Kristinn, - góður !

Við gömlu sjónvarpsfélagarnir Eiður Guðnason og ég, höfum haft sitthvað við málfar fjölmiðlamanna og annarra að athuga í pistlum okkar. Eiður hefur þó verið margfaltl iðnari við kolann og er full þörf á málfarspistlum hans. 

Í frétt á mbl.is í gærkvöldi var talað um að hústökufólk hefði yfirgefið iFríkirkjuveg 11. Mikið hlýtur húsið að hafa orðið einmana á eftir. Þessi sífellda notkun á sögninni að yfirgefa þegar fólk fer eitthvað er hvimleið.

Fólk yfirgefur orðið allt, yfirgefur lönd sem það fer fráyfirgefur bílinn ef það stígur út úr bílnum, yfirgefur heimili sitt ef það fer úr húsi og yfirgefur bæ sinn ef það skreppur bæjarleið. Hvernig er það, er fólk hætt að fara nokkurn skapaðan hlut?  

En það má líka geta þess sem vel er gert. Í síðdegisútvarpinu nú rétt áðan fór Kristinn R. Ólafsson rétt einu sinni enn á kostum í pistli sínum um kaup Maílendinga (A.C. Milan) á knattspyrnumanninum Kaka.

Pistlar Kristins eru í sérflokki hvað snertir fjörlegan stíl, efnistök og orðaval og ekkert vantaði upp á það í þetta sinn. Gott ef ég kalla mig ekki bara pollara hér eftir í staðinn fyrir púllara, en púllari er nafn sem notað hefur verið yfir fylgismenn Liverpool sem Kristinn R. kallaði einfaldlega Lifrarpoll.

Ég minnist enn með ánægju stórkostlegs pistils sem Kristinn flutti eitt sinn um líkkistusmíði á Spáni. Ég vona að hann geymi þann pistil og aðra í sama gæðaflokki.   


Upp með orkubruðlið !

Enn og aftur veifa Sjálfstæðismenn orkufrekum iðnaði sem einni helstu lausn á atvinnuvanda landsmanna.

Í hálfa öld hefur dunið stanslaus síbylja þess hve jákvætt hugtakið "orkufrekur iðnaður" sé. Þetta hefur virkað eins og heilaþvottur líkt og þegar hundur slefar ef veifað er kjötbita fyrir framan hann.

Í rauninni er hugtakið neikvætt í heimi takmarkaðrar orku, því að það þýðir einfaldlega orkubruðl. Ekki er hægt að finna neina starfsemi sem útheimtir meiri orku miðað við framleiðslu en álframleiðslu.

Hún útheimtir til dæmis tíu sinnum meiri orku á hvert framleitt tonn en járnbræðsla. Hvert starf í álbræðslu kostar 200 milljón króna fjárfestingu og er leitun að meira bruðli varðandi það að skapa störf.

Þótt allri orku Íslands og þar með náttúru landsins yrði fórnað fyrir sex risaálver sem framleiddu þrjár milljónir tonna á ári fengi aðeins 2% vinnuafls landsmanna störf í þessum álverum.

Hver orkueining skilar margfalt meiri ávinningi í annarri starfsemi, svo sem ylrækt.  

Sjálfstæðismenn lifa í 80 ára gamalli fortíð þótt forystumennirnir séu ungir. Þeir átta sig ekki á því að nú er komin ný öld, 21. öldin, öld endurmats og fráhvarfs frá bruðli til nýtni og markvissrar og samþættrar nýtingar orkulinda og náttúruverðmæta.

Þeir skynja ekki að það eru til fleiri form nýtingar en þau sem skila tonnum og megavöttum.  

Til eru áttræðir öldungar sem eru ungir í anda. En Sjálfstæðisflokkurinn er áttræður á alla lund, virðist ekkert hafa lært og engu gleymt.  


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram efnahagstillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúr uppruna sínum.

Misjafnt er hve trútt fólk er uppruna sínum. Sumir virðast gleyma honum eða víkja honum frá sér. Pálmi Gestsson er dæmi um fólk sem er meðvitað um rætur sína og hlúir að þeim, meðal annars með því að taka að sér störf þar sem eru býsna fjarlæg því að vera einn af helstu leikurum landsins. Það finnst mér gott hjá honum.

Ég minnist þess hve mér fannst ánægjulegt að hitta Þröst Leó Gunnarsson leikara við höfnina á Bíldudal þar sem hann hvarf aftur til fortíðar og naut þess með því að róa þar á báti, ef ég man rétt.

Mér finnst líka vænt um að fólk rækti samband við átthaga forfeðra sinna. Stundum liggur ekki í augum uppi hvaða átthaga skal nefna öðrum fremur þegar ættartengslin liggja til margra átta.

Sjálfur tel ég mín mestu tengsl vera við Skaftafellssýslu vegna þess móðurafi og móðuramma mín voru fædd þar og uppalin. En Dalir og Hrútafjörður eiga líka sterk ítök þaðan sem föðuramma mín var upprunnin og vegna veru minnar í sveit í Austur-Húnavatnssýslu er sterk taugin til austurhluta Húnavatnssýslu og Skagafjarðar.

Skagfirðingar koma þarna inn í vegna þess tengsl eru á milli þeirra byggða beggja vegna sýslumarka þar sem afréttir liggja saman.

Börn okkar Helgu nefna helst Vestfirði ef leitað er eftir uppruna, en Helga er fædd og uppalin á Patreksfirði.


mbl.is Pálmi á viktina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband