Forréttindi á æskuárum.

Ég lít á það sem happ og forréttindi að hafa verið í sveit í Langadalnum í fimm sumur frá 9-13 ára aldurs og vera treyst til þess síðasta haustið að ríða á eigin ábyrgð frá Hvammi svipaða leið og gestir fá að gera nú til Skrapatunguréttar.

Í dag flaug ég frá Reykjavík til Akureyrar og á leiðinni yfir Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði rifjuðust upp góðar minningar frá gerð þáttarins "Líf, land og söngur" með smalamönnum á þessum heiðum.

Ferðin í Skrapatungurétt var ævintýri fyrir mig á sinni tíð. Í þá tíð var mikið sungið og sumir voru nokkkuð við skál, - yfirleitt alltaf þeir sömu. Einnig voru það yfirleitt hinir sömu sem lentu í slagsmálum.

Ástandi sumra hefur séra Hjálmar Jónsson lýst vel í eftirfarandi stöku:

Eftir skyssu, arg og nauð, - /

ekki viss að tjá sig,  /

búinn að missa Brún og Rauð  /

og búinn að pissa á sig.  /

 

Í lokin fór ég ásamt yngri dreng, sem var í sumarvist í Hvammi upp Laxárdal og um Skarðsskarð niður að Geitaskarði.

Við lentum í þoku en það kom sér vel hvílíka landafræðidellu ég hafði verið með í mörg ár og vissi því hvernig hægt var að feta þessa leið án þess að villast.

 


mbl.is Stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig var Laugarnesið 874, 1874 ?

Laugarnesið í Reykjavík er að verða einhver áhugaverðasti staðurinn á nesi því þar sem Ingólfur Arnarson nam land. Ég held að nú væri gott að hrinda af stað rannsókn á því hvernig Laugarnesið hafi verið við landnám og hvernig það hafi breyst af mannavöldum síðan.

Var þar kjarr í upphafi? Var þar risahvönn? Hún er þar núna. Hve víða á hún að dreifa sér?

Þetta er einn af örfáum stöðum þar sem möguleiki væri á að setja á stofn svæði, þar sem hver Reykjavíkurkynslóð hér eftir geti upplifað umhverfi fyrri kynslóða sem búið hafa í Reykjavík.

Ég fór að hugsa um þetta fyrir alvöru við gerð "Reykjavíkurljóðs" sem átti að fjalla um borgina og umhverfi hennar, líf borgarbúa og sögu Reykjavíkur.

Ég vil því sjá Laugarnesið sem sýnisbók mannlífs og náttúru í Reykjavík á sögulegum tíma og geta gengið um það þannig að á sem stærstum hluta þess sé allt í sama horfi og var við landnám, en á öðrum hlutum þess megi sjá það sem menn gerðu allar götur síðan, svo sem tún, sem þar voru á allt fram á daga hins ástsæla söngvari og hestamanns, Sigurðar Ólafssonar þegar hann bjó þar.

Ég vil líka að varðveitt verði heimkynni Hrafns Gunnlaugssonar og það gert með opnum huga.

Ég þekki hliðstætt dæmi úr sögu Reykjavíkur. Á sínum tíma var rifið vegna gerðar Breiðholtsbrautar mjög sérstakt hús, "Kastalinn", sem Óskar Magnússon reisti í Blesugróf og ýmsir sérfróðir menn telja að hafi verið magnaður arkitektúr.

P1010245

Menn áttuðu sig ekki á þessu fyrr en síðar.  

 Í Laugarnesinu eiga rómantík, saga og náttúra að vera í öndvegi svo að áfram verði hægt að láta upphaf Reykjavíkurljóðs njóta sín þar, kynslóð fram af kynslóð: 

 

Ljúf stund, - safírblá sund  /  

þegar sindrar á jöklinum glóð.  /

Tvö ein, - aldan við hlein   /

söng um ástina lofgjörðarljóð.   /

 

Þau leiddust inn í Laugarnes, -  /

lögðust þar   /  

ástfangin og rjóð, hið fyrsta Reykjavíkurpar, -

þau Ingólfur og Hallveig.

 

Enn er -  unaður hér,   /

leiðast elskendur á nýrri öld  /

um torg  -  í vorri borg, -  /

njóta yndis um sumarkvöld....  

 

Lagið er á tónlistarspilaranum hér vinstra megin. Söngur: Ragnar Bjarnason og söngkvartettinn Borgarbörn með stórhljómsveit Gunnars Þórðarsonar.  

 


mbl.is Risahvönn ógnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband