James Bond, barnamyndir fyrir fullorðna.

Um alllangt skeið höfum við hjónin gert það að fastri venju að horfa saman á myndirnar um James Bond, sem sýndar eru á Stöð tvö á fimmtudagskvöldum. Ekki vegna þess að þessar myndir í lengstu kvikmyndaseríu allra tíma séu svo góðar.

Sumar þeirra er beinlínis lélegar, brelluatriðin illa gerð og börn síns tíma og leikurinn ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir.

Sumt beinlínis fer í taugarnar á manni eins og þegar í síðustu mynd var sett reykspólshljóð á malbiki þegar bílar spóluðu í snjó og hálku. Og Lasenby sem lék Bond í þetta eina sinn, lék hann einu sinni of oft. Alveg glataður í þessu hlutverki og það var synd, því að mörg tilsvörin voru gráglettin og góð.

Snjóflóðsatriðið í þeirri mynd af tæknilega glatað alveg eins og þegar Bond bjargaði sér frá drukknun í annarri mynd með því að sjúga í sig loft úr hjólbörðum bíls í kafi með því að stinga hjólbarðaventlunum upp í sig.

Plott klikkuðu krimmanna sem vilja ná heimsyfirráðum eru oft vægast sagt hæpin. Ég get haldið áfram að tína til langsótt, misheppnuð og hallærisleg atriði en læt staðar numið.

Og þá vaknar spurningin: Hvers vegna í ósköpunum er maður þá að horfa á þessar myndir? Jú, líklega af sömu ástæðu og börn vilja heyra sögurnar um Rauðhettu og Hans og Grétu aftur og aftur þótt þær séu aldeilis makalaus della.

Þegar horft er á myndirnar um Bond vakna minningar frá þeim tímum sem þær eru teknar, allt frá Doktor No í Tónabíó 1962 til dagsins í dag. Tíska hvers tíma, bílar hvers tíma, andrúmsloft hvers tíma spretta fram í hugann.

Stundum spyr maður sjálfan sig: Fannst manni þetta virkilega svona vel gerð og góð mynd á sínum tíma?

En það skiptir ekki máli. Maður bíður eftir hinu fasta atriði að heyra setninguna "Nafn mitt er Bond. James Bond" og ekki síður eftir tilskildum bólferðum Bonds, hversu heimskulegar sem þær eru. Og svo framvegis.

Rétt eins og maður varð að fá sinn skammt af því í þáttunum um Colombo þegar hann kvaddi hinn seka eftir heimsókn til hans og fór út frá honum, en sneri síðan við og barði að dyrum hjá honum til að gera honum lífið leitt.

Nú er Roger Moore búinn að skrifa ævisögu sína, 82ja ára gamall. Í síðustu Bond-myndum hans var skiljanlega orðinn ansi ellilegur að sjá og ósannfærandi að því leyti.

Sean Connery finnst mér bera höfuð og herðar yfir alla Bondana þótt sá nýjasti sé ans sleipur.

Það sést að í síðustu myndunum er reynt að auka á hraðann og æsinginn í myndunum og mér finnst kominn tími til að fara að hægja og fá í bland undirliggjandi og þrúgandi spennu í einstöikum köflum í staðinn fyrir hasar þar sem brellumeistarar virðast vera í kapphlaupi við setja ný met í látum og hamagangi.

Mörg lögin í Bond-myndunum, eins og Live and let die, eru klassík, enda gaf sú mynd mestu tekjur allra Bond-myndanna.

Niðurstaða: Alla ævi blundar barnið í manni, sú löngun að heyra sama stefið og sömu söguna aftur og aftur.

Myndirnar um James Bond eru því barnamyndir fyrir fullorðna.


"...varð fyrir beinbrotum..."

Ný rökleysa og málvilla færist nú í aukana í frásögnum af óhöppum. Það hlýtur að vera rökleysa að fólk geti "orðið fyrir bílveltum og orðið fyrir beinbrotum".

Í frétt á mbl. í morgun segir: "Maðurinn varð fyrir beinbrotum." 

Ég spyr: Rigndi beinunum yfir manninn?  

Þetta er nýjasta afurð nafnorðasýkinnar sem hefur getið af sér hina síendurteknu frétt "bílvelta varð" þegar rökrétt og styttra er að segja "bíll valt." 

Það hefur verið málvenja fram að þessu að segja: "Maðurinn beinbrotnaði."

En nafnorðasýkin, skilgretið afkvæmi Kansellístílsins, virðist nú vera að breyta þessu.

Sögnin að beinbrotna er ekki nógu fín. Það verður að vera nafnorðið beinbrot, jafnvel þótt það kosti tvöfalt lengri setiningu þar sem þarf að bæta inn í orðunum að verða fyrir.

Við sprengingu getur fólk orðið fyrir sprengjubrotum en ég bara skil ekki hvernig beinbrotum getur rignt yfir fólk.

Næsta skref í þessari vitleysu er sú að fólk verði fyrir krabbameini eða verði fyrir sykursýki.

Íslensk rökrétt málvenja hefur verið þessi: Fólk beinbrotnar, lendir í bílveltu, deyr úr krabbameini eða sykursýki. 

Hingað til hefur verið sagt: Banamein hans var krabbamein, - eða - hann lést úr krabbameini.

Er það ekki nógu skýrt? Að hvaða leyti væri það skýrara og betra að segja: Hann varð fyrir krabbameini?

Er ekki nógu skýrt að segja: Maðurinn beinbrotnaði? Maðurinn handleggsbrotnaði?  

Eða er það svo að einhver hendi broti úr handlegg í annan mann svo að hann verði fyrir handleggsbroti?

Í umræddri frétt valt bíllinn sem maðurinn var í. Í frétt um daginn var sagt að fólk hefði orðið fyrir bílveltu.

Með nýju orðanotkuninni gæti orðið til svohljóðandi frétt:

Maður varð fyrir bílveltu í gær. Hann varð fyrir útkasti úr bílnum og varð síðan fyrir harkalegri lendingu í urð þar sem hann varð fyrir beinbrotum. Þar varð hann fyrir meðvitundarleysi.  

Af hverju er ekki lengur hægt að orða þessa frétt svona?

Maður velti bíl í gær og kastaðist út úr bílnum. Hann lenti harkalega í urð, beinbrotnaði og missti meðvitund.  


Bloggfærslur 22. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband