25.8.2009 | 23:37
Hvað sagði ekki austurþýska íþróttakonan ?
Fréttin um sigurvegarann í 800 m hlaupi kvenna á HM er ein af þessum fréttum sem býður upp á hálfkæring fyrir svefninn.
Minnir mig á það sem haft var eftir austurþýsku afrekskonunni forðum daga þegar hún sagði: "Skylt er skeggið hökunni."
![]() |
Semenya fagnað í S-Afríku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.8.2009 | 21:55
Vitum við hverjir ÞEIR verða?
Þegar vel var tekið í það á alþingi að afhenda Noregskonungi Grímsey benti Einar Þveræingur á það að enda þótt menn teldu sig þekkja konunginn að góðu, vissu þeir ekki hvaða menn þeir hefðu að geyma sem ættu eftir að taka við af honum.
Vel kann að vera að forstjóri og aðaleigandi Magma Energy sé hinn mætasti maður sem og fyrirtækið, en vitum við hve lengi hann verður við stjórnvölinn og hverjir eiga eftir að koma á eftir honum eða eignast fyrirtækið næstu 130 árin?
Það er verið að ræða um allt að 47% hlut Magma sem er talsvert meira en talið er að sé ráðandi eignarhlutur.
Óraði menn fyrir því fyrir 15 árum að í stað Alusuisse ætti Ríó Tintó, sem á breska þinginu var kallað sóðalegasta fyrirtæki heims, eftir ná yfirráðum yfir álverinu í Straumsvík ?
Horfðum við ekki upp á það í "gróðærinu" hvernig fyrirtæki skiptu um eigendur áður en hægt var að depla auga ?
Við vitum nokkurn veginn hver við erum, þjóðin sem enn ræður nokkurnveginn yfir auðlindum sínum.
En við vitum ekki hverjir ÞEIR verða sem gætu haft þessar auðlindir í höndum sér fyrr en varir, ef við látum þær frá okkur.
![]() |
Upplýsandi fundur með Magma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.8.2009 | 18:43
Persónuleg tengsl sígild.
Við lifum á tímum nets, farsíma og hvers kyns samskipta með atbeina tækninnar. Eftir sem áður falla hin gömlu lögmál um kunningsskap og persónuleg samskipti aldrei úr gildi.
Fjölmörg dæmi eru um það að þá fyrst þegar persónuleg samskipti tókust með áhrifafólki náðist árangur í ákveðnum málum. Bein mannleg samskipti eru einfaldlega þess eðlis að ekkert getur komið alveg í stað þeirra.
Þannig náðu þeir Reagan og Gorbasjof býsna vel saman á fundum sínum, þótt þeir væru gerólíkar persónur.
Af þessum sökum er það mikilvægt að við Íslendingar eigum fulltrúa sem hafa góð sambönd og áhrif sem víðast.
Þar að auki opnast þjóðhöfðingjum og æðstu mönnum oft dyr sem annars eru lokaðar. Framundan er tími þar sem við verðum að nota okkur þetta til hins ítrasta á tímum, þar sem endurheimta þarf glatað traust.
![]() |
Dorrit fékk Kate Winslet |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2009 | 17:38
Ekki rétt ljósmynd.
LJósmyndin sem birt er með þessari frétt er ekki tekin á réttum stað, heldur á stað sem nú er kominn á kaf í aur Hálslóns.
Vísa til bloggsíðu minnar um þetta efni og athugasemda við bloggfærsluna þar.
Fyrr í sumar birti ég mynd af vellinum eins og hann kemur undan vetri og bað menn um að giska á hvorum megin við merkinguna völlurinn væri, því að engan merkjanlegan mun er hægt að sjá á því fyrr en búið er að valta.
Þessi staður er einn af þeim fyrstu sem Agnar Koefoed-Hansen fann í leit sinni að flugvallarstæðum 1939. Flugvöllurinn var þá merktur eins og enn má sjá ummerki um.
Ég hef aðeins endurvakið flugvöllinn vegna þess að vegna stærðar sinnar getur hann nýst sem öryggisflugvöllur fyrir vélar á borð við Fokker 50 og Hercules.
Lendingarstöðum á hálendinu hefur fækkað mikið á undanförnum árum og nú er aðeins einn slíkur á hálendinu norðan Vatnajökuls, við Herðubreiðarlindir.
Hann er ónothæfur þegar sterkur vindur stendur af fjallinu, aðeins ein braut og miklu styttri en löngu brautirnar á Sauðárflugvelli.
Hann er auk þess svo nálægt umbrotasvæðinu, sem þarna er, að vafasamt er að hann geti nýst ef þar kemur upp jarðeldur og þarf að grípa til flutninga í lofti.
Í slíku tilfelli myndi Sauðárflugvöllur hins vegar nýtast vel.
Ég er ekki einn um það að endurvekja gamalt flugvallarstæði. Í sumar hafa áhugamenn endurvakið gömlu flugbrautina sem notuð var fram eftir síðustu öld við Hornafjarðarós í flugi til Hornafjarðar.
Hún er nákvæmlega sama eðlis og Sauðárflugvöllur. Þeir völtu melinn, merktu og settu upp vindpoka.
Eini flugvöllurinn á hálendinu sem notuð hafa verið stórvirkar vélar við er á Auðkúluheiði, en Landsvirkjun byggði hann upp og malbikaði.
Ein flugbraut hafði verið á Kárahnjúkasvæðinu um langa hríð áður en framkvæmdir hófust. Hún var við afleggjarann suður í Snæfell en Landsvirkjun umturnaði honum í malargryfjugerð og hefur skilið svæðið öldótt og annars útlits en það var áður en þessar framkvæmdir hófust.
![]() |
Ómar bætir hálendisflugvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.8.2009 | 13:07
Þarf vandaða úttekt á nýtingu ræktaðs lands.
Við útttektir á því hvaða orkunýting geti leyst olíuna af hólmi hafa menn staldrað við hugmyndir um að rækta mikla akra til að framleiða fyrir lífrænt eldsneyti.
Megin niðurstaðan hefur verið sú almennt, að eins og núverandi tækni er háttað, geti enginn einn orkugjafi leyst orkuvanda heimsins.
Tæknilega er það að vísu hægt með kjarnorku, en birgðir af efnum sem til þess þarf eru takmarkaðar í heiminum.
Stóri ókosturinn við að rækta akra til framleiðslu á efnum fyrir lífrænt eldsneyti er sá, að gríðarlegt landflæmi þarf að nota til þess arna, miðað við afraksturinn, á sama tíma og mannkynið þarf á matvælum að halda.
Ég hef ævinlega dáðst að þeirri framtakssemi, myndarskap og hugmyndaauðgi sem ræður ríkjum á Þorvaldseyri og gerði um það nokkrar fréttir á sínum tíma.
Þar búa Gunnarar á Hlíðarenda okkar tíma, - "bleikir akrar og slegin tún."
Framleiðsla olíu sem eldsneytis verður ekki í það miklum mæli þarna að neinum sköpum skipti fyrir mannkynið hvað snertir fæðuframboð og því kannski óþarfi að vera að pæla í þessu á því plani.
Ég held að það væri samt ennþá betra ef þarna yrði framleidd matarolía. Ef framleiðsla hennar er hins vegar ekki samkeppnishæf en eldsneytið hins vegar samkeppnishæft lítur málið öðruvísi út.
Þörf er á vandaðri útttekt á því hvernig ræktun lands á Íslandi gagnast okkur og heiminum best.
Hafi þakkarvert framtak hinna merku búfrömuða á Þorvaldseyri kallað á slíka úttekt, er það vel.
![]() |
Þreskja repju á Þorvaldseyri og ætla að vinna olíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)