24.8.2009 | 19:31
Hvað þarf að aðvara mikið og oft?
Veðurstofan hefur gefið út stanslausar aðvaranir vegna hvassviðris í dag og gerir enn.
Ökumenn hafa getað séð á skiltum beggja vegna misvindasamra kafla undir Hafnarfjalli, Esju og Ingólfsfjalli hve hvasst er og hvað stærstu hviðurnar eru sterkar.
Ekki vantar heldur aðvaranir varðandi vegi undir fjöllum á Snæfellsnesi og annars staðar þar sem vindur stendur af fjöllum.
Samt fjúka aftanívagnar, kerrur og hjólhýsi útaf veginum og í frásögnum er ævinlega talað um "óhöpp." Þetta eru engin óhöpp. Þetta eru hrein sjálfskaparvíti á ábyrgð ökumanna.
Hvað þarf að aðvara mikið til þess að þetta fari að breytast eitthvað ?
![]() |
Hestakerra valt við Kjalarnes |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.8.2009 | 12:41
Furðuleg hugmynd.
Þegar Egyptar og Sýrlendingar voru hvað ákveðnastir í að knésetja Ísrael héldu þeir að það væri árangursríkast að mynda ríkjabandalag þessara tveggja Arabalanda. Þessi tilraun mistókst algerlega.'
Winston Churchill bauð Frökkum þegar þeir voru að bugast fyrir Þjóðverjum í júní 1940 að Bretland og Frakkland gengju í ríkjabandalag með gagnkvæmum ríkisborgararétt. Þessu höfnuðu Frakkar þótt þeir væru á heljarþröm á barmi mesta ósigurs í sögu landsins og hernáms sinna verstu fjenda.
Í ofannefndum tilfellum var nokkurt jafnræði á milli ríkjanna í ríkjabandalaginu. Norðmenn eru hins vegar 15 sinnum fleiri en Íslendingar.
Mér finnst það varla taka því að blogga um þessa hugmynd, svo fráleit finnst mér hún og lítið útfærð.
Neyð okkar nú er hvergi nærri hin sama og var 1262 þegar við gátum ekki lengur annast grunnsamgöngur við önnur lönd og hér ríkti styrjaldarástand og algert stjórnleysi með tilheyrandi mannfalli og hörmungum.
Að vísu liggur ekki fyrir hve langt menn vilja ganga í þessu hugsanlega ríkjabandalagi við Noreg.
Sé það svipað samband og var milli Danmerkur og Íslands 1918-44 finnst mér vandséð hvaða akkur er í því samanborið við þá hneisu að ómerkja lýðveldisstofnunina 1944.
Áður en Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262 hafði komið fram beiðni frá forvera hans um að Íslendingar gæfu honum Grímsey. Því höfnuðu Íslendingar. Eigum við kannski að athuga núna hvað við fáum í staðinn fyrir það að gefa Norðmönnum Grímsey?
Eða er kannski nærtækara að athuga það hvort við eigum ekki að fara beina leið til baka til að byrja með og ganga í ríkjabandalag með Dönum, svo að Margrét Þórhildur geti talað um Danmörku og Ísland sem "löndin sín tvö" líkt og langafi hennar, Friðrik áttundi gerði í ræðu við Kolviðarhól 1907 ?
Síðan gætum við fikrað okkur til baka aftur til fjórtándu aldar þegar Noregskonungur ríkti hér og Björgvin var höfuðstaður Íslands.
![]() |
Þverrandi áhugi á ríkjabandalagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.8.2009 | 00:14
Sauðárflugvöllur endurbættur.
Í sumar hef ég dundað við það að endurbæta Sauðárflugvöll, sem er milli Kárahnjúka og Brúarjökuls svo að hann sé nothæfur fyrir stórar flugvélar á borð við Fokker 50 og Hercules.

Hvers vegna? Jú flugvöllurinn er nálægt flugleiðinni Reykjavík-Egilsstaðir og getur því komið sér vel sem öryggisflugvöllur.
Hægt er að skoða myndirnar hér á síðunni betur með því að smella á þær í tveimur áföngum.
Skemmst er að minnast þess fyrir tveimur árum þegar vélarbilun varð í Fokker 50 vél á þessum slóðum á leið til Egilsstaða og flugstjórarnir voru í fyrstu reiðubúnir fyrir nauðlendingu með báða hreyfla dauða og tilkynntu það.
Skömmu síðar kom í ljós að bilunin var aðeins í öðrum hreyflinum og því gátu þeir flogið til Egilsstaða á öðrum hreyflinum.

Í nágrenni flugvallarins eru ferðamannaslóðir og svæði þar sem kvikuuppstreymi hefur mælst á jarðskjálftamælum.
Sauðárhraukar, afurð Brúarjökuls, fyrirbæri, sem aðeins finnst á Íslandi, eru aðeins nokkra kílómetra fyrir innan völlinn.
Nú hefur náðst sá áfangi að breikka næstlengstu brautina upp í 30 metra breidd þanngi að nú eru tvær af fjórum brautum vallarins 30 metra breiðar, önnur þeirra 1300 metra löng og hin 1000 metra löng.
Fyrir skömmu var bætt við 700x20 metra braut sem stefnir beint upp í algengustu vindáttina þarna, en fyrir var önnur 700x20 metra braut.
Brautir vallarins eru því fjórar, alls 3,7 kílómetrar að lengd.

Fyrir bragðið á að vera óhugsandi að lenda þarna í erfiðum hliðarvindi.
Fyrir viku náðist líka sá áfangi að koma valtara á völlinn, en undanfarin sumur hef ég valtað völlinn með jeppa, en það kostar alls 2-300 kílómetra akstur fram og til baka. Með tilkomu valtarans verður þessi akstur sex sinnum styttri.
Það var Stefán Scheving á Egilsstöðum sem stóð fyrir því að koma valtaranum upp eftir og er ég honum afar þakklátur fyrir það.
Agnar Koefoed Hansen og Bergur Gíslason fundu þetta flugvallarstæði í september 1939 og það hefði getað gulltryggt Þjóðverjum að viðhalda yfirráðum yfir Íslandi eftir innrás ári síðar, sem áætlun var til um.
En hvorki Agnar, Bergur né þýska vísindakonan Emmy Todtmann létu Þjóðverja vita um vallarstæðið, sem hafði algera sérstöðu varðandi stærð og notkunarmöguleika.

Þegar Jökuldælingar komu að hlöðnum vörðum þarna eftir að stríðið hófst reyndu þeir að fjarlægja þær í öryggisskyni ef þær væru hlaðnar fyrir Þjóðverja.
Síðan gekk þessi staður undir heitinu "flugvöllurinn" en okkur Völundi Jóhannessyni, sem hefur sumarbækistöð í Grágæsadal þarna í nágrenninu, þykir rétt að nafn hans sé Sauðárflugvöllur, því að hann er verk Sauðár.
Ég hef fundið þarna á melnum leifar af fjórum vörðum og fylgja hér myndir af hluta af tveggja þeirra.
Af vörðunum má ráða að þeir sem þær hlóðu hafi reiknað með tveimur flugbrautum, braut nálægt 1000 metra brautinni nú, og síðan 1100 metra braut sem hefði orðið talsvart austar en 1300 metra brautin er nú.
Tvær vörðurnar hafa nú lent inni á 1000x30 metra brautinni og er fróðlegt að sjá hvernig mosi hefur komið sér fyrir við steinana.

Agnar Koefoed Hansen var einhver frábærasta persóna sem ég hef kynnst og það er gaman af því að fara á slóðir hans þarna uppi á hálendinu.
Gert hefur verið aðflug á lengstu brautina bæði á Fokker 50 og Boeing 757 og svona í lokin er hér hnit vallarins: 64 gráður 50 mínútur norður og 16 gráður 02 mínútur vestur.
Sauðá rennur hálfhring um völlinn og rétt norðan við hann er örnefnið "Kvíslar" en skammt sunnan við hann "Sauðárhraukar".
Um flugvöllinn liggur gamla Brúardalaleiðin sem hefur nú verið merkt með stikum að nýju.
Hún liggur að Hálslóni skammt frá Töfrafossi en Landsvirkjun hefur lagt slóða þangað úr norðri svo að úr verður hringleið. Aðeins fimm kílómetrar eru frá flugvellinum að Hálslóni þar sem skammt er yfir í Kringilsárrana.

Mér telst til að á hálendi Íslands séu rúmlega 25 staðir sem merktir hafa verið sem flugbrautir.
Sumir hafa verið teknir af skrá en á skrá hjá Flugmálastjórn munu nú vera þessir vellir: Hrauneyjafoss, Veiðivötn, Kerlingarfjöll, Hreysiskvísl við Sprengisandsleið, Nýidalur, Auðkúluheiði og Herðubreiðarlindir.
Völlur hjá Grímsstöðum á Fjöllum kom í góðar þarfir fyrir sjúkraflug þegar rúta valt ofan í Hólsselskvísl og þyrlur komust ekki norður.
Allir þessir hálendisvellir eru eins og Sauðárflugvöllur, náttúrugerðir, það er, þeir eru aðeins valtaðir og merktir með merkjum sem hægt er að fjarlægja, en engum jarðverkfærum hefur verið beitt eða yfirborði landsins raskað.

Þess vegna væri auðvelt að leggja þá niður án þess að nein ummerki sæust.
Undantekning er völlurinn á Auðkúluheiði sem Landsvirkjun lét gera með jarðýtum og malbika svo að Landgræðslan gæti notað hann við uppgræðslu á heiðinni í samræmi við fyrirkomulag Blönduvirkjunar.
Neðstu myndirnar á síðunni eru nýjar, á þeirri efri er horft yfir Sauðárflugvöll til suðvesturs til Kverkfjalla, en á myndinni fyrir neðan hana horft í norðaustur í áttina að Kárahnjúkum.
Í aðeins fimm kílómetra fjarlægð frá vellinum er Prestahæð, en þar er eitthvert stórkostlegasta útsýnið yfir austurhálendið.
Sauðárflugvöllur er langstærstur hálendisflugvallanna og er af svipaðri stærð og Reykjavíkurflugvöllur.
Hann hefur þann stóra kost að helstu og stærstu fjöll norðurhálendisins eru álíka langt frá honum þannig að þar er aldrei misvindi eins og til dæmis er algengt við Herðubreiðarlindir í suðvestlægum vindáttum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)