17.6.2009 | 23:58
Ef þetta hefði verið nauðsynlegt atriði í kvikmynd ?
Ef atvikið á Álftanesinu hefði verið atriði í kvikmynd og kostað tugi milljóna hefði það verið metið hvort rétt hefði verið að verja þessu fé með tilliti til þess gildis sem það hefði fyrir kvikmyndina og áhrif hennar. Þetta verða kvikmyndagerðarmenn oft að meta og vega saman kostnað við atriðið og gildi áhrifa þess.
Ef áhrifin eru nógu mikilsverð og verðmæt er hægt að réttlæta kostnaðinn. Verknaðurinn á Álftanesi var í sjálfu sér refsiverður og talsverð verðmæti voru eyðilögð, verðmæti, sem maðurinn átti ekki lengur á pappírnum, þótt kannski hafi verið um afrakstur ævistarfs hans að ræða.
Um slíkt gilda lög og við þessu liggja viðurlög.
Það blasir líka við að fari allir þeir, sem eru í sömu sporum og húseigandinn örvæntingarfulli á Álftanesi, að standa fyrir samskonar eyðileggingu, verður það tjón ekki réttlætanlegt.
Ég held samt, að þegar fram líða stundir, verði myndir og umfjöllunun um þennan einstæða atburð mögnuð heimild um þessa tíma eyðileggingarinnar og tjónsins sem við lifum, - eyðileggingar og tjóns þar sem talað er um upphæðir sem eru mörg þúsund sinnum stærri en verðmæti íbúðarhúss á Álftanesi.
Mig grunar raunar, að þegar tímar líði fram verði þessi heimild margfalt verðmætari en sem nam peningalegu tjóni af verknaðinum.
![]() |
Bankinn fékk ekki lyklana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.6.2009 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.6.2009 | 22:30
"Gegnsæi" og "allt uppi á borðinu" ?
Sú frétt á sjálfan þjóðhátíðardaginn að í nauðasamningunum um Icesave láti Íslendingar dómsvald af hendi til viðsemjenda sinna í einu og öllu varðandi ágreining um samningana er sláandi af mörgum ástæðum.
Núverandi ríkisstjórn komst til valda á þeim forsendum að gera stjórnarbót, víkja burtu laumuspili og feluleik, "fá allt upp á borðið" og hafa "gegnsæi" að leiðarljósi.
Þar af leiðandi verður að skírskota til þessara loforða stjórnarinnar og að hún standi við þessi fyrirheit en láti ekki dragast að veita upplýsingar í stað þess að mikilsverð atriði "leki" út eins og nú hefur gerst og halda áfram öðrum atriðum leyndum.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sá kostur að Íslendingar geri sig að eins konar Norður-Kóreu á Vesturlöndum sé verri en sá að leita skástu lausnar á deilumálum og vandamálum varðandi uppgjör við hrunið í samvinnu við nágrannalöndin og alþjóðastofnanir.
Allar lýðræðisþjóðirnar sem við erum nú í samskiptum við ættu samt að skilja þessa einu setningu: Í engu lýðræðislandi er hægt að ætlast til þess að þjóðþing samþykki samninga nema öll atriði þeirra liggi fyrir.
Ef lýðræðisþjóðirnar sem við eigum í samskiptum við skilja þetta ekki vaknar spurningin um það hve mikils virði grundavallarreglur lýðræðisins séu í raun hjá þeim.
Við höfum ekki verið nógu dugleg við að draga fram einföld og sterk atriði varðandi málstað okkar og koma honum rækilega á framfæri. Stærsta verkefnið nú og framvegis verður að gera þetta. En þá verður allt að vera "gegnsætt" og "uppi á borðinu."
![]() |
Enskir dómstólar skera úr Icesave-deilum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2009 | 10:27
"Rignir oftar en 17. júní."
Jónas Guðmundsson stýrimaður skrifaði skemmtilegan pistil eitt sinn um þá áráttu Íslendinga að sækjast eftir útihátíðum í því landi Evrópu þar sem sumarið er langkaldast og þar að auki vætusamt.
Þetta þótti Jónasi vitna um fádæma bjartsýni þjóðarinnar. "Það er eins og menn haldi að það rigni aldrei nema 17. júní."
Dagurinn hefur oft verið annasamur hjá mér síðustu hálfa öld. Síðan 2002 hefur það bæst við hjá mér að taka þátt í skrúðakstri Fornbílaklúbbsins í viðbót við skemmtidagskrá einhvers staðar. Meðal þess sem ég hyggst gera á Arnarhóli í dag er að frumflytja lag sem heitir "Þjóðhátíðardagur" þar sem allir geta tekið undir viðlagið á auðlærðan hátt.
Textinn er svona í augnablikinu:
ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGUR.
Blöðrur og fánar. "Öxar við ána" /
allir syngja hátt. /
Á götunum í kvöld er dansað dátt. /
Fólkið safnast saman. Grínarar með gaman. /
Gítarspil og dans, /
rellur, kandífloss og milljón manns. /
Því nú er þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíð og allir skemmta sér. /
Því nú er þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur /
þjóðhátíð og stuð hjá mér og þér. /
Blómsveigur að stalli. Þá brosir styttukallinn /
og blikkar auganu /
og Fjallkonan er fín í tauinu. /
Nú mun aukast spikið því að mjög svo mikið /
er magn munaðarins: /
nammi, kökur, pylsa, kók og Prins. /
Því nú er þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur. /
Jonni Sig. á afmæli í dag. /
ÞJóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur /
Þess vegna við syngjum þetta lag. /
Já, er til nokkuð sérstakara og þjóðlegara á Íslandi síðustu hálfa öld en "kók og Prins"?
Gleðilega hátíð !
![]() |
Rigningu eða skúrum spáð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)