26.6.2009 | 15:50
Ísland skal rísa !
Það blés ekki byrlega fyrir Vestmannaeyjum fyrir rúmum 36 árum. Hraunstraumar ógnuðu bæði byggðinni og höfninni, sem menn sáu fram á að gæti lokast. Ógleymanlegt er kvöldið þegar suðaustan hvassviðri feykti glæringum inn um glugga á húsum og kveikti í þeim.
Í umræðuþætti í sjónvarpi ræddu menn um þann möguleika að flytja byggðina að Dyrhólaósi og gera þar höfn. Þegar sú umræða var komin hvað lengst, sagði Ólafur Jóhannesson hátt og snjallt og af miklum þunga: "Vestmanneyjar skulu rísa!"
Þetta var vendipunktur í umræðunni þetta kvöld og við vitum um framhaldið.
Nú sér maður hugmyndir manna sem eru tilbúnir til að fórna mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru hennar, með því að virkja allt sundur og saman og selja með allt að 30% orkutapi á útsölu og heildsölu til útlanda, og skuli andvirðið renna í Icesave-skuldirnar.
Slíkar hugmyndir eru jafnvel verri en þær að afsala auðlindum landsins til lands og sjávar til útlendinga því að þær bera í sér stórfellda og óáfturkræfa eyðileggingu stærstu auðlindar landsins um þúsundir ára.
Þessar hugmyndir eru jafnvel verri en að selja handritin útlendingum.
Það er sótt að Íslandi bæði utan frá og innan frá. Ég heyri fyrir mér í þungri röddu Ólafs Jóhannessonar þegar hún myndi hljóma ef hann væri á lífi: "Ísland skal rísa!"
![]() |
Umsátur um Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)