"Glöð við förum á fjöll öll."

Í tilefni af skemmtilegu bloggi um eitt vinsælasta ástralska lag allra tíma, "Tie Me Kanguruu Down, Sport" kemur mér í hug sú stemning sem ríkir í fjalla- og jöklaferðum á Íslandi og Magnús Eiríksson og KK túlka svo vel í laginu "Óbyggðirnar kalla".

Þetta ástralska lag hefur kveikt í mér til að gera texta og lag um dæmigerða jeppaferð á fjöll undir heitinu "Glöð við förum á fjöll öll." Ég er einmitt nú að leggja af stað með skemmtilegu fólki í árlega rannsóknarferð Jöklarannsóknafélags Íslands upp á Vatnajökul.

Grímsvötn eru ævintýraland og Íslendingar hafa ekki enn áttað sig á hve einstakt það er. Ég ætla að gera tilraun í þessari ferð til að blogga ofan af jöklinum en veit ekki hvernig það muni takast.

Í skálanum verður kannski rennt í gegnum lagið "Glöð við förum á fjöll öll" og hver veit nema ég birti textann síðar.


Ekkert nema óvinsælt...

Strax eftir hrunið síðastliðið haust var það ljóst að hvaða ríkisstjórn, sem hér myndi sitja, gæti ekkert annað gert í málum þjóðarinnar en að standa að óvinsælum aðgerðum, fleiri, harðari og óvinsælli en nokkur önnur ríkisstjórn hefur þurft að standa fyrir.

Þá þegar hefði átt að vera ljóst að aðeins utanþingsstjórn eða þjóðstjórn gætu staðið að hinum óhjákvæmilegu og sársaukafullu aðgerðum sem einar kæmu til greina eins og í pottinn var búið.

Davíð Oddsson fékk bágt fyrir að orða hugmyndina um þjóðstjórn. Utanþingsstjórn hefði þó verið enn eðlilegri kostur, sá eini sem ekki hafði tengsl við hrunið.

Hún hefði getað komið í veg fyrir þá töf og þann óróa sem var til óþurftar. Stefnt hefði mátt að kosningum, sem hefði þá átt að halda næstkomandi haust eftir vandaðan undirbúning að stjórnlagabreytingum og lúkningu aðgerða í samstarfi við AGS.

Hvað um það, kosningar voru haldnar, meirihlutastjórn með nýtt umboð þjóðarinnar er við völd og loks eftir nær aldar bið hefur það fengist fram sú löngu tímabæra nauðsyn, að Íhald og Framsókn séu ekki með þann þingmeirihluta sem geri það óhjákvæmilegt að annar hvor þessara tveggja flokka hafi úrslitavald um stjórnarmyndun.

En ríkisstjórnin á ekki sjö dagana sæla í vændum. Þær líta ekki vel út, þessar ráðstafanir hennar, og enn verra er framundan þegar í kjölfarið koma sársaukafullar skerðingaraðgerðir í ríkisþjónustunni.

Hvað sem því líður má ekki gleymast hvað það var sem stefndi þjóðarbúi okkar í hrun síðastliðið haust og olli því að við eigum enga góða kosti í stöðunni, aðeins mismunandi slæma.


mbl.is Áfengi og eldsneyti hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband