16.5.2009 | 19:54
Sú var góð !
Ég hef hlustað á Evróvisionkeppnina rúmlega tvö kvöld, og bæði í kvöld og í fyrrakvöld kom það iðulega fyrir að söngvarar sungu á köflum dálítið falskt, til dæmis sú rússneska sem var á eftir Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur.
En okkar fulltrúi var gersamlega óaðfinnanleg og stóð sig stórkostlega vel ásamt öllum sem á sviði voru.
Hvernig sem fer gaf þetta fólk tóninn um þá leið sem ein getur leitt okkur upp úr áfalli hrunsins.
![]() |
Jóhönnu vel fagnað í Moskvu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.5.2009 | 19:49
Byrjun sem lofar góðu.
Það var ánægjulegt að vera í miðborg Reykjavíkur í dag og fylgjast með því hvernig hliðstæða "Þjóðahátíðanna" úti á landi er að festa sig í sessi hér í Reykjavík. Fjölmenningargangan niður Skólavörðustíg og Bankastræti í dag var lítskrúðug og fjörug og ef veðrið verður ámóta gott næsta ár verður gangan þá áreiðanlega enn skemmtilegri.
Svona hátíðir standa hjarta mínu nærri. Á sínum tíma hafði ég ánægju af því að fara vestur á firði til að fylgjast með og fjalla um fjölmenningarhátíð þar, sem ég valdi nafnið Þjóðahátíð til þess að höfða til þess hve nærri svona hátíð ætti að standa Þjóðhátíð Íslendinga.
Þeir, sem að hátíðinni standa, hafa unnið stórgott starf og höfðu meira að segja látið útsetja og þýða á tvær erlendar tungur lagið Heimsganga sem ég lagði samnefndri göngu í té á dögunum og var spilað og sungið í fyrsta sinn í upphafi göngurnnar í dag.
Meðfylgjandi eru íslenskur og enskur texti Heimsgöngulagsins og raunar var gerður pólskur texti sem ég birti siðar.
Svona ganga, Þjóðahátíðir, sem og fyrirhuguð Heimsganga eru í þágu friðar eins og textarnir bera með sér.
HEIMSGANGA. MARCHING FEET.
Gegn stríði og böli blóðs / The world has seen its wars
berumst við, þú og ég, / They filled our life with woe
og ætlum að ganga til góðs / And left too many scars.
götuna fram eftir veg. / So let´s get up and go.
Við göngum um götur og torg, / We´re marching in every street,
um gresjur og skóga og fjöll, / In mountains without pause
um álfurnar, borg frá borg / And we´ll get the ones we meet
og berum kyndilinn öll. / To join our worthy cause.
Heimsganga! / Marching feet
Heimurinn þráir frið ! / We´re marching now for peace.
Heimurinn, - það erum við, - / Wars they have to cease.
Heiminum gefum grið. We´re marching for world peace.
P.S. Ég gat þess í bloggi í morgun að ég myndi nota daginn í kvikmyndatökuferð austur á hálendi, en veður versnaði og ferðinni var frestað.
![]() |
Stemmning í blíðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2009 | 08:04
"Ekki missa af..."
Eitt lúmskasta slagorð auglýsinga á okkar tímum er setningin: "Ekki missa af...", - þ. e. ekki missa af þessum viðburði, þessu tilboði, þessari vöru o. s. frv....
Slagorðið getur verið jákvætt í sjálfu sér. Okkur er ætlaður takmarkaður tími hér í jarðlífi og því mikilvægt að nota þann tíma vel.
Hin neikvæða hlið er hins vegar sú að maður megi ekki missa af neinu, heldur verði að öðlast allt og megi ekki þekkja nein takmörk, - þaðan af síður forgangsraða hlutum.
Þegar sú eftirsókn er orðin algild og ræður öllu fylgir því óþol, streita og óhamingja.
Í dag er dýrðarveður og ég sé fram á það að missa af ýmsum hlutum. Ég hefði viljað þiggja boð um að marsera með Heimsgöngufólki undir tónlist og baráttulagi, sem ég á hlut að.
Ég hefði viljað þiggja boð um að verða viðstaddur opnun sýningar í Listaháskólanum þar sem mynd, sem mér er skyld, er til sýnis.
Ég hefði viljað fara í flugferð yfir Mýrdalsjökul, sem hefur verið lengi í undirbúningi.
Ég gat ekki hugsað mér að missa af endurfundum þeirrra, sem í gærkvöldi minntust þess að tíu ár eru liðin síðan við fórum yfir Grænlandsjökul. Það var yndisleg samkoma og kannski meira virði vegna þess að ég þurfti að hafa svolítið fyrir því að koma austan af austurhálendinu til þess að fara síðan aftur núna þangað og reyna að ná myndum, sem hugsanlega verða ekki teknar aftur vegna þess hve hlutir breytast þar hratt.
Við eigum að gleðjast yfir því að eiga margra kosta völ, þegar svo ber undir, og láta hugsunina "ekki missa af..." ekki gera okkur óánægð með þá stóru gjöf að fá að vera til.
"Ekki missa af..." var hugsunin á bak við "gróðærið" sem leiddi til hruns. Hugsunin var svo alger að það var pottþétt að við "misstum ekki af" hruninu þótt við hefðum viljað.
Kannski vel ég skakkt með því að fara þessa ferð í stað þess að missa af hugsanlegum samverustundum með mínum nánustu. Slíkar stundir eru það dýrmætasta í lífi hvers og eins.
En ferðin austur verður að eiga sér stað. Hún er afrakstur af þeirri hugsun þjóðarinnar að hún "megi ekki missa af" svipuðu fyrirbæri og gróðærið var, - ekki nóg að tvöfalda rafmagnsframleiðsluna og síðan ekki nóg að fjórfalda hana og síðan ekki nóg að tífalda hana.
Einn bankastjóranna lýsti í tímaritsviðtali á meðan allt stóð sem hæst hugsuninni á bak við hegðun þjóðar okkar þannig: "Við, kynslóðin sem ræður nú mestu, - við vorum alin upp við það að þekkja engin takmörk!"
![]() |
Veðurblíða um helgina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.5.2009 | 02:10
Aðeins verksmiðjur geta "bjargað þjóðinni."
Það er sama hvar gripið er niður í umræðu um það sem geti "bjargað þjóðinni" eins og það er kallað. Alls staðar eru settar fram þær forsendur að reist verði álver. Annars verður kreppan verri, gott ef ekki óviðráðanleg
Einu virtist gilda þótt strax fyrstu vikuna eftir hrunið opnuðust nýir möguleikar í ferðaþjónustu vegna gjörbreyttra og bættra skilyrða og að eftirspurn eftir Íslandsferðum stórykjust. Þetta virðist ekki koma til greina til að "bjarga þjóðinni" eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði að Siv Friðleifsdóttir hefði gert þegar hún leyfði Kárahnjúkavirkjun.
Á ferðum úti á landi rekst ég á algert vonleysi um neitt nema álver. Sagt er við mig að engir ferðamenn vilji koma hingað vegna kulda og myrkurs á veturna þótt hundruð þúsunda fari í meira myrkur og kulda lengri leið til Lapplands, einmitt til að upplifa myrkur, þögn, kulda og ósnortna náttúru.
"Það rignir stundum í Mývatnssveit og jörð getur orðið auð stundum á veturna" er sagt við mig þar um slóðir.
Ef ég segi að aðeins tíu kílómetra akstur sé eftir heilsársvegi, malbikuðum, upp á hálendið norðan sveitarinnar þar sem snjórinn er, er sagt að þar komi stundum hríð. Rétt eins og aldrei snjói í Lapplandi þar sem landslag er flatt og tilbreytingarsnautt, ólíkt hálendinu norðan Mývatns, sem býður upp á hvers kyns gíga og hraunmyndanir sem fólk getur komist í tæri við í nánast hvaða veðri sem er.
Síðan er því bætt við að það þýði ekkert að reyna ferðaþjónustu úti á landi vegna þess að fyrirtæki í Reykjavík undirbjóði heimamenn og gróðinn fari suður.
Engin áhrif hefur þegar ég bendi á þá mótsögn hvernig "þeir fyrir sunnan" geti "grætt" á undirboðum sem geri starfsemina útilokaða fyrir heimamenn sem maður hefði þó ætlað að hefðu hagræði af aðstöðunni á staðnum.
Ég er búinn að mynda mér tilgátu um það hvers vegna aðeins verksmiðjur komo til greina í hugum þjóðarinnar.
Ástæðan hlýtur að vera sú að kynslóð eftir kynslóð í næstum öld hefur sú mynd orðið einráð í hugum fólks eftir að nógu oft hefur verið staglast á því, að því aðeins sé hægt að "bjarga" landsbyggðinni og þar með þjóðinni, - og því aðeins sé hægt að lifa í landinu, að þingmenn "útvegi" verksmiðjur sem framleiði eitthvað sem hægt er að mæla í tonnum.
Kynslóð fram af kynslóð þekkir ekkert annað en að þingmenn "útvegi" álver, frystihús, rækjuvinnslu, kísiliðju o. s. frv. Allt annað er álitið fyrirfram vonlaust og kemur ekki til greina.
Hagstæðasta gengi í veröldinni fyrir erlenda ferðamenn virðist engu breyta. Þvert á móti verður slíkt tilefni til fyrirsagnar fréttarinnar, sem þetta blogg er tengt við: "Ísland á útsölu." Er það ekki agalegt að slíkur markaður hafi opnast?
![]() |
Ísland á útsölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)