14.8.2009 | 19:11
Gömul saga og ný.
Stjórnmálaflokkar verða til vegna þess að fólk með líkar skoðanir binst samtökum til að vinna þeim sem best brautargengi. Furðu algengt er einnig að flokkarnir klofni vegna þess að skoðanirnar verða skiptar þegar á hólminn er komið.
Nær allir stjórnmálaflokkar, sem myndaðir hafa verið hér á landi frá 1916 hafa klofnað. Framsóknarflokkurinn klofnaði þegar Tryggvi Þórhallsson og hans skoðanasystkin klufu sig út úr honum og mynduðu Bændaflokkinn. Sá flokkur varð ekki langlífur og leystist upp.
Alþýðuflokkurinn klofnaði 1930 þegar Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður. Seinna varð frekari klofningur þegar Héðinn Valdimarsson og hans menn gengu til liðs við Kommúnistaflokkinn og stofnuðu Sameiningarflokk alþýðu - sósíalistaflokkinn. Í kjölfar árásar Sovétmanna á Finna gekk Héðinn ásamt fleirum úr þeim flokki.
Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði 1953 þegar Lýðveldisflokkurinn var stofnaður og bauð fram en fékk ekki þingmann.
Margir sósíalistar gengu til liðs við Þjóðvarnarflokkinn 1953 en eftir 1959 var ljóst að dagar hans væru taldir.
Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði 1987 þegar Borgaraflokkurinn var stofnaður. Sá flokkur klofnaði aftur þegar hluti hans gekk til liðs við við vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar.
Alþýðuflokkurinn klofnaði enn og aftur 1956 þegar Hannibal Valdimarsson og fleiri mynduðu Alþýðubandalagið í samvinnu við sósíalista. Síðan klofnaði Alþýðubandalagið eftir frægan Tónabíósfund og Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru stofnuð.
Þau samtök klofnuðu 1974 þegar Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson gengu úr vinstri ríkisstjórn en Magnús Torfi Ólafsson sat eftir í embætti.
Enn klofnaði Alþýðuflokkurinn þegar Vilmundur Gylfason og fleiri stofnuðu Bandalag jafnaðarmanna, sem síðar leystist upp og hver fór sína leið.
Kvennalistinn klofnaði um EES-málið og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gekk síðar til liðs við Samfylkinguna og varð formaður hennar.
Alþýðuflokkurinn klofnaði enn einu sinni 1994 þegar Jóhanna Sigurðardóttir gerðist formaður í nýjum flokki, Þjóðvaka.
Frjálslyndi flokkurinn klofnaði 2007 þegar hluti hans tók þátt í myndun Íslandshreyfingarinnar og enn klofnaði Frjálslyndi flokkurinn þegar Jón Magnússon sagði sig frá honum.
Af þessari upptalningu sést að stærð flokka skiptir ekki máli þegar um klofning þeirra er að ræða.
Flokkar utan fjórflokksins hafa lifað mislengi óklofnir, yfirleitt haldið saman í nokkur ár áður en klofningurinn varð.
Klofningur Borgarahreyfingarinnar er kannski hraðamet í klofningi nýs flokks og þess vegna þungbærari fyrir þann flokk en ella.
![]() |
Þráinn segir sig úr þingflokki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.8.2009 | 10:11
Lengi lifi besta eftirherma sem við höfum átt !
Við erum lánsöm þjóð, Íslendingar, að tveir af okkar fremstu gleðigjöfum, Jóhannes Kristjánsson og Hermann Gunnarsson skuli hafa verið úr helju heimtir eftir að hafa "dáið" hjartadauða.
Ég á sterkar taugar til beggja. Ég "vígði" Jóhannes sjö ára gamlan á skemmtun vestur á Núpi árið 1966 með því að skvetta óvart á hann úr koppi sem ég notaði í einu af atriðunum mínum þar sem ég lék Einar Olgeirsson að tala upp úr svefni.
Í lokaþættinum "Á líðandi stundu" var Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, aðalgestur, og þá sá ég mér leik á borði að fá Jóhannes til að herma eftir Steingrími.
Þarna sá þjóðin fyrst Jóhannes Kristjánsson fara á kostum þegar hann ekki aðeins hermdi eftir Steingrími, látbragði hans og rödd, heldur stældi líka undirskrift hans !
Þar gaf hann tóninn um það sem koma skyldi, því að aðall Jóhannesar hefur alltaf verið að lifa sig svo nákvæmlega og vel inn í þá sem hann er að túlka, að öllum hefur fundist að þeir væru þarna komnir sjálfir.
Jóhannes þarf aldrei að nota nein gervi, hann verður í smæstu smáatriðum að þeim sem hann hermir eftir.
Það er erfitt að velja úr ef ætti að nefna þá persónu sem Jóhannes hefur náð best, svo vel hefur hann tekið fjöldamarga þekkta Íslendinga.
Ég get þó ekki stillt mig um að nefna það hvernig Jóhannes breytist bókstaflega í Alfreð Þorsteinsson þegar hann bregður sér í gervi hans án þess að nota nokkkuð annað en sig sjálfan.
Ég hef stundum sagt að hann er betri heldur en Alfreð sjálfur !
Og ógleymanlegt er hvernig hann hermdi eftir Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur á sínum tíma.
Halldór Blöndal, Guðni Ágústsson, Ólafur Ragnar Grímsson, - þannig væri hægt að halda lengi áfram upp að telja, slíkur er fjöldinn sem Jóhannes hefur túlkað af snilld.
Ég hef unnið með mörgum eftirhermum um tíðina, Allt frá Karli Guðmundssyni á sjötta áratugnum og Karli Einarssyni á þeim sjöunda. Karl Einarsson var gríðarlega góður og líkast til besta eftirherma sem við höfðum átt fram að því.
En ég hygg að á engann sé hallað þótt ég segi að Jóhannes Kristjánsson hafi lyft þessari listgrein hærra en dæmi eru um. Því segi ég:
Jóhannes Kristjánsson, - besta eftirherma sem við höfum átt, - hann lengi lifi, húrra ! Húrra ! Húrra !
![]() |
Heppinn að vera á lífi eftir hjartaáfall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)