16.9.2009 | 23:12
Ólíkindaskepnur.
Gömlum kúreka eins og mér kemur ekki á óvart uppátæki bresku kúnna sem maður flúði undan út í á. Nautgripir af báðum kynjum eru nefnilega hreint óútreiknanlegir.
Allir vita að þessar hæglátu skepnur geta alveg sleppt sér þegar þær eru settar út í fyrsta sinn á vorin, en reynsla mín af þeim þau sumur sem ég sýslaði með þær í sveitinni var sú, að að meðaltali um það bil einu sinni á sumri slepptu þær sér alveg aukreitis og það var engin leið að finna það út fyrirfram hvenær slíkt gerðist.
Þetta lýsti sér á þann hátt, að án nokkurs aðdraganda eða sýnilegrar ástæðu tóku þær upp á því þegar þær voru reknar ofan úr fjallinu að skvetta skyndilega upp rössunum með halana beint upp í loftið og hlaupa og hendast langa leið niður á jafnsléttu, gersamlega óviðráðanlegar og þjóta þar með rassaköstum um víðan völl, svo dýrmæt mjólkin gusaðist úr júgrum sumra þeirra.
Í bókinni "Manga með svartan vanga" fjallar einn kafli um það þegar bóndinn á Strjúgsstöðum kom með kú til að halda undir ungum bolakálf á bænum.
Ég var einn heima þessa dagstund og þetta gekk brösuglega, því að kýrin var mjög stór en bolakálfurinn hins vegar lítill, alls ekki fullvaxinn, nema þá helst þar á líkamanum sem nota skyldi við þetta tækifæri.
Reyndum við ýmsar aðferðir við að vinna þennan stærðarmun upp, meðal annars með því að leiða bolapísluna upp á barð neðst í túnbrekkunni, sem bærinn stóð í og bakka kúnni inn að barðinu.
Bóndinn var mjög grannur og lítill vexti og réði illa við kúna og ekki gekk mér betur með kálfinn, sem hrataði jafnvel fram af barðinu þegar allt stóð sem hæst og allt fór í vaskinn, - ég meina grasið.
Þegar þetta fáránlega basl stóð sem hæst gerðist það allt í einu upp úr þurru að kýrnar, sem höfðu verið að bíta gras í miklum rólegheitum í brekkunni fyrir ofan okkur, urðu skyndilega eins og ærar, tóku á rás í þéttum hóp og hlupu niður brekkuna og beint á okkur, mig, bóndann og bolakálfinn.
Ég slapp naumlega á harðahlaupum, en bóndinn, sem var mjög grannur og lítill vexti, varð fyrir kúahópnum, sem ruddi honum um koll svo hann kútveltist á milli fóta þeirra eins og kefli.
Í annað skipti gerðist það í fjósinu á bænum, að þegar bóndinn ætlaði að binda nautið í fjósinu og beygði sig niður fyrir framan bolann, virtist nautið skyndilega halda að bóndinn væri kýr og hóf sig upp á hann.
Bóndanum brá óskaplega, enda fátítt að naut séu hommar, og varð skyndilega svo sterkur að hann reis upp undir nautinu og kastaði því afturábak ofan í flórinn.
Það var ógnarlegt að sjá hvað maðurinn gat orðið sterkur þegar hann reisti þetta stóra dýr upp á endann og slöngvaði því svo afturábak ofan í flórinn svo að unaðarsproti þess minnti á stinna garðslöngu, sem úðast úr.
Miðað við stöðu mála hjá nautinu var þetta ákaflega myndrænt, en ég segi bara eins og Kristján heiti ég Ólafsson, - við förum ekki nánar út í það.
Eftir þessi atvik treysti ég aldrei nokkrum nautgrip eitt einasta augnablik, sama hve gæfur hann er.
Vísa að öðru leyti um nánari lýsingar á bókina "Manga með svartan vanga."
![]() |
Stökk út í á til að forðast kýr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.9.2009 | 09:31
Álvera tók ég trú.
Álvera tók ég trú. /
Traust hefur reynst mér sú. /
Fæ ég í fluor að standa /
fyrir náð heilags anda.
Amen.
(K.N., tveimur orðum breytt)
![]() |
Stærsti álframleiðandi Kína spáir í Þeistareyki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2009 | 01:30
Fjórða kynslóð og þriðja gerð Trabants.
Rétt eins og eftirlíking af Bjöllunni, Mini og Fiat 500 komu á markað, hlaut að koma að Trabant.
Sami hönnuður hannaði Mini og Fiat 500 og báðir hafa ná miklu meiri sölu en búist var við.
Fyrsta kynslóð Trabants og önnur kynslóð voru aðeins ólíkar útlitslega, því að undirvagn, vél og drif voru sömu gerðar.
Færri vita, að þriðja kynslóð Trabants, sem aðeins var framleidd í eitt og hálft ár milli 1990 og 91, var með vél úr Volkswagen Póló og í stað þverfjaðranna höstu voru gormar allan hringinn undir bílnum.
Ekkert mengunarský fylgdi því þessum Trabant, sem var fyrsta alvarlega endurbót bílsins.
Ýmsar tröllasögur voru sagðar í gríni um Trabantinn, til dæmis, að hann hrykki í sundur í búta við árekstur. Ég hef séð mynd af árekstrarprófi Trabants og samkvæmt því er þetta rangt, - hann kemur furðu vel út úr því.
![]() |
Grænn Trabant í Frankfurt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)