14.6.2009 | 22:58
Nokkuð um vatnsaflsvirkjanir?
Hversu hátt og vítt hugsa menn þegar mótuð er sameiginleg umhverfis- og orkustefna?
Líklega fara menn eins stutt og þeir komast af með.
Ef sameiginleg yfirstjórn væri yfir virkjanamálum á Norðurlöndum myndu menn líta yfir sviðið og sjá að á tveimur Norðurlandanna, Íslandi og Noregi, er álíka mikil vatnsorka óvirkjuð að magni til og að þetta eru einu löndin í Evrópu þar sem svo háttar til.
Íslendingar réttlæta sínar fyrirhuguðu virkjanir með því að hlutfallslega eigi þeir þrefalt meira óvirkjað en Norðmenn.En Noregur er þrefalt stærra land en Ísland og þegar staðið er álengdar og málið skoðað er rangt að nota prósenttölur af misstórum heildum heldur á magnið í sjálfu sér að vera lagt til grundvallar.
Ef virkja ætti vatnsafl og taka tillit til náttúruverðmæta sem fórna þyrfti vegna virkjananna sæist fljótt að umhverfisspjöllin á Íslandi yrðu í flestum tilfellum margfalt meiri en í Noregi.
Í öllum hugsanlegum viðbótarvirkjunum Noregs er um að ræða hreint vatnsafl, sem ekki myndar set í miðlunarlónum heldur er ígildi eilífðarvélar líkt og Sogsvirkjanirnar á Íslandi.
Í aurugum jökulám Íslands fyllast hins vegar miðlunarlón af seti eins og þegar má sjá í Sultartangalóni og Hálslóni.
Sultartangalón verður á nokkrum áratugum ónýtt til miðlunar vegna þessa.
Set hér með tvær myndir af slíkri uppfyllingu Kringilsár í Hálslóni eftir aðeins tvo vetur, en þar sem myndin sýnir flatar jökulleirur núna, var djúpt gil fyrir tveimur árum.
(Hægt að skoða þær betur með því að smella á þær í tveimur áföngum og láta þær fylla út í skjáinn)


Það að auki eru margar fyrirhugaðar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi á því svæði, sem skilgreint er sem eitt af helstu náttúruundrum heims, þ. e. hinn eldvirki hluti Íslands.
Norska hálendið, þar sem hætt hefur verið við stórvirkjun í svipuðum stíl og Kárahnjúkavirkjun er, er ekki slíkt undur.
Á hinum Norðurlöndunum, þeirra á meðal í Noregi, er tími nýrra vatnsaflsvirkjana liðinn. Hins vegar ekki hér.
Þetta er á skjön við samræmda heildarstefnu og því þurfa virkjanafíklar ekki að óttast að sameiginleg stefna á þessu sviði líti dagsins ljós að þessu sinni. Íslendingar munu að sjálfsögðu ekki ýja einu orði að sameiginlegri stefnu Norðurlanda á þessu sviði, því miður að mínu mati.
![]() |
Norræn stefna í umhverfismálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.6.2009 | 02:45
Endurreist eins Þjóðleikhús á nýjum stað.
Þjóðleikhúsið, það er að hrynja. /
Þar molnar steypan og listvinir stynja. /
En það er ein leið út úr þessari ósvinnu /
og það er að reisa það aftur - úr tinnu.
Þessi vísa varð til þegar þetta mál kom fyrst upp og þegar farið er með hana heyrist ekki hvort síðasta orðið i henni er ritað með litlum eða stórum upphafsstaf.
Ég hef áður bloggað um það að einn helsti kunnáttumaður okkar um viðhald og endurbyggingu húsa telur að það borgi sig ekki að púkka upp á Þjóðleikhúsið á þeim stað þar sem það stendur ónýtt núna, heldur eigi að endurreisa það á nýjum og betri stað þar sem þetta mesta stolt Guðjóns Samúelssonar fær loks að njóta sín.
Vegna þess að húsið stóð lokað en óupphitað í tólf ár fór það svo illa að því verður ekki bjargað.
Húsinu var holað niður í þrengslum á milli annarra húsa í stað þess að velja því stað þar sem það nýtur sín jafnvel og til dæmis Hallgrímskirkja, Perlan eða komandi tónlistarhús.
Meðan nýja Þjóðleikhúsið rís má halda áfram starfsemi í því gamla eins og unnt er til að stytta þann tíma sem leihúsið er ekki starfandi.
Þegar hið endurreista hús er síðan fullgert, ætti að rífa núverendi hús og nota lóðina á skynsamlegan hátt.
Þessa leið hefði átt að fara strax í upphafi þegar þetta vandamál kom upp og enn er ekki of seint að hafa þennan hátt á og horfa langt fram í stað skammtímalausna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.6.2009 | 02:28
Góð stund í Friðlandi að Fjallabaki.
Það var ánægjulegt að vera viðstaddur hugljúfa athöfn í Friðlandi að Fjallabaki í dag þegar afhjúpaður var minnisvarði um það þegar Guðmundur Jónasson fann bílfært vað á Tungnaá árið 1950 og opnaði þar með leið fyrir almenning frá sunnanverðu landinu inn á miðhálendi landsins.

Minnisvarðinn var gerður í tilefni af aldarafmæli Guðmundar.
Hann stendur skammt frá vegamótum leiðarinnar frá Sigöldu suður í Landmannalaugar og slóða sem liggur að vaðinu, sem nefnt var Hófsvað og um Svartakrók að Ljótapolli.
Allt þar til virkjanir komu í Tungnaá var þetta vað sú leið sem menn fóru inn á hálendið.
Þessi skipan mála varði í hartnær aldarfjórðung.
Í heimildamyndinni "Ísland - eyjan sjóðandi" sem Svisslendingurinn Hans Nick tók 1965 er frábær mynd af vaðinu.

Í myndinni sést hvernig jeppi Svisslendingsins er settur upp pall stórs trukks af Studebaker-Reo gerð og selfluttur yfir ána.
Guðmundur Jónasson var þekktastur svonefndra fjallabílstjóra á sinni tíð og afkomendur hans reka öflugt rútufyrirtæki sem sinnir ferðum af fjölbreyttu tagi.

Við athöfnina í dag mátti sjá fjórar kynslóðir aðstandenda Guðmundar og velunnarra og hjálparmanna hans.
Flestir brautryðjendanna eru horfnir til feðra sinna.
Þó er rétt að nefna að enn er á lífi í hárri elli Páll Arason, sem var einn af þeim þekktustu og stóð meðal annars fyrir því að fara á fjallabíl sínum, "Pálínu", alla leið til Rómar auk þess að nota hann til hálendisferða hér heima.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2009 | 01:48
Grafin upp gömul öxi.
Flugvélar hafa fyrr en nú verið notaðar til eftirlits með umferð. Ég minnist þess frá árinu 1986 að hafa fylgst með slíku eftirliti á Dornier Do 27 flugvél, sem Haraldur Snæhólmf flaug með lögreglumenn í í eftirlitsferð.
Við sjónvarpsmenn lentum á túninu á Hrútatungu í Hrútafirði til að taka við hann viðtal.
Þyrla er að vísu notadrýgri en flugvél, en 4-5 sinnum dýrara er að fljúga þyrlu en flugvél af sambærilegri stærð.
Dornier-vélin fyrrnefnda gat lent á litlum blettum en þó var erfiðara að komast að grunsamlegum bílum en á þyrlu.
Ég vil benda lögreglunni á að nota kvikmyndatökuvélar til að taka kvikmyndir af bílum, því að á slíkum myndum er hægt að mæla hraðann eftirá og með sambandi við löggæslu á jörðu niðri að finna út hinn brotlega.
![]() |
Ók framúr flugvélinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)