Kanarnir klikka ekki.

Roosevelt, Eisenhover og Kennedy voru Bandaríkjaforsetar sem voru ótrúir konum sínum. Ef það hefði verið á almanna vitorði meðan á því stóð hefði allt orðið vitlaust vestra. En þetta komst ekki upp fyrr en eftir á og að sjálfsögðu hefur þetta ekki haft nein áhrif á mat fólks á þessum forsetum.

En kanarnir klikka ekki í skinhelginni eins og sést af máli öldungardeildarþingmannsins í Nevada. Sams konar mál myndu ekki valda miklu fjaðrafoki í Evrópulöndum þar sem beðmálum er ekki blandað saman við störf manna.

Ég hef áður minnst á blaðamannafund Mitterands forseta Frakklands þar sem nýliði í blaðamannastétt hélt að hann væri með þrumuspurningu þegar hann spurði forsetann: "Er það rétt að þú eigir hjákonu? " "Já," svaraði forsetinn, leit yfir salinn og sagði: "næsta spurning."

Annar blaðamaður kom með næstu spurningu og málið var dautt.


mbl.is Bandarískur þingmaður viðurkennir framhjáhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búa til útskrift af því sem máli skiptir.

Snerran milli þingforseta og þingmanns í dag er áhugaverð. En spurningunni um það hvort þingmaðurinn fór út fyrir umræðuefnið eða ekki og hvort þingforseti fór út fyrir valdsvið sitt eða ekki er erfitt að svara nema að hafa bæði tölu hans fyrir sér á blaði og nógu mikið af ræðum annarra þingmanna til þess að átta sig á þessu.

Kannski fer einhver blaðamaður ofan í saumana á þessu. Það væri fróðlegt að geta fengið nógu miklar upplýsingar til þess að geta myndað sér skoðun um þetta.


mbl.is Einleikur forseta á bjöllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingviljinn og þjóðarviljinn ráði.

Í áraraðir hefur myndast slík hefð fyrir því að stjórn og stjórnaranstaða skipi sér í tvær órofa fylkingar á Alþingi að mörgum finnst eins og ógnvænlegt og hættulegt upplausnarástand myndist ef línur í málum liggja ekki nákvæmlega eftir flokkslínum.

Slíkt bendi til veikrar ríkisstjórnar sem jafnvel eigi að segja af sér vegna þess arna.

Lenska hefur verið að framkvæmdavaldið hefur barið niður allan mótþróa í meirihlutaliði sínu á þingi og það hefur leitt til þeirrar hefðar að ofríki framkvæmdavaldsins hefur farið sívaxandi.

Fyrir löngu er ljóst að afstaða gagnvart ESB gengur ekki eftir flokkslínum og sama er vafalaust hægt að segja um Icesavesamningana. Það er því af hinu góða að á þingi verði þingmenn aðeins bundnir af samvisku sinni og sannfæringu þegar málið verður afgreitt.

Þannig háttar oft til um mál á Bandaríkjaþingi að meirihluti flokks og forseta riðlast á þingi. Oft riðlast bæði fylkingar meirihluta og minnihluta og þykir ekki tiltökumál heldur eðlilegt að menn brreyti samkvæmt sannfæringu sinni en ekki eftir skipunum frá öðrum.

Raunar er Icesavemálið svo stórt og þannig vaxið að réttast væri að það væri afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að vilji þjóðarinnar komi beint fram.


mbl.is Sjálfstæðismenn ráða úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki að finna upp hjólið.

Þegar ferðast er um þjóðgarða og ferðamannaslóðir í öðrum löndum sést strax hve langt við Íslendingar höfum verið á eftir öðrum í að læra það, hvernig best er að standa að þjónustu við ferðamenn og umgengni við náttúruna.

Þegar komið er í inngangshliðin að amerískum þjóðgörðum kaupir maður sig inn en fær í staðinn góðan fræðslubækling um það helsta sem er að sjá og þarf að gæta að í þjóðgarðinum.

Í þjóðgarðinum er þess vandlega gætt að ferðamenn geti séð allt það helsta sem er að sjá, án þess að skemma nokkuð.

Víða ganga ferðamenn um mjög viðkvæm svæði en fara þá eftir sérstökum göngupöllum svipuðum þeim sem eru á Þingvöllum. Pallarnir hvíla á mjóum hælum þannig að hvaða kynslóð framtíðarinnar sem er getur fjarlægt þá ef hún vill án þess að þeir skilji eftir sig rask.

Ferðamenn eru vanir því að borga fyrir sig á svona stöðum og því algerlega ástæðulaust að halda að aðgangseyrir á vissum stöðum hér á landi muni fæla frá. Þar með er ekki sagt að ástæða sé til gjaldtöku alls staðar, - það fer eftir aðstæðum.

Að baki fyrikomulagi á ferðamannaslóðum erlendis liggur mikil og löng reynsla og vinna kunnáttufólks.

Þar sést að jafnvel á viðkvæmum svæðum er hægt að haga málum þannig með stýringu að milljónir ferðamanna valdi ekki átroðningi eða skemmdum.

Sums staðar er aðsókn svo mikil að göngu- og siglingaleiðum að ferðamenn eru rændir þeirri upplifun sem þeir sækjast eftir, kyrrð og friði úti í náttúrunni. Á slíkum er einfaldlega ítala og kvóti á fjöldanum, sem fær að ganga eða sigla um þessar slóðir.

Banff-þjóðgarðinum í Kanada er til dæmis skipt niður í fimm tegundir af svæðum eftir því hve ósnortin náttúran er og hve mikið næði og kyrrð ferðamenn geta fengið. Í hæsta flokki þar eru svæði þar sem örfáir koma á ári hverju, þrátt fyrir milljónirnar sem fara um þjónustusvæðin og útivistarsvæðin nálægt leiðinni inn í þjóðgarðinn.

Í stað þess að Íslendingar séu að rembast við að finna upp hljólið þarf að gera gangskör að því að besta þekking og reynsla erlendis nýtist okkur við að skipuleggja og stýra ferðamennskunni hér á landi.


mbl.is Vilja gera landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband