"...a seda tsjallends á..."

Ofangreint var tvítekið í auglýsingu um útvarpsþátt sem ég heyrði á ferð í bílnum. Ég skrifa þetta beint eftir framburðinum í auglýsingunni en ef þetta er skrifað upp á íslensku og ensku með réttri stafsetningu er setningin svona: "...að setja challenge á..."

Í auglýsingunni voru teknar setningar úr þættinum sem áttu að sýna hve góður hann væri og urðu fyrir valinu orðaskipti hlustanda, sem kvaðst ætla að "setja challenge á"  stjórnandann og stjórnandinn svaraði: Þú setur ekkert challenge á mig!" 

Nú er það svo að í frjálsum samtölum milli hlustenda og stjórnenda ráða hlustendur að sjálfsögðu orðavali sínu. Ef hlustandinn vill frekar nota enska orðið challenge en íslenska orðið áskorun er það að sjálfsögðu hans mál. 

Hitt vekur mér furðu að þegar hægt er að moða úr tugum og hundruðum klukkustunda af þessum þætti skuli þessi orðaskipti vera talin besta sýnishornið af honum og sýna best hve frábær hann sé. 

Nema að baki liggi sú hugsun að þegar fólk heyrir þessi orðaskipti fái það á tilfinninguna hve þetta sé nú flott orðað og gefa það til kynna sem Björgvin Halldórsson myndi orða svona: "Mikið rosalega er þessi þáttur mikið erlendis." 

 


Læra þarf af reynslunni 1908 og 1918.

Tvívegis áður hafa Íslendingar sent samninganefndir til útlanda til að semja um mál, sem varða fullveldi Íslands.

Þegar rennt er yfir málavexti og málatilbúnað má sjá, að í bæði skiptin tókst nokkuð vel til um það að senda nefndir sem gengu þannig til verka að hafa ákveðin samningsmarkmið í huga en gæta þess þó að geirnegla hvaðeina fyrirfram á þann hátt að í raun væri ekki verið að ganga til samninga heldur til þess að mótaðilinn samþykkti samning sem annar aðilinn hafði ákveðið fyrirfram.

1908 klofnaði íslenska samninganefndin um málið eftir að samningar höfðu tekist, en það var ekki fyrr en niðurstaðan lá fyrir. Skúli Thoroddsen lagðist einn nefndarmanna gegn samningnum en hafði þó áður farið með nefndarmönnum á fund samningamanna Dana og unnið að samningsgerðinni með félögum sínum sem best hann gat.

Skúli var aldrei vændur um það að hafa fyrirfram viljað fórna málstað Íslands þótt hann færi þessa för til að láta reyna á hve langt væri hægt að komast.

Hann taldi eftirá að Íslendingar hefðu ekki komist nógu langt og lagðist þá fyrst gegn samningnum og hafði sitt fram.

1918 setti samninganefnd Íslendinga fyrirfram það höfuðsamningsmarkmið að Ísland yrði lýst frjálst og fullvalda ríki en ekki í ríkjasambandi við Danmörku og "del i det samlede danske rige" eins og kveðið hafði verið á um í samningsuppkastinu 1908.

Íslendingar gáfu það eftir í samningunum 1918 að verða í konungssambandi við Danmörku, samþykkja gagnkvæman ríkisborgararétt og atvinnurétt og bíða með að fá allt dómsvald inn í landið semn og meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu.

Margir höfðu áhyggjur af hinum mikla rétti sem samningurinn veitti Dönum á íslandi en þær reyndust ástæðulausar.

Við höfum reynt það undanfarin ár að Íslendingar hafa reynst fullfærir um það að þjóna um of hagsmunum erlendra stórfyrirtækja þótt við séum frjáls og fullvalda þjóð og þurfum að standa þá vakt betur, hvort sem við erum í ESB eða utan þess.

Mikilvægasta ákvæði samningsins 1918 var um það að Íslendingar gætu, ef þeir vildu, slitið sambandinu við Dani eftir 26 ár.

Þótt í þetta sinn sé um að ræða hluta af fullveldi Íslands er óumdeilanlegt að Ísland verði ekki hluti af sameinuðu evrópsku ríki. Öll ríki ESB teljast sjálfstæð og fullvalda og með eigin þjóðhöfðingja, gagnstætt því sem er um ríki Bandaríkjanna.

Menn tala um að nú eigi að gera hið sama og gert var í Gamla sáttmála 1262. Skoðum það.

Þá gengust Íslendingar beint undir norskt konungsvald og konungur skipaði sjálfur æðstu embættis- og valdamenn Íslands. Þetta var algert afsal sjálfstæðis en það varð okkur þó til happs í samningum okkar við Dani síðar meir og í öllum málatilbúnaði Jóns Sigurðssonar að samningurinn var við norska konunginn einan í upphafi og erfðahyllingin í Kópavogi varðaði aðeins hinn danska konung.

1908 og 1918 var ákveðið að ganga til samninga við Dani til þess að láta á það reyna hvað fengist fram. Í fyrra skiptið var uppkastið fellt en samþykkt í síðara skiptið.

Nú, eins og í þessi hin fyrri skipti, þarf að fá botn í það mál sem nú er til umræðu og það er ekki hægt nema að ganga til samninga og leggja niðurstöðuna síðan fyrir þjóðina.

Ég tel að hróp um það að menn séu landráðamenn fyrir það eitt að vilja þessa leið eigi ekki frekar eiga við nú en um samningamenn 1908 og 1918.

Erlendir kunnáttumenn hafa talið mikilvægt að samningamenn verði klókir og agaðir og vel vopnaðir rökum og sannfæringarkrafti og er vonandi að svo geti orðið nú. Alþingi þarf að sjá til þess að svo verði og láta ekki sundrungu spilla fyrir.

Síðan ætla ég mér eins og aðrir landsmenn, taka afstöðu til hugsanlegrar niðurstöðu þegar hún liggur fyrir. En ekki fyrr.


mbl.is Hægt að ná samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn má við margnum.

Ronaldo var sá leikmaður Manchester United í úrslitaleiknum í gær sem helst stóð undir væntinum hvað snerpu, hraða, ákveðni og baráttuanda snerti. En miðjumenn og varnarmenn Barcelona sáu til þess að lið Manchester United náði aldrei almennilega saman ef undan eru skildir nokkrir stuttir kaflar í leiknum.

Leikmönnum Barcelona tókst að lesa leik Manchester United eftir fyrstu átta mínúturnar, uppskera mark í fyrsta skoti sínu að marki í kjölfar frábærs einkaframtaks og síðan annað mark í þann mund sem MU virtist vera að ná vopnum sínum aftur.

Ronaldo og Rooney skorti stuðning samherja sinna á mikilvægum augnablikum og þegar þannig er í pottinn búið í íþrótt þar sem liðsheildin er aðalatriðið er alveg sama hvað einstakir leikmenne eru góðir, enginn má við margnum.

Maður velti vöngum yfir því í leiknum í gær hvernig Ronaldo hefði vegnað í framlínu andstæðinganna þar sem eru snillingar sem hver um sig eða saman geta ógnað hvaða vörn sem er.


mbl.is Framtíð Ronaldo hjá United enn og aftur í óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband