6.7.2009 | 23:22
Útúrsnúningur sérfræðings Landsvirkjunar.
Með þessu bloggi fylgja nýjar myndir frá siglingu minni á gúmmítuðru fyrir nokkrum dögum út í þrjá hóma Folavatns.

Efsta myndin sýnir Folavatn og Kelduárlón í baksýn.
Þetta fallega vatn með Snæfell á eina hönd og Eyjabakkajökul á aðra er í mati á umhverfisáhrifum talið hafa mikið verndargildi og er einstætt hvað það snertir, jafnvel á heimsvísu, hve mikill gróður er þar svo nálægt jökli og í svona mikilli hæð, 664 metrum yfir sjávarmáli.
Í sjónvarpsfrétt um Folavatn í kvöld sagði sérfræðingur Landsvirkjunar að Kelduárlón væri svo ómissandi sem miðlunarlón vegna þess að 25% af vatni Kárahnjúkavirkjunar kæmi frá Hraunaveitu, en lónið er hluti þeirrar veitu.

Sérfræðingurinn fær þessa tölu út með því að telja Jökulsá í Fljótsdal til Hraunaveitu. Það hefur hentað Landsvirkjun að kalla virkjun Jökulsár Hraunaveitu síðustu ár til þess að fá almenning til að gleyma því að Jökulsá í Fljótsdal er virkjuð og tekið vatn af stórkostlegum fossum hennar.
Upphaflega átti Kárahnjúkavirkjun að felast í því að sökkva annars vegar Hjalladal og mynda Hálslón með 1500 gígalítra miðlun og Eyjabökkum með miðlunarlóni upp á 500 gígalítra. Þetta hefði samtals gefið 2000 gígalítra.

Síðan fundu menn út að vegna þess að Jökulsárnar tvær voru tengdar með jarðgöngum var hægt að stækka Hálslón upp í 2100 gígalítra og auka með því miðlunargetuna svo að Hálslón gæti annað því eitt og sér ef með þyrfti.
Það er í meginatriðum gert þannig, að Hálslón með sína 2100 gígalítra er notað frá október til maí til að miðla vatni fyrir virkjunina, en þegar Jökulsá í Fljótsdal kemur inn í vorleysingum og fer yfir 115 rúmmetra rennsli útvegar hún ein Kárahnjúkavirkjun afl, en ekkert rennsli kemur þá frá Hálslóni, sem er látið fyllast.

Kelduárlón er í Hraunaveitu, sem er virkjun Kelduár og Grjótár fyrir austan Eyjabakka pg Jökulsá í Fljótsdal og miðlunargeta þess á að vera aðeins 60 gígalítrar eða um 3,5% af miðlunargetu Hálslóns.
Það er því útúrsnúningur og rangfærsla að nefna töluna 25% í þessu sambandi hvað snertir Kelduárlón og notin af því. Eða hvernig getur lón, sem hefur aðeins 3,5% af miðlunargetunni dugað fyrir 25% af vatnsmagni Kárahnjúkavirkjunar?


Það er rétt hjá sérfræðingi Landsvirkjunar að flóð sem geta komið síðari hluta sumars og á haustin verða stundum stærri en göngin geta afkastað og þá getur hækkað í lóninu, þótt göngin séu opin.
Vegna hlýnunar veðurfars geta svona flóð komið síðar á haustin en áður og gefa þá viðbótarvatn í gegnum göngin sem aftur minnkar þörfina á miðlun.

En þetta er bara einfalt reikningsdæmi. Finna þarf stærsta mögulega flóð og reikna út hve mörgum metrum Kelduárlón þarf að vera neðar til þess að borð sé fyrir báru með þessa hækkun. Það geta varla verið nema örfáir metrar.
Hæðirnar sem um ræðir eru þessar: Hæð á yfirfalli Kelduárstíflu er 669 m.y.s.
Folavatn er 663 m. y. s. Munurinn er 6 metrar.
Kannski þyrfti að færa yfirborðið niður í 661 metra til að geta mætt hugsanlegum haustflóðum.
Kelduárstífla er 27 metra há og ég er því að tala um ca. 8 metra af þessum 27 metrum.

Landsvirkjun hefur í raun viðurkennt að ekki var þörf á Hraunaveitu með því að sleppa austasta hluta hennar, svonefndri Sauðárveitu.
Ástæðan er miklu meira rennsli í ánum en reiknað var með vegna þess að áætlanirnar gerðu ráð fyrir kuldaskeiði en nú er og verður hlýnandi veðurfar.
Þetta kemur fram á þrennan hátt:
1. Gríðarlegt vatnsmagn fer fram af yfirfalli Káralhnjúkastíflu miklu lengri tíma en gert var ráð fyrir. Þetta skiptir þó ekki máli varðandi miðlunargetuna heldur eftirtallin tvö atriði:
2. Haustin eru hlýrri en áður, veturinn kemur síðar og Hálslón er lengur fullt en ella.
3. Vorin eru hlýrri en áður og það byrjar að renna fyrr og meira í lónið en reiknað var með.
Ég er aðeins að fara fram á að miðlun Kelduárlóns verði minnkuð úr því að nema sem svarar 3,5% af miðlunargetu Hálslóns ofan í það að hún verði ca 1%. Mismunurinn nemur 2,5% af miðlunargetu Hálslóns, en fyrrgrreind hlýnun veðurfars veldur því að miðlun úr Kelduárlóni er í raun óþörf.
Eða hvernig gátu menn rekið virkjunina á fullri orku í allan vetur og vor þegar Kelduárlón var ekki til?
Kelduárstífla er komin og komi hér kuldaskeið, sem engum vísindamanni dettur í hug, væri hægt að grípa til hennar og sökkva þá Folavatni af nauðsyn. Eins og nú er þjónar eyðilegging Folavatns engum tilgangi, skapar ekki einasta kílóvatt eða eitt einasta starf.
Ég geri þá sjálfsögðu kröfu til stjórnar Landsvirkjunar að hún taki þetta mál fyrir í ljósi breytts veðurfars og aðstæðna áður en Folavatni verður sökkt.
Það á að vera hægt. Yfirstjórnandi framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun hefur tjáð mér að í stað þess að stoppa hækkun lónsins í 664 metrum vegna framkvæmda og frágangs, muni verða stoppað í ca 662,5.
P. S. Getur einhver fróður maður giskað á hvaða fugl getur átt stóra hreiðrið sem sést á þriðju mynd, talið að ofan? Biðst afsökunar á því að sama myndin rataði tvisvar inn á bloggsíðuna.
Bloggar | Breytt 7.7.2009 kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
6.7.2009 | 12:46
Jói vængmaður? Vonandi ekki.
Heyrði álengdar í fréttum Bylgjunnar að talað var um að ákveðinn íþróttamaður væri "vængmaður". Hélt fyrst að um iðkanda flugs á flugvæng væri að ræða en vegna þess að minnst var á knattspyrnufélög áttaði ég mig á því að fréttamaðurinn átti við útherja.
Það ágæta orð hefur verið notað í heila öld án misskilnings, enda stutt og skýrt. En nú virðast þessi gömlu góðu og markvissu íslensku heiti, sem notuð hafa verið kynslóð fram af kynslóð í heila öld ekki vera nógu fín fyrir suma heldur verði að nota orð sem gefi ákveðið til kynna að menn séu vel að sér í ensku.
Nefni hér fleiri dæmi um málleystur og rökleysur sem vaða uppi:
"Box". Orðið teigur virðist ekki nógu fínt.
"Djúpur" leikmaður. Verð að játa að þessi notkun orðsins djúpur er mér lítt skiljanleg. Eru aðrir leikmenn þá "grunnir"?
"Góðir boltar" og "slæmir boltar". Skil ekki hvernig þeir sem lýsa leikjum hafi getað skoðað boltana sem notaðir eru svo vel að þeir geti dæmt um gæði þeirra. Skil betur ef þeir segja mér hvort sendingarnar hafi verið góðar eða slæmar.
Að leika "hátt" á leikvellinum, að eitthvað fari fram "hátt" á leikvellinum. Vissi ekki betur en leikvellir væru láréttir og engir hluti þeirra væru hærri né lægri en aðrir. Skil betur að eitthvað sé framarlega eða aftarlega á vellinum.
Einu sinni söng ég lagið Jói útherji. Verslun Magga Pé í Ármúla heitir þessu nafni. Ég nefni einnig í textanum að Jói hafi leikið stöðu innherja.
Ég mótmæli því að þurfa að syngja lagið aftur og breyta nafninu í Jóa vængmann. Ég vona líka að Magnús Pétursson þurfi ekki að breyta nafninu á sinni góðu verslun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)