Opna hvað?

Fréttin um gömlu konuna sýnir tvenns konar notkun sagnarinnar að opna og er sögnin notuð á rangan eða órökvísan og ruglandi hátt í bæði skiptin.

Fréttin endar á þessari setningu: "...hundsa rauða ljósið við brúna sem gefur til kynna að hún sé við það að opna." Opna hvað? Jú, brúin er reist upp til að opna siglingaleiðina en aldrei er minnst á hana í fréttinni.

Ef marka má fyrstu setninguna mætti ætla að brúin hafi verið að opna sjálfa sig.

Í fyrstu setningunni stendur að að konan hafi fallið niður af fellibrú, "þegar hún var opnuð fyrir siglandi bát." Bíðum nú við. Var brúin opnuð til þess að báturinn gæti siglt eftir henni?

Auðvitað ekki. Brýr eru ekki opnaðar með því að reisa þær upp á endann. Brúin var ekki opnuð, leiðinni yfir hana var lokað, hún reist upp, svo að siglingarleiðin opnaðist.

Og brúin opnaði sjálf ekki neitt. Hún var reist upp. 

Kannski hefur 85 ára gamla konan verið jafn rugluð og sá eða sú sem skrifaði þessa frétt og haldið að verið væri að opna brúna þegar hún var reist upp.

Fjölmiðlafólk þreytist ekki á því að nota sögnina að opna á órökréttan hátt.

Menn opna ekki lengur dyr heldur hurðirnar sjálfar. Hvernig opna menn hurðir? Með því að skera þær upp?

Ég álpaðist til að syngja þessa málleysu í lagi í á jólaplötu 1966 og sit uppi með það.  

Skíðasvæðin opna, fjallvegir opna, flugvellir opna, verslanir opna, jafnvel fjöllin opna. Opna hvað?

Síðan er ruglingurinn kominn yfir á fellibrýr og Guð má vita hvað. Eru engin takmörk fyrir því hvað þessi rökleysa og málleysa getur gengið langt um jafn einfalt fyrirbæri og að opna?


mbl.is Öldruð kona féll af brú og lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingishús og setning og slit þings á Þingvöllum.

Við fjórar innkeyrslur í Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum stendur þessi áletrun á steinbogum hliðanna: "For the joy and benefit of the people" sem útleggst: Til ánægju og hagsbóta fyrir fólkið (þjóðina).

Hér á landi myndi orðið "hagsbóta" vera útlagt sem skipun um að virkja gríðarlega jarðvarma- og vatnsorku þjóðgarðsins en í Yellowstone var stofnaður þjóðgarður til að gera þveröfugt: Að varðveita dýrlegt sköpunarverk náttúrunnar sem ósnortnast, þjóðum heims til ánægju um ókomna tíð.

Tvær milljónir manna koma til Yellowstone á hverju ári. Til að þjóna þessu fólki eru til reiðu mörg hótel rétt utan við mörk þjóðgarðsins nálægt hliðunum að honum. Innan þjóðgarðsins er þess gætt að fólk fái þjónustu á örfáum allra fjölförnustu stöðunum.

Þar eru ekki hamborgarasjoppur á hverju horni í Yellowstone eins og Siv Friðleifsdóttir hefur haldið fram. Um garðinn liggur net 1600 kílómetra langra gönguleiða sem eru með ítölu og eftirliti svo að þeir sem þar ganga upplifi kyrrð og dýrð ósnortinnar náttúru.

Gefinn er kostur á mjög takmörkuðu gistirými á 2-3 stöðum en meginreglan er að þjóðgarðsgestir gista utan þjóðgarðsins. Í þjóðgarðinum er ekki alþjóðaflugvöllur eins og haldið hefur verið fram af sumum.

Nú er gullið tækifæri til endurskipulagningar á Þingvöllum. Þar sem Hótel Valhöll stóð er hægt að reisa snotra og fyrirferðarlitla ferðamannamiðstöð sem jafnframt er Alþingishús í lágmarksstærð með sal sem rúmar þingmenn við þingsetningu og þingslit.

Í húsinu verði lítið safn og upplýsingamiðstöð þar sem með bestu tækni er hægt að lofa fólki að kynnast sögu staðarins og sérstöðu.

Fornmenn reistu sér búðir á Þingvöllum og þar stóð lengi hús þar til niðurlægingartímabil staðarins hófst um 1800. Það er í samræmi við sögu staðarins sem þingstaðar að þar standi lítið og fallegt Alþingishús í stíl við það sem stendur við Austurvöll.

Hótel, sem rúmar þá sem vilja gista sem næst þinghelginni mætti síðan reisa utan hennar. Um það er ég sammála Birni Bjarnasyni.


mbl.is Hótelrekstur á ekki að vera í þinghelginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband