Vanmat á almenningi.

Yfirleitt eru Íslendingar seinþreyttir til vandræða. Við erum stundum eins og samansafn af ættingjum Ragnars Reykáss, - nöldrum og höfum allt á hornum okkar, en gerum svo lítið eða ekkert í málunum og lendum í mótsögn við okkur sjálf.

Hvað eftir annað kemur þó í ljós vanmat á því sem við eigum þó til.

Fáa grunaði þegar birt var uppkast að sambandssamningi Danmerkur og Íslands fyrir rúmum 100 árum að andstaða eins nefndarmanna myndi breytast í þjóðarsamstöðu um að fella þingmennina sem samþykktu uppkastið í næstu kosningum.

Fáa grunaði 1970 að friðsamleg mótmæli þingeyskra bænda, sem óku á dráttarvélum sínum í mótmælaakstri gegn drekkingu Laxárdals myndu enda með því að þeir sprengdu upp stíflu við upptök Laxár.

Fáa grunaði að 13-15 þúsund manns myndu fara í mótmælagöngu í Reykjavík gegn Kárahnjúkavirkjun í september 2006.

Fáa hefði grunað að litlir mótmælafundir á Austurvelli ættu eftir að fara sístækkandi uns Búsáhaldabyltingin velti stjórn Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og ríkisstjórninni.

Forsvarsmenn Kaupþings vanmátu réttláta kröfu almennings um upplýsingar sem vörðuðu hagsmuni hans.

Nú hafa þeir látið undan og sjá vafalaust eftir því að hafa stofnað til hinna brjóstumkennanlegu lögbannskröfu, sem misbauð réttlætiskennd fjöldans.

Allt of oft er skákað í því skjóli að hægt sé að treysta á andvaraleysi og sinnuleysi almennings.

"Fólk er fífl" voru ummæli á einum funda olíufélaganna um samráð sem urðu fleyg. Þau áttu eftir að koma þeim í koll sem þau sögðu.

Það kann að vera að Ragnar Reykás sé eins og vindhani sem snýst í hringi.

En það er þó einn kosturinn við vinhanann, sem hann hefur fram yfir þann sem stendur staðfastlega kyrr.

Einu sinni í hverjum hring snýr vindhaninn þó í rétta átt. Það skyldi enginn vanmeta.

 


mbl.is Falla frá lögbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband