Munum eftir fordæmi Skoda.

Ég held að hin góða Skoda-vísa verði aldrei of oft kveðin, en þar á ég við það hvernig mönnum tókst að reisa þetta forna gæðamerki úr öskustó, sem það hafði hrapað niður á kommúnistatímanum, til vegs og virðingar á ný.

'Ég hef áður minnst á þetta í bloggi mínu sem fyrirmynd um endurreisn vörumerkisins Íslands.

Þetta gátu Skoda-verksmiðjurnar ekki einar og óstuddar, heldur fengu til þess hjálp frá erlendum aðilum sem höfðu trú á því að þetta væri hægt.

Í stórri bílahandbók, sem ég á, er rætt um framleiðslu Skoda-verksmiðjanna á árunum 1960-90 sem "international joke."

Framleiðsluvörur verksmiðjanna voru sem sé hafðar að háði og spotti um víða veröld vegna lélegra gæða, ef hægt var að nota það orð um þessa framleiðsluvöru.

Ég notaði Skoda ´84 í tvö sumur á Kárahnjúkasvæðinu og ótrúlegt en satt, þá reyndist þessi gamli og nær verðlausi garmur mér ótrúlega vel.

Hugmyndin á bak hönnun þessa bíls var ekki svo galin, vélin afturí og vatnskassi fremst líkt og í Porsche 911. En Skodinn var bara enginn Porsche og þegar vatnsleiðslurnar um sílsana byrjuðu að leka var ballið búið.

Í lokin skildi ég Skodann eftir við verkstæði á Egilsstöðum og bað um skýrslu hvað þyrfti að gera til þess að koma honum í gegnum skoðun, - lista yfir nauðsynlegar aðgerðir. Þá var bakgírinn horfinn og Skodinn eyddi býsnum af olíu og vatni en komst samt allan fjandann vegna þungans á afturhjólunum.

Ég fékk skýrslu þegar ég kom næst austur og opnaði hana, spenntur að sjá listann yfir það sem þyrfti að gera. Aðeins eitt orð stóð á blaðinu um það sem væri að: "ALLLT."

Ég ók Skódanum á bílasafnið á Ystafelli þar sem hann er nú sýningargripur við hliðina á Skoda Ingimars Eydals, vinar míns góða.

Fyrir stríð var orðstír Skodaverksmiðjanna mikill og eitt það helsta sem Hitler græddi á því að ná Tékkóslóvakíu undir sig voru skriðdrekaverksmiðjurnar, sem létu honum í té drjúgan hluta skriðdrekanna sem ruddu þýska hernum braut í leifturstríði yfir Niðurlönd og Frakkland.

Þegar múrinn féll tóku Volkswagen verksmiðjurnar Skodaverksmiðjurnar að sér, framleiddu fyrst Skoda Felicia með 538 breytingum til batnaðar, en síðan nýja Skodabíla sem eru í með sama undirvagni og krami og Volkswagen en aðeins öðruvísi útliti.

Nú má sjá í bílablöðum að Skoda er í mörgum þeirra kominn upp fyrir móðurverksmiðjuna í gæðum á áreiðanleika.

Fyrst Skoda tókst á einum áratug að rísa upp úr dýpstu eymd í svaðinu til virðingar ættum við Íslendingar að geta gert það líka.

Til þess þurfum við hjálp eins og Skoda en síðan stefnum við að virðingu og trausti vegna eigin verðleika.

Það er leiðin sem við getum farið ef við höldum rétt á spöðum og höfum vilja, kjark og metnað.


mbl.is Vörumerkið Ísland stórskaddað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað flugslys áður í Bandaríkjunum.

Fyrir meira en áratug varð flugslys í Bandaríkjunum svipað flugslysinu í fyrra á Spáni. Í bandaríska tilfellinu gleymdu flugmennirnir alveg að setja vængbörðin eða flapana niður fyrir flugtak og í kjölfar þess slys og fleiri af svipuðum toga gerðu flugfélög breytingar á vinnulagi og sífþjálfun flugmanna þar sem reynt var að hamla gegn þeirri lúmsku hættu sem fylgir of mikilli sjálfvirkni.

Hættan fólst í því að vegna frábærra innbyggðra tölvustýrðra kerfa, sem leiðréttu flugmenn ef þeir gerðu mistök, urðu flugmenn smám saman vanir því að þetta virkaði svona þannig að óhugsandi væri að þetta gæti klikkað.

Í umræddu tilfelli hafði búnaður, sem sá sjálfvirkt um að setja flapa niður fyrir flugtak ef flugmenn gleymdu því, verið bilaður og voru flugmenn látnir vita af því.

Rútínan var eftir sem áður sú að fara yfir hvert atriði á gátista fyrir flugtak, meðal annars að stilla flapa.

Fyrir þetta örlagaríka flugtak þurfti flugstjórarnir að vera mjög á verði vegna ísingarskilyrða og slæms veðurs og það krafðist því mikillar athygli af þeim. Því miður sást þeim af einhverjjm ástæðum yfir að setja flapana niður.

Þegar hlustað var á svarta kassann eftir slysið var það með ólíkindum að flugstjórarnir áttuðu sig aldrei á því í löngu flugtaksbruninu hvers vegna ekki var hægt að fá vélina til að lyftast frá brautinni.

Allt flugtaksbrunið voru þeir að huga að því hvort ís væri á vængjum og því hvort nægt afl kæmi frá hreyflum auk vindáttar og vindstyrks.

Langvarandi dekur sjálfvirka búnaðarins við þá varðandi það að setja flapana niður fyrir þá ef þeir gleymdu því hafði smám saman virkað þannig á undirmeðvitund þeirra að þessi einföldu mistök gætu ekki gerst.

Þess vegna áttuðu þeir sig aldrei á því hvað var að og náu aldrei að klifra vélinni og hún fórst fyrir bragðið.

Sjálfur veit ég um þrjú íslensk dæmi þess, að hættulegustu mistök sem flugmenn geta gert, eru þau sem eru svo einföld að jafnvel barn gæti varla gert þau, svo sem að ruglast á hægri og vinstri.


mbl.is Mannleg mistök að baki flugslysinu á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórmál fyrir stolt manna.

Skallagaurinn skjálfa´fer  / 

ef skjól er tekið frá´onum.  /

við stolti mannsins stuggað er, -  / 

þá stendur illa´á hjá´onum.

Kappinn verður vesæll hér  /   

og verður mjög kalt á´onum.  

 

Já, skjólið sem menn hafa af fatnaði er lífsnauðsyn á ísa köldi landi.

Höfuðfatið er mikilvægt fyrir sköllótta menn hér á landi, - það get ég vitnað um af eigin reynslu.

Yfirborð höfuðsins er stór hluti af líkamanum og kælingin getur verið drjúg, sé því ekki skýlt.

Þetta sést best ef skoðaður er stuðull um vindkælingu sem Veðurstofan býr yfir og sýnir vel hve Ísland er kalt land af því að hér er svo vindasamt. 

Misjafnt er hvaða tegund af höfuðfati sköllóttir vilja nota. Sjálfur prófaði ég hatt um það bil sem ég var 25 ára að fyrirmynd frá föður mínum, en konunni minni líkaði hann ekki og hef ég ekki sett upp hatt síðan né heldur látið mér vaxa skegg, - sömuleiðis vegna þess að konunni hugnaðist það ekki. 

Segið svo að maður geri aldrei neitt fyrir þessar elskur.  

Hallgrímur Helgason hefur hins vegar fundið sig undir hattinum, öðrum höfuðfötum fremur.

IMG_0405

Skotthúfa Sigurðar Þórarssonar jarðfræðings var landsfræg og hann var hætt kominn þegar hraunsletta úr gosinu í Leirhnjúki í desember 1975 brenndi gat á húfuna.

Hraunið og staðurinn sjást á meðfylgjandi mynd, sem ég er að koma fyrir.

Ég tók við hann viðtal og spurði hvort hann óttaðist ekki að svona atvik gæti orðið ekki honum skeinuhætt og hvort hann færi ekki alltof glannalega nálægt hættulegum eldstöðvum.

 Hann sagðist ekki hafa áhyggjur af því, - öruggt væri að banamein hans yrði ekki af þessum toga, því að hann væri með svo gott nafnnúmer. "Nafnnúmer?" spurði ég forviða. "Já," svaraði Sigurður. "Ég er með nafnnúmerið 7-9-13 !"

Sigurður varð sannspár. Þessi sprækasti allra jarðfræðinga sem hljóp sem hind upp hlíðar og gíga reyndist með alvarlega skemmt æðakerfi og það varð honum að bana á spítala.  


mbl.is Hattinum stolið af Hallgrími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband