6.8.2009 | 22:40
Hvað um yfirbyggða kafla?
Þeir sem fljúga yfir Dynjandisheiði oft að vetrarlagi sjá vel að hún verður ævinlega ófær á ákveðnum köflum en vegurinn stendur að mestu upp úr snjónum að öðru leyti.
Ef ekki verða gerð göng milli Arnarfjarðar og dalsins inn af Vatnsfirði (þau yrðu álíka löng og Héðinsfjarðargöng) er næstbesti kosturinn að gera þá kafla á Dynjandisheiði, sem alltaf verða ófærir, þannig úr garði að úr geti orðið heilsársvegur.
Reyndar átti að vera búið að koma á heilsárssambandi milli Ísfjarðar, Patreksfjarðar, Barðastrandar og Reykjavíkur fyrir löngu en það er önnur saga af röngum ákvorðunum allt frá því fyrir 40 árum.
Ég flutti frétt í Sjónvarpinu fyrir um áratug af yfirbyggðum vegum erlendis, sem voru þá mun ódýrari á kílómetra en jarðgöng og minntist sérstaklega á Dynjandisheiði í því sambandi. Með það var ekkert gert en slíkan möguleika álít ég að þurfi að athuga ekki síður en breytingar á veginum.
![]() |
Starfshópur skipaður um nýjan veg um Dynjandisheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.8.2009 | 19:31
Góðan flugrekstur og hreinsað borð, takk !
Hannes Smárason sagði frá því í viðtali við tímaritið Króniku einu og hálfu ári fyrir hrun að hann hefði ekkert vit og engan áhuga á flugi, flugvélum né flugrekstri enda hafi það ekki skipt máli þegar hann tók flugrekstur upp á arma sína, sem hafði barist í bökkum í áratugi, stundum á barmi gjaldþrots.
Aðalatriðið væri, sagði Hannes, að breyta félaginu í fjárfestingarfélag. Hannes sagði að hann og félagar hans keyptu helst fyrirtæki, sem væru "hæfilega skuldsett." Síðan færi hann og fengi nóg mikil lán hjá bönkunum til þess að borga skuldirnar upp og eiga drjúgan afgang eftir.
Hann kvaðst jafnvel kaupa fyrirtæki og skuldsetja þau áður en hann léki þessar kúnstir.
Fyrirtækið væri síðan selt með miklum hagnaði eða sameinað öðrum og úr yrði hringekja kaupa fyrirtækja á hlutafé hvert í öðru þar sem svonefnd "viðskiptavild" upp á tugi milljarða yrði til við þessa gerninga.
Auðvitað voru þeir peningar aldrei til og hafi þessi ósköp verið lögleg, þá voru þau siðlaus og brýnt að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur.
Hannse kvaðst hafa séð til þess að rúmlega 44 milljarða gróði yrði á rekstri fyrirtækisins á árinu 2006, - fyrirtækis sem áður hafði árum saman sýnt rauðar tölur.
Aðspurður um tekjuskatt af þessu hlutafjárbraski kvaðst hann geta haldið þessum leik áfram út í hið óendanlega án þess að borga krónu. Orðrétt sagði hann: "Þannig get ég haldið áfram út í hið óendanlega og þarf aldrei að borga skatt".
Ég hef heimildir fyrir því sem hafa gengið fjöllunum hærra að í upphafi hafi Sigurður Helgason ásamt öðrum fengið því framgengt að tíu milljarðar yrðu lagðir til hliðar sem varasjóður sem aðeins mætti snerta í neyð.
Í fyllingu tímans rak síðan einhver augun í það að þessir peningar voru horfnir. Í ljós kom, eftir því sem mér hefur verið sagt, að Hannes hafði tekið þetta fé traustataki án þess að spyrja neinn og notað til að kaupa Sterling flugfélagið sem hann setti síðan á hausinn.
Sigurður og fleiri hafi þá sagt sig úr stjórninni, en á þeim tíma var aldrei gefið upp af hverju.
Ég tel að þessi mál þurfi að hreinsa og að Sigurður eigi að gangast fyrir því að gera það. Allt upp á borðið.
Það er kominn tími til að upplýsa allt um ástæður þess að hann og aðrir gengu úr stjórninni að mínu mati.
Það þarf að sjá til þess að aftur verði tekinn upp eðlilegur og siðlegur rekstur í stað þeirrar sápukúlu blekkinga og sjónhverfinga sem Hannes Smárason og félagar hans blésu upp og sprakk síðan framan í okkur öll.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.8.2009 | 15:11
Gæti lækkað aftur nema krónan...
Fregnir berast af lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu vegna minni eftirspurnar. Vonandi skilar það sér til Íslands. Hins vegar verður það til lítils ef krónuvesalingurinn okkar lækkar.
Einhverjir myndu orða það svo að við verðum hvað bensínverðið varðar að biðja til Guðs og krónunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)