9.8.2009 | 22:05
Skildi varla helminginn á fyrsta fundinum.
Davíð Oddsson hefur sjálfur sagt frá því að hann hafi varla skilið vel nema helminginn af þeim hugtökum, sem notuð voru á fyrsta fundinum sem hann sat með undirmönnum sínum þegar hann tók við embætti Seðlabankastjóra.
Davíð er að vísu skarpgreindur og snjall maður, afburðamaður á marga lund og manna fljótastur að setja sig inn í hluti og greina aðalatriðin frá aukaatriðunum. Hann hafði auk þess mikla pólitíska reynslu sem tengdist efnahagsmálum.
En engin von var til þess að hann gæti bætt sér það upp að hafa ekki að baki margra ára sérfræðinám í háskóla auk viðamikillar beinnar reynslu af því að beita hinni áunnu þekkingu.
Mér dettur í hug hliðstæða af sviði sem ég þekki nokkuð vel.
Setjum sem svo að maður, sem hefði rekið flugfélag um árabil yrði skipaður yfirflugstjóri félagsins, án þess að hafa að baki það sérhæfða nám og reynslu sem til þess þarf að stjórna flugvél.
Þótt reynsla hans af rekstri mismunandi félaga og allmikil þekking á flugvélum, eiginleikum þeirra og getu, hefði fylgt starfi hans hjá flugfélaginu, myndi engum detta í hug að setja hann í flugstjórasæti til að fljúga flugvél.
Gallinn við Seðlabankastjórnina hefur verið sá í mörg ár að stjórnmálamenn hafa verið settir þar í æðstu stjórnunarstöður og var komin á það hefð.
Nú er það svo að fyrirrennarar Davíðs svo sem Birgir Ísleifur Gunnarsson og Steingrímur Hermannsson voru skynsamir menn og varkárir og fóru því gætilega í hvívetna í beitingu valds síns.
Þeir gættu sín á því að fara ekki út fyrir takmörk sín heldur treystu góðum sérfræðingum og ráðgjöfum og forðuðust þannig mistök sem skortur á þekkingu gæti skapað.
Davíð hefur hins vegar aldrei verið þeirrar gerðar. Hann er þekktur fyrir að ganga þannig að öllum störfum sínum að sinna þeim af alefli, ráða sem mestu og fara fremstur í flokki.
Smám saman myndast í kringum slíka menn hirð undirmanna sem gefast upp á að andmæla foringjanum.
Við þekkjum hliðstæður úr hernaðarsögunni þótt persónurnar úr henni séu að öðru leyti ósambærilegir við Davíð.
Þeir stjórnmálaforingjar liðinnar aldar sem töldu sig fædda hernaðarsnillinga gerðu oft hin verstu mistök sem æðstu yfirnenn herafla landa sinna, þótt stundum hefði þeim gengið svo vel á köflum, að þeir töldu það til merkis um snilligáfu sína á hernaðarsviðinu.
Þeir völtuðu ítrekað yfir undirmenn sína, sem vissu betur og reyndu að koma í veg fyrir mistökin sem urðu bæði stór og mikil og eyðilögðu það sem vel gekk.
![]() |
Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.8.2009 | 11:50
Að standa á réttinum en vægja fyrir valdinu.
Ofangreind orð hafa verið notuð um afstöðu Íslendinga til Dana í sjálfstæðisbaráttunni. Jón Sigurðsson og fleiri sem stóðu fyrir þessari baráttu gerðu sér grein fyrir því að leiðin til hins endanlega takmarks yrði löng og ströng.
Um þessar mundir eru liðin rétt 200 ár frá valdatíma Jörundar Hundadagakonungs, en það er eina tímabilið í sögu landsins frá 1262-1944 þegar þjóðin var algerlega frjáls að nafninu til.
Þegar Jörundi var steypt sýndi það þá staðreynd að Danir og Bretar réðu því sem þeir vildu.
Kjörorð Jóns Sigurðssonar, "eigi víkja!", átti við um það að missa aldrei marks á takmarkinu, fullu sjálfstæði, hversu fjarlægt sem það sýndist og þótt við ofurefli væri að etja sem vægja yrði fyrir á hverjum tíma eftir því sem aðstæður krefðust.
Sjálfur hafði Jón þá fáheyrðu stöðu á þeim tíma, að vera á launum hjá þeirri þjóð sem hann taldi beita Íslendinga órétti og ofríki. Án þess að hafa þessa aðstöðu gat hann ekki beitt sér eins og hann gerði. Hann var raunsæismaður og tók jafnvel svari Dana í fjárkláðamálinu svonefnda og fékk bágt fyrir.
Jóni og öðrum sjálfstæðishetjum tókst að heyja þessa baráttu án þess að nokkru mannslífi væri fórnað og án þess að nokkru sinni væri gengið svo langt að það skaðaði langtímahagsmuni okkar.
Slíkt er fágætt í átökum af þessu tagi meðal þjóða heims.
Þrotlaus barátta hans fyrir málstað þjóðar sinnar með því að finna sem best rök og halda fram sanngirnissjónarmiðum á erlendri grundu var lykillinn að því að ná takmarkinu um síðir, jafnvel þótt það yrði eftir hans dag.
Sjálfstæðisbarátta þjóðar endar í raun aldrei því engin þjóð getur verið fullkomlega óháð öðrum þjóðum, allra síst í alþjóðasamfélagi okkar tíma. Þessa staðreynd þurftu Íslendinga þegar að glíma við við inngöngu í SÞ og NATÓ eftir að fullveldið var fengið.
Aðeins ári eftir fullveldisdaginn 17. júní 1944 þrýstu Bandaríkjamenn á að fá hér herstöðvar í 99 ár.
Framundan er barátta í anda Jóns Sigurðssonar sem heyja verður í margvíslegum samskiptum við aðrar þjóðir og á sviði öflugrar upplýsingar og kynningar í fjölmiðlaumhverfi okkar tíma.
Við stöndum á réttinum og sanngirninni þótt við neyðumst til að vægja fyrir valdinu, en þó ekki hænufeti lengra en brýnasta nauðsyn krefst. Viðfangsefni okkar felst í því, rétt eins og í sjálfstæðisbaráttunni forðum, að finna hina vandrötuðu leið milli takmarks og aðstæðna og fá um það sem breiðasta samstöðu.
![]() |
Ræða breytingar á Icesave í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)