27.9.2009 | 19:20
Leifturstríð pólitísks fallhlífaherliðs.
Það er stundum talað um pólitísk herbrögð og innrás stuðningsmanna Ólafs Arnar Nielsens og hertaka SUS á þingi þess á Ísafirði hefur yfir sér ævintýrablæ nútímahernaðar í styrjöld.
Ef marka má fréttir var sent 50 manna pólitískt fallhlífaherlið úr Reykjavík með sérstakri leiguflugvél, sem gerði óvænta leifturárás úr lofti, hertók þingið eftir snarpan og tvísýnan bardaga, og fallhlífaliðið var síðan flutt til baka án þess að taka frekari þátt í þingstörfum.
Fylgismenn fráfarandi formanns náðu ekki vopnum sínum, enda líklega vonlítið að smala nægu pólitísku herliði um borð í áætlunarflugvél vegna skorts á sætafjölda og / eða tímaskorts.
Of langt var á landi til Ísafjarðar til að hægt væri að senda þangað landherlið í tæka tíð.
Þetta er hægt að kalla pólitíska hernaðarsnilld og sé það rétt að í þessu pólitíska fallhlífaherliði hafi verið fólk úr svonefndum Davíðs-armi Sjálfstæðisflokksins eru þessar aðfarir í stíl við ýmis snjöll brögð og hugkvæmni hans.
Síðan geta menn deilt um það einu sinni enn í sambandi við átök á svona þingum, hvaða siðferðilegan dóm eigi að leggja á baráttuaðferðina.
![]() |
Ólafur Örn kjörinn formaður SUS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
27.9.2009 | 12:51
Ætti frekar að stækka mörkin !
Þegar knattspyrnan mótaðist fyrir meira en hundrað árum var meðalhæð leikmanna líkast til um 10-15 sentimetrum lægri en nú er.
Leikaðferðir voru þannig að varnarmenn héldu sig á sínum vallarhelmingi en sóknarmenn sóttu einir fram.
Aðeins þrír leikmenn voru skilgreindir sem hreinir varnarmenn á velliknum og á móti voru þrír leikmenn eyrnamerktir sem sóknarmenn.
Þetta gaf til kynna leikaðferðina 3-4-3 og það var ekki fyrr en fyrir tæpri hálfri öld að fram komu leikaðferðir á borð við 4-2-4, 4-3-3, 5-3-2 o. s. frv., sem sýndu þá þróun að það voru æ fleiri menn við markteig þegar sótt var að mörkunum og yfirferð leikmanna var mun meiri en áður var.
Upp komu leikaðferðir þar sem bakverðir sóttu hvað eftir annað upp eftir köntunum í átt að marki andstæðinganna.
Af framangreindu leiðir að það gæti örvað spennu og komið í veg fyrir hin leiðinlegu markalausu jafntefli eða leiki, sem enda 1:0, að mörkin séu stækkuð, hækkuð um sem svarar hækkun meðalhæðar leikmanna og breikka um jafnmarga sentimetra í hvora átt.
Þetta yrði aðeins leiðrétting til samræmis við breyttar aðstæður. Atferli Kim Christensen ber vitni um að þetta skipti máli.
Sömuleiðis mætti íhuga hvort mörkin í kvennaboltanum ættu að vera áfram í núverandi mynd. Á tækniöld ætti að auðvelt að hanna mörk sem hægt er að stækka eða minnka eftir aðstæðum.
![]() |
Markvörður svindlar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.9.2009 | 02:30
Fram úr björtustu vonum.
Ég hygg að afmælistónleikar Ragnars Bjarnasonar, sem voru tvíteknir í gær, hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra sem þangað komu.
Dagskráin í gær var stíf. Það var byrjað á að renna öllum tónleikunum í gegn klukkan tíu, sem tók hátt á þriðju klukkustund, síðan voru rúmlega tveggja stunda tónleikar klukkan 16:00 og öllu lengri aðaltónleikar klukkan 21:00.
Hinn 75 ára gamli afreksmaður hafði þá með lokalagi sínu, "Við bjóðum góða nótt," lagt að baki drjúgt dagsverk með stæl, tæplega þrettán klukkustundum eftir að hann söng fyrsta sönginn klukkan tíu um morguninn.
Þar með geirnegldi hann söngferil sem spannar nú 56 ár á eftirminnilegan og einstakan hátt. Það var mikill heiður fyrir okkur öll, sem fengum að vera með honum í sviðinu í kvöld, að verða þátttakendur og vitni að þessu afreki.
![]() |
Fjölsóttir afmælistónleikar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)