum að Íslendingum og sitjum við nú heldur betur í súpunni.
Ekki fylgir sögunnni hvort þingstaðurinn sjálfur á Þingvöllum hafi verið nokkuð skárri í endurminningu Berlusconis í samanburði við glæsihallir rómverskra ráðamanna en miðað við það hvað þessi ferð ergði hann er ekki ólíklegt að honum hafi fundist lítið til koma svo nöturlegs samkomustaðar valdamanna örþjóðar miðað við hin rómversku höfðingjasetur.
Er ljóst að íslenskir framfarasinnar hafa nú fengið öflugan bandamann til þess að gangast fyrir niðurrifi Bernhöftstorfu, Viðeyjarstofu og bygginga á Bessastöðum og reisa í staðinn nokkra glæsi-glerturna á borð við þann sem nú hefur stolið frá mér og allmörgum öðrum útsýni til Snæfellsjökuls, sem auðvitað stenst engan samanburð við Etnu.
P. S. Nú bíður maður eftir frásögn Clintons af skúrræflinum sem hann neyddist til að kaupa sé pylsu í hér um árið í stað þess að farið væri inn á mannsæmandi veitingastað. Skömm Íslendinga á þessu sviði er kannski rétt á byrjunarreit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2009 | 12:45
Munurinn á: "Við borgum ekki", eða "Við getum ekki borgað allt."
Íslendingar eru ekki fyrsta þjóðin sem stendur frammi fyrir þeirri stóru spurningu hvort hún geti staðið við skuldbindingar sínar og borgað skuldir sínar.
Þetta hefur áður komið fyrir fátækar þjóðir í þriðja heiminum og stundum hafa liðið mörg ár sem þær þurftu að berjast vonlausri baráttu við að greiða af himinháum skuldum sem augljóst var að þær höfðu enga möguleika á að greiða.
Það er mikill munur á því að hrópa: "Við borgum ekki!" eða að segja: "Við getum ekki borgað allt og það er heldur ekki sanngjarnt að við berum þetta ein, því að það var vegna galla í sameiginlegum reglum ESB/EES að skuldin varð svona stór."
Fyrir utan þann geigvænlega vanda sem framundan er við niðurskurð ríkisútgjalda, er það mikilvægasta viðfangsefni Íslendinga að fá lánardrottna okkar erlendis til að líta af sanngirni og skynsemi á stöðu okkar.
Þetta er ekki auðvelt því að erlendir viðsemjendur okkar vilja bíða og sjá hvernig spilast úr spilunum, hvort og þá hvað mikið fáist úr eignum okkar erlendis og hvernig framvindan verður almennt í kreppunni í efnahagsmálum heimsins.
Raunar er þetta vandamál þjóðarinnar það sama og hjá mörgum þeim einstaklingum og fjölskyldum, sem geta ekki staðið í skilum með lán sín.
Þótt sumir séu svo illa staddir að þeir telji sig ekki geta borgað neitt, eru áreiðanlega margir sem gætu borgað hluta, þó ekki væri nema sem svaraði því að borga húsaleigu ef um leiguhúsnæði væri að ræða.
En auðvitað eru aðstæðurnar eins misjafnar og aðilar eru margir. Mörgum íbúðareigandanum svíður að horfa fram á það að verða í skuldafangelsi alla ævi. Það er skiljanlegt. Þó er þessi aðstaða svipuð og hjá þeim sem býr í leiguhúsnæði alla ævi og borgar jafn mikið í húsaleigukostnað og íbúðareigandinn borgar af skuldum sínum.
![]() |
Mikil þrautaganga framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)