21.8.2009 | 13:18
Svefnþornið virkar aftur og aftur.
Ég hitti þýskt sjónvarpsfólk á dögunum sem var að taka efni í þátt í þýska sjónvarpinu um íslensk virkjanamál.
Það stóð í þeirri trú að fallið hefði verið frá því að virkja Þjórsá við Norðlingaöldu og þurfti ég að hafa talsvert fyrir því að greina þeim frá því að þeim áformum hefði aðeins verið frestað en ekki hætt við þau.
Að lokum fór svo að þau tóku myndir af fossunum Dynk og Gljúfurleitarfossi sem munu hverfa ef áin verður virkjuð fyrir ofan þá, en annars hefðu þau engar myndir tekið af þessum fossum og Þjóðverjum verið greint frá því í sjónvarpsþætti í haust að virkjanaáform þarna væru úr sögunni.
Nú sér maður í fréttum að Landsvirkjun er aftur komin á fulla ferð við þá fyrirætlan sína að drepa endanlega flottasta stórfoss Íslands, Dynk og taka tvo aðra stóra fossa fyrir ofan og neðan hann með í leiðinni.
Dæmið um þýska sjónvarpsfólkið sýnir vel hvernig svefnþorns-aðferð Landsvirkjunar svínvirkar aftur og aftur.
Menn verða líka stungnir þessu svefnþorni varðandi virkjun í Gjástykki, sem sagt er að sé ekki á dagskrá á sama tíma og eyða á dýrmætu fé til að bora þar tilraunaboranir með tilheyrandi umhverfisspjöllum.
Eftir á verður síðan sagt að hvort eð er sé búið að raska svo miklu og eyða svo miklu fé í boranirnar að það sé eins gott að virkja bara úr því sem komið sé.
Svefnþorns-aðferðin byggist á því að þegar virkjun svæðanna dynur síðan yfir með stuttum fyrirvara er of seint fyrir þá að bregðast við, sem vilja andæfa hernaðinum gegn landinu.
![]() |
Friðland í Þjórsárverum stækkað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
21.8.2009 | 13:05
Ábyrgð að lögum.
Ef miða má við málarekstur erlendis vegna mála sem eru sambærileg við Icesave-málið er sjálfsagt að gildandi lögum um svona mál verði beitt gagnvart þeim, sem hugsanlega beri ábyrgð bæði lagaleg og siðferðilega á því sem gerðist í aðdraganda hrunsins, hvort sem það var vegna ásetnings eða gáleysis.
Það er öllum fyrir bestu að þetta sé gert, ekki síst þeim sem mál verður hugsanlega höfðað gegn, og hafa þarf í huga grundvallar réttaregluna um að hver maður skoðist sýkna saka nema sekt hans sé sönnuð á lögformlegan hátt.
![]() |
Ríkið í mál vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2009 | 00:29
Hið daglega Reykjavíkurljóð fjölbreytilegs mannlífs.
Reykjavík átti afmæli á þriðjudaginn var og Menningarnótt er jafnan fyrsta laugardag eftir það.
Eins og komið hefur fram hjá mér á Facebook hefur drjúgur tími farið í það hjá mér, Gunnari Þórðarsyni, Friðþjófi Helgasyni og inga R. Ingasyni að undanförnu að fullgera stuttmyndina "Reykjavíkurljóð", en meginhluti þessarar 7 mínútna löngu myndar er samnefnt lag eftir Gunnar Þórðarson.
Að tilhlutan þáverandi borgarstjóra, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, fékk borgin Gunnari það hlutverk snemmsumars 2007 að gera lag, sem túlkað gæti Reykjavík og íbúa hennar í tónlistarmyndbandi sem borgin gæti notað til kynningar og gjafa handa gestum.
Gunnar bað mig að gera texta við lagið og eftir að hvort tveggja hafði verið frumkynnt fyrir fulltrúum borgarinnar síðsumars hófumst við handa við spilun og upptökur á laginu og fyrstu myndatökur fyrir það.
Um haustið urðu hins vegar óvænt borgarstjóraskipti, aftur borgarstjóraskipti 100 dögum síðar og fjórði borgarstjórinn tók við 200 dögum eftir það. Ofan í það kom síðan hrunið fræga.
Staðan var þannig að okkur Gunnari sýndist verk okkar ætla að hafna ofan í skúffum eða í ruslatunnunni, sem er jú besti vinur listamannsins.
En úr því sem komið var tókum við þó þann kost að reyna að klára þetta verk úr því að við höfðum verið beðnir um að vinna það og búnir að eyða þetta miklum tíma og fé í það, skrifa handrit að stuttmyndinni, taka upp tónlist og kvikmyndir og setja þetta saman.
Friðþjófur Helgason vann öðrum fremur að myndatökum og samsetningu en á endasprettinum hefur Ingi R. Ingason unnið að lokafrágangi.
Gunnar myndaði stórsveit og borgarlistamaðurinn frá 2006, Ragnar Bjarnason, hefur sungið lagið inn ásamt söngkvartetti, sem við nefnum Borgarbörn.
Stefnt er að því að við afhendum borgarstjóra fyrsta eintakið af tónlistarstuttmyndinni við setningarathöfn Menningarnætur á morgun.
Þar mun Ragnar syngja lagið og virðist ekki vera deginum eldri en þegar hann söng Vorkvöld í Reykjavík fyrir 48 árum !
Stuttmyndin verður síðan frumsýnd í Tjarnarbæ og endursýnd ásamt öðrum kvikmyndum Menningarnætur fram á kvöld.
Fyrstu 2,5 mínútur stuttmyndarinnar, sem eru lesinn formáli að laginu. Lesari með mér er Guðrún Gunnarsdóttir.
Undir formálanum leikur Gunnar Þórðarson lagið á píanó í ragtime-stíl heima hjá sér á Ægisgötu, þar sem hann hefur útsýni yfir höfnina, Kollafjörð og Esjuna, - heimavanur í borg, þar sem hann hefur átt heima í 42 ár.
Í texta lagsins er talað um sagnaslóð og saga og þróun Reykjavíkur er rakin í þessum formála þannig að myndbandið sé upplýsandi um borgina fyrir framandi gest ef svo ber undir.
Lagið sjálft, sá hluti tónlistarmyndbandsins, tekur 4:09 mínútur í flutningi og í því er reynt að lýsa Reykjavík, sögu hennar og helstu sögustöðum, umhverfinu og mannlífinu dag sem nótt, jafnt í miðborginni sem úthverfunum, - reynt að túlka þá persónulegu sagnaslóð hvers og eins sem á minningar úr þessari höfuðborg Íslands.
Lagið er lofgjörðarljóð um ástina, - túlkar þakkaróð þess, sem þar fæðist, lifir og deyr, til heimaborgar sinnar, - túlkar hið daglega Reykjavíkurljóð lífsgleði og fjölbreytilegs mannlífs í fortíð, nútíð og framtíð.
Lagið má nálgast á tonlist.is eða á tónlistarspilaranum hér vinstra megin á bloggsíðu minni.
En textinn lagsins er svona:
REYKJAVÍKURLJÓÐ.
Ljúf stund, - safírblá sund /
þegar sindraði´ á jöklinum glóð. /
Tvö ein, - aldan við hlein /
söng um ástina lofgjörðarljóð. /
Þau leiddust inn í Laugarnes, - /
lögðust þar, -
ástfangin og rjóð hið fyrsta Reykjavíkurpar, - /
þau Ingólfur og Hallveig. /
Enn er unaður hér, - l
eiðast elskendur á nýrri öld /
um torg í vorri borg, - /
njóta yndis um sumarkvöld. /
Við Austurvöll og Ánanaust /
er elskað alveg fölskvalaust. /
Hér er hamingjan rík /
og hvergi betra´að kyssa´og elska en í Reykjavík. /
Nú syngja allir saman: /
Borgin mín, - /
blikandi haf, sem skín. /
Alþingi´og dómkirkjan svo fín. /
Jón hnakkakerturá stallinum sperrtur /
starir á næturlíf, faðmlög og gleði og grín. /
Í ból sígandi sól /
litar sæinn eins rauðan og blóð. /
Við fjörð Esjan enn vörð /
stendur áfram um sagnaslóð. /
Göngum rúntinn ! /
Gefum bra-bra ! /
Næturgleðin engu lík ! /
Og óviðjafnanlegt að skemmta sér í Reykjavík.
Ljúf stund, -safírblá sund /
þegar sindrar á jöklinum glóð. /
Tvö ein, - aldan við hlein /
syngur ástinni lofgjörðarljóð.
Í úthverfunum una sér /
ungu fjölskyldurnar hér: /
Sport ! Stress ! Bras ! Börn og org ! /
Það kostar sitt að keppa´um lífsgæðin í svona borg. /
Nú syngja allir saman:
Borgin mín ! Blikandi haf sem skín ! /
Börnin við Tjörnina, svo fín ! /
Pabbi og mamma púla og djamma, - /
paufast í umferðarteppu á leið heim til sín.
Ljúf stund ! Safírblá sund /
þegar síðast ég kveð mína þjóð. /
Á ný um þennan bý /
geng í anda um sagnaslóð: /
Kem í Iðnó ! Keyri rúntinn ! /
Leiði elsku um Lækjartorg !
Og þakka´að fá að fæðast lifa´og deyja´í svona borg ! /
Ó, er það ekki yndislegt að eiga svona borg !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)