Öfgafyllri fótalyftingar óhollar.

Ég hef einfalt viðmið um hollustu. Það sem var best fyrir frummanninn, sem við höfum öll fengið genin okkar frá, er best fyrir okkur. Frummaðurinn stundaði ekki himinháar fótalyftingar eins og rannsókn sýnir að ballettdansarar hyllast æ meira til að framkvæma.

Frummaðurinn hljóp ekki tugi kílómetra í einum rykk á hörðu malbiki, jafnvel dag eftir dag En hann varð endrum og sinnum að hlaupa eins hratt og hann gat, ýmist við að elta bráð eða forða sér sjálfum. Og stundum þurfti hann að hafa úthald í svona hlaupum. Því held ég að sprettir og hlaup á víðavangi, sem líkist gresjum og söndum, séu í lagi í hófi.

Besti millivegalengdahlaupari veraldar um og eftir 1940, Svíinn Gunder Hagg, notaði það sem hann kallaði "fartlek", eða hraðaleik til að ná árangri. Hann hljóp á fjölbreytulegu undirlagi, mestan part úti í náttúrunni, líkt og frummaðurinn gerði. Setti met í 1500 og míluhlaupum sem stóðu í mörg ár.

Síðar komust menn lengra með öfgafyllri æfingum en ég held að kominn sé tími til að innleiða hraðaleikinn aftur og spara malbikshlaupin, jafnvel þótt árangurinn í blóma lífsins verði ekki eins mikill.

Fyrir sex árum fékk ég svonefnt tábergssig vegna tilbreytingarsnauðra hlaupa á hörðu undirlagi. Læknar sögðu mér að þetta væri kallað "hlauparaveikin." Hin síendurteknu hörðu högg neðan á iljarnar yllu því að beinin í fætinum sigju niður og færu að lokum út um þófann.

Um svipað leyti fór að hrjá mig svonefnt samfall í neðstu hryggjarliðunum með tilheyrandi verkjum, máttleysi og náladofa út í fæturna.

Nálarstungusjúkraþjálfari, alger kraftaverkamaður, innti mig eftir hreyfingavenjum mínum. Í ljós kom að ég hljóp mikið á hörðu undirlagi og hafði unun af að spila innanhússfótbolta. Hann setti hvort tveggja á bannlista og sagði mér að finna aðra leið til þrek-, úthalds- og snerpuæfinga sem ég og gerði.

Hann vildi fá að vita um allar staðæfingar mínar og svitnaði þegar ég sagði honum frá einni þeirra sem fólst í því að hoppa í kyrrstöðu og lyfta fótunum ofurhratt hátt upp, ýmist bognum eða beinum hundrað sinnum í röð á einni mínútu og tíu sekúndum.

Hann fórnaði höndum þegar ég greindi honum frá annarri æfingu þar sem legið er flatur á bakinu á gólfinu, og fótum og höndum síðan lyft beinum eldsnöggt upp svo að tær nema við fingurgóma tíu sinnum í röð þegar líkaminn myndar stafinn V eitt andartak.

Hann sýndi mér á líkani af hrygg og taugakerfi hvernig þessar öfgafullu hreyfingar ofreyndu taugarnar, sem lágu út í fæturna, svo að taugarnar urðu smám saman bólgnar. Í kjölfarið reyndu aðrar sinar, taugar og vöðvar að taka álagið á sig uns allt færi í hnút.

Ég fór eftir ráðleggingum hans og smám saman stórbatnaði ástandið. Hef ekki þurft að fara til hans í tvö ár.

Auk hlaupanna á malbikinu og malarvegunum spilaði ég um þrítugt innanhússfótbolta í nokkur ár á steingólfi í ókláruðu íþróttahúsi.

Frummaðurinn gerði aldrei neitt þessu líkt enda hef ég nú farið í aðgerðir með bæði hnén, sem verða aldrei jafngóð eftur svona meðferð þegar maður var ungur og hugsaði ekkert um það að það þyrfti að greiða svona vitleysu dýru verði síðar.

En, - ég verð samt að viðurkenna það, - það var alveg rosalega gaman í fótboltanum ! Bara að hann hefði nú ekki verið spilaður á steinsteypunni.


mbl.is Öfgafyllri fótalyftingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin tók fyrsta skrefið 25. apríl.

Þjóðin tók fyrsta skrefið í átt að persónukjöri í kosningunum í vor. Tvöfalt fleiri en áður nýttu sér rétt sinn til að strika út nöfn eða endurraða á framboðslistunum og færðu þar með niður tvo þingmenn um eitt sæti hvorn og litlu munaði að þeir yrðu fleiri.

Þeir sem hafa allt á hornum sér varðandi persónukjörið gefa sér það að öll framboð verði skikkuð til að bjóða fram óraðaða lista og láta þeim kjósendum, sem það vilja, allt vald í hendur til að raða á listana.

Þessu var ekki svona farið í þeim drögum að lögum um persónukjör sem reifuð voru í vor. Samkvæmt því átti að ganga eins skammt í þessu efni og unnt væri og gefa framboðunum sjálfum kost á að velja, hvaða hátt þau vildu hafa á.

Það getur orðið aðallega á þrennan hátt:

1. Framboðið leggur fram raðaðan lista með númer fyrir framan hvert nafn og sömu reglur gilda þá um kosninguna og verið hefur.

2. Framboðið leggur fram lista sem þeirri röð frambjóðenda sem flokkurinn mælir með, og eru þá ekki númer fyrir framan nöfnin en þeir kjósendur, sem það vilja, raða síðan með því að númera við nöfn og hafa að því leyti til allt vald til að raða á listann.

3. Framboðið leggur fram algerlega óraðaðan lista nema hvað efsta nafnið er valið með slembivali. Þeir kjósendur sem það vilja ráða öllu um röðina á listanum.

Nú er komin margra áratuga hefð á að fólk geti raðað á lista flokkanna í prófkjörum. Það á ekki að vera neitt stórmál fyrir kjósendur að setja númer fyrir framan nöfn frambjóðenda í samræmi við ósk hvers kjósanda um röð.

Persónukjör hefur gefist vel í nokkrum nágrannalöndum okkar. Hvers vegna að vantreysta íslenskum kjósendum? Hvað er svona voðalegt við lýðræðið ?


mbl.is Persónukjör á næsta ári?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fengu einn vinnudag hvort.

Kolbrún Halldórsdóttir var aðeins búin að sitja einn vinnudag í embætti umhverfisráðherra þegar formaður Framsóknarflokksins gerði henni grein fyrir því að það væri skilyrði flokksins fyrir að verja stjórnina vantrausti að áfram yrði haldið á stóriðjubrautinni án minnstu tafar.

Steikngrímur Sigfússon kynnti í fyrradag umhverfisstefnu nýrrar ríkisstjórnar en fróðlegt er að sjá skilaboðin sem ráðuneyti hins græna fjármálaráðaráðherra senda út aðeins einum degi síðar: Þar segir að það sé skilyrði fyrir því að hægt verði að vinna bug á kreppunni að halda stóriðjustefnunni áfram.

Þetta eru sígild skilaboð til hinnar hræddu þjóðar: Það má ekki hætta á braut stóriðju og virkjana, annars er hér kreppa og atvinnuleysi.

Fyrrum ráðamaður þjóðarinnar lýsti þessu þannig fyrir mér að þegar búið yrði að virkja allt og láta stóriðjuna (kannski eitt erlent stóriðjufyrirtæki) hafa alla orku landsins með tilheyrandi eyðileggingu náttúruverðmæta yrði það bara hlutverk komandi kynslóða að ráða fram úr því að virkjanaæðið dygði ekki lengur.

Ef farið verður í byggingu álvers í Helguvík og stækkun í Straumsvík verður farið beint á svig við stefnuatriði í stjórnarsáttmálanum sem þangað rötuðu úr umhverfisstefnu landsfundar Samfylkingarinnar, sem sé þau, að orkuöflun sé sjálfbær (endurnýjanleg) og forðast sé að stunda ágenga orkunýtingu við jarðvarmavirkjanir.

Þetta yrði þverbrotið með þeirri orkuöflun sem álver í Helguvík og stækkun í Straumsvík krefjast og áfram haldið á þeirri braut ósjálfbærrar orku sem leiða mun til eyðileggingar mestu verðmæta landsins, einstæðrar náttúru.

Þegar lofað er hagvexti og nokkur þúsund störfum vegna álversframkvæmda er þess ekki getið að þegar framkvæmdunum ljúki verði þetta fólk atvinnulaust. Þegar maður pissar í skóinn hlýnar honum í bili en verður síðan enn kaldara en fyrr.  

Boðskapur fjármálaráðuneytisins leiðir huganna að því að þegar Davíð Oddssyni mislíkaði við Þjóðhagsstofnun á sínum tíma lagði hann hana bara niður í samræmi við stjórnunarstíl sinn. 

Sagt var að greiningardeildir bankanna, hagfræðingar atvinnulífsins og fjármálaráðuneytisins myndu gera þetta jafnvel, ef ekki betur. Nú hafa sérfræðingar fjármálaráðuneytisins talað og aðrir væntanlega syngja með þeim í kór. 

Margir eru á þeirri skoðun að betra hefði verið að algerlega óháð og öflug stofnun hefði séð um efnahagsgreininguna og efnahagsspárnar í stað greiningardeildianna, sem lituðu hið tryllta hagkerfi "gróðærisins" með gylltum tölum. 


mbl.is Spá hagvexti á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband