9.7.2009 | 21:46
Þjóðsagan um dýru jöklajeppana.
Ég endurbirti hér þennan bloggpistil frá því í sumar vegna beiðni frá SÍS, Sambandi íslenskra Súkkueigenda um að hafa aðgang að honum. Hefst þá pistillinn:
"Jöklaferðir eru bara fyrir ríkt fólk á rándýrum jeppum."
Svona fullyrðing er alger misskilningur, sem byggist á því að fólk sér fyrir sér stóra breytta jeppa sem kosta á bilinu 6-20 milljónir króna.
Síðari upphæðina, 20 milljónir, miða ég við uppgefið verð á Toyota Landcruiser í FÍB-blaðinu, sem konstar rúmar 17 milljónir óbreyttur.
Hér við hliðina er mynd af því þegar minnsti jöklajeppi landsins fær loft á loftpúðafjöðrun sína hjá Frey Jónssyni í vorferð Jöklarannsóknarfélagsins.
Síðan við hjónin urðum að selja Hiluxjeppann, sem ég notaði í fréttaferðum og kvikmyndagerð á árunum 1995-2001 vegna kostnaðar við kvikmyndagerðina, hef ég notast við jeppa sem hafa komist um jökla en þó ekki kostað meira en nokkur hundruð þúsund krónur.
Fyrst var þetta gamall Hi-lux sem keyptur var á 150 þúsund krónur og dugði í tvö ár, fór tvær ferðir á Mýrdalsjökul og eina á strandstað á Meðallandsfjöru.
Þá tók við 36 ára gamall Range Rover með jafngamalli Nissan Laurel dísilvél og á 38 tommu dekkjum.
Hann hefur verið til taks inni í girðingu við Útvarpshúsið í fimm ár og kostaði 220 þúsund krónur.
Á myndinni sést gamla Laurel-dísilvélin sem krafðist tveggja rafgeyma en aðeins einn var í bílnum þegar ég fékk hann.
Auðleyst mál. Fundinn var geymir sem passaði í gagnstætt horn án nokkurra sérstakra festinga og tengt á milli með startköplum sem fást á bensínstöðvum !
KISS ! Keep It Simple, Stupid !

Þennan bíl tel ég vera ódýrasta Range Rover jöklajeppa á landinu.
Undir nafninu RANGE ROVER á vélarhlífinni má sjá vír, sem kemur í gegnum grillið og kippt er í til að opna vélarhlífina.
Aftur KISS !
Ég fór eina ferð á honum vegna kvikmyndagerðar milli Langasjávar og Landmannalauga 2005. Þar lentu jepparnir í ferðinni í miklum hremmingum þegar þeir fóru niður um ís á Tungnaá.
Kostnaður vegna skemmdanna á hinum jeppunum skiptu hundruðum þúsunda króna, en ég slapp með 20 þúsund krónur plús einn spraybrúsa hjá Bílanausti.
Vinstri framhurð var ónýt en aflóga hvít hurð vestan úr Búðardal leysti það eins og sést þegar dyrnar eru opnaðar !
Splæsi bráðum í annan brúsa til að mála hurðarfalsið.
Í vetur fór ég á þessum bíl í vetrarferð norðan Mývatns í fylgd stórs ofurjeppa til að vera ekki einbíla.
Hann bilaði tvisvar en sá gamli aldrei ! Þessi gamli Range Rover er aðeins notaður þegar ekkert annað kemur til greina.
Það liðu þrjú ár á milli þessara tveggja ferða.
Því er nauðsynlegt að slíkur bíll sé fornbíll svo að ekki þurfi að borga ósanngjarnar álögur þann tíma sem hann stendur.
Nú síðast greip ég í hann til að draga stóran tjaldvagn fyrir dóttur mína og fjölskyldu hennar, sem þau höfðu fengið lánaðan til að fara með á mót afkomenda Láru Sigfúsdóttur og Jóhanns Jónssonar.
Síðan kemur kannski langt hlé sem hans verður ekki þörf.
Til að draga Örkina á austurhálendinu fékk ég mér vorið 2006 150 þúsund króna Toyota Hilux pallbíl árgerð 1989 fyrir 150 þúsund krónur.
Með lítilsháttar breytingum varð hann að minnsta Toytoa jöklabíl landsins og hefur dugað stórkostlega vel og er til taks fyrir austan frá því í júní fram í nóvember.
Hann er svo léttur (1620 kíló) að 35 tommu dekk, læsingar og lágt drif nægja. Ég hækkaði ekki einu sinni körfuna á grindinni.
Hann fór eina vetrarferð á snjó þegar Örkin var dregin á sinn stað í apríl 2006.
Ég vildi hafa undir höndum sparneytinn og lítinn jöklajeppa sem notaður væri sem oftast.
Þá varð Suzuki Fox SJ 410, árgerð 1986, fyrir valinu.
Hann hef ég notað í jöklaferðum þegar það hefur verið gerlegt og fór á honum í tvær vorferðir Jöklarannsóknarfélagsins um Vatnajökul, 2005 og 2009.
Hér til hliðar sést hann uppi á Vatnajökli á leið í Kverkfjöll með Herðubreið í baksýn.
Vegna mistaka fór sama myndin inn tvisvar.
Ég fékk mér raunar fyrst Súkkujeppa 1999 sem kostaði 20 þúsund krónur og þegar hann andaðist annan svartan í staðinn sem fékkst á 80 þúsund.
Hann hef ég notað síðustu sjö ár á austurhálendinu og hann komst í National Geographic sem svefnstaður minn á hálendinu þegar fjallað var í því tímariti um Kárahnjúkavirkjun.
Kvikindið hefur reynst afar vel en er ekki á númerum sem stendur.
Súkkan sem ég notaði í Jöklarannsóknarferðunum var upphaflega með 970cc vél, sem var aðeins 45 hestöfl.
Mennirnir sem seldu mér hann, settu í hann Suzuki Swift 1298cc GTI vél, sem er 101 hestafl og settu undir hann loftpúðafjöðrun.
Gerðu hann að algerri rakettu !
Þeir gáfust hins vegar upp á bílnum vegna þess að vélin tók rými, sem annars þurfti í miðstöð og því var bíllinn miðstöðvarlaus.
Vinur minn á Suzukiverkstæðinu leysti málið með örlítilli miðstöð sem blæs bara upp á framgluggana.
En rýmið í bílnum er svo lítið að það skiptir ekki máli.
Loftpúðafjöðrunin er ágæt til að hækka og lækka bílinn en hentar ekki á svona léttum bíl, því að hann hoppar og skoppar á henni eins og smábolti.
Þegar komin voru 32ja tommu dekk undir bílinn nægði það samkvæmt burðar/flot/formúlu minni til að gefa bílnum sama flot og jöklajeppum, sem eru þrisvar sinnum þyngri.
Súkkan er aðeins 950 kíló.
Af því að dekkin eru þó ekki stærri en þetta þurfti ekki brettakanta.
Drif, millikassi og gírkassi fyrir 45 hestafla vélina gerðu bílinn lággíraðan í besta lagi, lægsta deiling með þessum dekkjum í fyrsta gír á lága drifinu samsvarar 1:47 á 38 tommu bílum.
Ferðin 2005 gekk ótrúlega vel en ég var fyrirfram efins um hvort ég ætti að leggja í að fara með þennan litla jeppa ferðina í vor þar sem mig grunaði að mikið krap gæti verið neðst á Tungnaárjökli og orðið erfiðara fyrir hann en stóru jeppana.
Þetta reyndist raunin og ég þurfti að láta draga þann litla í gegnum versta krapkaflann.
En dæmið snerist við þegar ofar kom og komið í lausan snjó.
Tvívegis festist þungur jöklajeppi sem var samferða mér á leið uppeftir og lausnin var að sá litli kippti í þann stóra !
Helsta vandamál þessa jeppa og Range Rover jeppans er hve vatnið hitnar mikið þegar lötrað er í þungu færi á lágum gír með miklu álagi. Þetta getur raunar verið vandamál á nýjum og stórum jeppum.
Einkum er þetta vandamál þegar ekið er upp í móti undan vindi.
Á leiðinni upp á Grímsfjall greip ég til þess ráðs að opna vélarhlífina og láta hana liggja upp að framglugganum en stinga hausnum út og aka þannig!
Þetta gafst vel og morguninn eftir fór ég í það með aðstoð Freys Jónssonar og Jónasar Elíassonar prófessors að leysa dæmið betur.
Það fólst í því að taka hlífina af og setja hana inn í bílinn og festa tryggilega eins og myndirnar sýna.
Jónas sýndi í lokin verkfræðisnilli sína með því að finna út hvernig hlífin ætti að standa upp á rönd inni í bílnum eins og sést á myndinni sem tekin er framan á bílinn.
Hann fann síðan tvær spýtur sem pössuðu nákvæmlega sem stoðir undir hlífina.
Freyr sagði að nú væri Súkkan bæði vatnskæld og loftkæld því að loftið sem léki um bera vélina gæfi öfluga kælingu og útgeislun.
Ég er búinn að finna aðferð til að setja vélarhlíf Range Roversins upp á þakbogana í sams konar tilfelli.
Í ferðum í Kverkfjöll, Gjálp, á Bárðarbungu og að Skaftárkötlum nutu bestu eiginleikar Súkkunnar sín, - mikið afl miðað við þyngd og ekki síður að stundum markaði varla í snjóinn eftir hana þar sem stóru jepparnir sukku í djúp för eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Á myndinni hér við hliðina sést rauði jeppinn vera að kippa í þann dökkbláa, en Súkkan stendur hjá og markar varla fyrir förum hennar.
Fyrir neðan eru myndir af samhliða förum eftir þessar tvær stærðir jöklajeppa.
Á þeirri efri eru Súkkuförin vinstra megin en á þeirri neðri ofar á myndinni.
Í lokin varð ég samferða Snæbirni Pálssyni og Jónasi Elíassyni niður af jöklinum og þá lentum við á ný í miklu krapi.
Snæbjörn varð einu sinni að kippa í mig en síðan kom að því að ég varð að kippa í hann eins og sést á neðstu myndinni.
Í þessari ferð þar sem allir hjálpuðust að varð útkoman að lokum því 3:3, hvað snerti það að draga eða vera dreginn !
Guðmundur Eyjólfsson, sem nú ekur ferðir með fólk um jökla á Land Rover, byrjaði feril sinn á Súkkum á 33ja tommu dekkjum, og varð mér einu sinni samferða í Grímsvötn og Kverkfjöll.
Þá sá ég hvað hægt er að gera á ódýran og einfaldan hátt á þessu sviði og gefa þjóðsögunni um dýru og stóru jöklajeppana langt nef.
Bloggar | Breytt 28.10.2009 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
9.7.2009 | 21:20
Hin stórkostlega klassíska saga.
Mér finnst það gleðiefni að orðið Laxdæla skuli birtast sem hluti af nafni nýrrar kvikmyndar, jafnvel þótt myndin kunni að fjalla um allt annað en þessi gersemi Íslendingasagna gerði.
Ég hef lengi haft sérstakt dálæti á Laxdælu sem þeirri Íslendingasagna, sem á jafnan mest erindi við nútímann hverju sinni vegna þess að hún fjallar um mannlegar kenndir og samskipti, ást og hatur, afbrýðisemi, meting og mögnuð örlög.
Laxdæla á erindi við alla á meðan land byggist.
![]() |
Tökur hafnar á Laxdælu Lárusar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2009 | 09:10
Hefði átt að gerast fyrir tveimur árum.
Eitt af stefnumálum Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2007 var að láta þá þegar útbúa hugsanlega umsókn um aðild að ESB að undangenginni ítarlegri vinnu varðandi samningsmarkmið, svo að engin töf þyrfti að verða, ef ákveðið yrði að sækja um aðild.
Út úr þessu var snúið í fjölmiðlum og því slegið upp að hreyfingin vildi skilyrðislaust inn í ESB.
Nú fást allir flokkar loksins við þetta verkefni, hver á sinn hátt, en tvö ár hafa farið í súginn.
![]() |
Utanríkismálanefnd margklofin um ESB-ályktunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.7.2009 | 01:11
Gamlar minningar ljóma.
Hjólreiðakeppnin frá Reykjavík til Akureyrar vekur upp gamlar og góðar minningar í huga mér frá þeim árum þegar ég var gagntekinn af hjólreiðum.
Ég fékk mér snemma hjól með tveimur gírum og vegna þess að mamma mín var hrædd um að ég bryti gafalinn þegar ég var að hjóla sem óður væri á holótum malarvegunum fékk ég mér sérstakan gaffal með höggdeyfum.
Fyrsta langa hjólreiðin var þannig að við fórum þrjú í heimsókn til ömmusystur minnar að Sandhóli í Ölfusi og var hjólið haft aftan á palli vörubílsins sem við notuðum. Þá var ég tæplega fimmtán ára.
Ég hjólaði síðan af stað að austan og þau fóru af stað rúmri klukkustund síðar og hugðust taka mig upp í á leiðinni, áttu ekki von á að ég yrði kominn langt því að þá var vegurinn grófur malarvegur. Einkum voru Kambarnir hlykkjóttir, brattir og grófir.
Skemmst er frá því að segja að þau náðu mér aldrei og urðu mjög hrædd um að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir mig úr því að ég var gersamlega horfinn.
Þeim létti ósegjanlega þegar þau hittu mig á tröppunum heima, en mér hafði tekist að hjóla þessa 50 kílómetra á tveimur klukkustundum, eða á 25 kílómetra meðalhraða á klst.
Síðar um sumarið heimsótti ég Birni Bjarnason vin minn sem var í sveit að Glitstöðum í Norðurárdal og einsetti mér að hjóla 20 kílómetra á klukkustund að meðaltali. Þá var þetta tæplega 160 kílómetra leið eftir misgóðum malarvegi og Hvalfjörðurinn býsna erfiður.
Mér tókst að hjóla þetta á 7,5 klukkustundum en þá var ég búinn með allan matinn sem ég hafði fyllt töskurnar á bögglaberanum með. Erfiðast var að hjóla síðustu 20 kílómetrana upp Norðurárdalinn.
Mamma hafði tekið af mér loforð um að ég hjólaði aðeins aðra leiðina og það loforð átti ég erfitt með að efna, því að í bakaleiðinni var komin strekkings norðanvindur sem hefði getað hjálpað mér til að ná mun betri tíma niður í móti í meðvindi en á leiðinni upp eftir.
Ég sat svekktur í rútunni og varð að láta ímyndunina eina nægja.
Ég óska sigurvegurunum í hjólreiðakeppninni til hamingju og lifi mig gersamlega inn í það sem þeir voru að gera.
![]() |
Hafsteinn og Pétur langfyrstir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)