Minnir á gamla smásögu.

Þegar Víkingalottóið byrjaði og fólk var farið að heyrar margar fréttir á borð við þá sem ný hefur heyrst af vinningshöfum, sagði ég eftirfarandi smásögu á einstaka skemmtunum. 

"Ég hitti karl sem var að kaupa miða í Víkingalottóinu og keypti fimm miða, en alla með sömu röðinni.

Ég spurði hann af hverju í ósköpunum hann keypti ekki fimm mismunandi raðir og þá sagði sá gamli:

Ég kaupi fimm raðir sem eru allar með það í huga, að ef ég á annaðborð vinn, þá þurfi ég ekki að skipta vinningnum með Dana, Norðmanni, Svía og Finna !"

Samkvæmt þessu hefði Íslendingurinn í tilfellinu, sem greint var frá núna, keypt eina sjálfvalda röð og síðan bætt við fjórum röðum með sömu tölunum.

Þá hefði hann fengið 99.574.000 krónur í stað 44.601.000 ! 


mbl.is Lottóvinningur upp á 44,6 milljónir til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lán til hvers sem var.

Orðið 2007 er þegar orðið tákn um ruglið sem heltók menn á því herrans ári. Reynslulausir nýgræðingar í bankastarfsemi hrópuð: "Kaupum hvað sem er!" 

Um allt Ísland bergmáluðu hróp lánastofnananna: "Lán til hvers sem er!"

Haldið var uppi 30-40% of háu gengi krónunnar og sagt við þá sem ráku sjávarútveginn, að þeir ættu bara að fjármagna tapið af þessu stórfellda peningaráni frá útflutningsgeinunum með því að fá sér lán, helst erlend.

Ofan á þetta bættist stórfelld færsla fjármuna út úr greininni til verkefna og umsvifa sem komu henni ekki við.

Nú skular sjávarútvegurinn 550 milljarða en það er eins og fólk líti á það sem sér eitthvað óviðkomandi, líkt og sjávarútvegurinn sé í hlutverki karlsins sem sat uppi á hestinum og setti poka á bak sér en ekki fyrir framan sig á hestinn um leið og hann sagði: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber."

Öðru máli gegnir um Icesave, sem er miklu minni upphæð, en lendir beint á skattborgurunum og þess vegna er öll athyglin á því.

Á Stöð tvö var rætt við konu, sem er atvinnulaus og einstæð þriggja barna móðir. Hún er menntuð og ákvað í atvinnuleysiinu að fara í frekara nám eins og fólk á hennar róli hefur verið hvatt til.

En "2007" skuldirnar hafa vaðið upp og nú er komið í öngstræti hjá henni. Hún er réttilega reið út í þá sem ollu hruninu og þúsundir Íslendinga geta deilt þeirri reiði með henni.

En frásögn hennar og spurningar sjónvarpsfólksins skildu eftir eina mótsögn.

Skuldir hennar eru tvenns konar.  

Hún fékk lánað fyrir íbúð og skuldar nú fimm milljón krónum meira en íbúðin er virði. 

Hún taldi sig geta staðið í skilum en hrunið breytti því og þúsundir fólks getur ekki unað við það, skiljanlega.  

En í lok viðtalsins var tæpt á atriði sem mér finnst vekja ósvaraðar spurningar.

Hún sagðist hafa keypt sér bíl með því að skuldsetja sig,  þannig að nú skuldaði hún 2,2 milljónir í bílnum.

Ekki var spurt að því af hvort hún hefði gert eitthvað til að losa sig við bílinn og mátti af því skilja að sjálfagt væri að hún ætti bíl í þessum verðflokki. 

Daglega má sjá í Fréttablaðinu auglýsingar um bíla sem kosta innan við 250 þúsund krónur.

Ég hef síðasta áratug ekið mest af mínum akstri á bíl sem virða má á nokkra tugi þúsunda og  þekki fleiri sem gera slíkt ef fjárhagurinn leyfir ekki meira.   

Það hefði mátt fara nánar út í þetta bílamál í viðtalinu.  


mbl.is Reynslulausir íslenskir bankamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott efni í smjörklípu.

Einu sinni sagði þáverandi forsætisráðherra Íslands í nýjársávarpi að engin þörf væri á að eyða púðri í umræðu um hlýnun jarðar og svartar spár um afleiðingar hennar, og endaði umfjöllun sína um þetta með því að segja: Skrattinn er leiðinlegt veggskraut." 

Þetta ávarp stakk í stúf við ávarp forsetans við sömu áramót þar sem hann hafði greinilega séð sjónvarpsmyndina "Hið kalda hjarta hafanna", sem benti á hættuna af því að of mikil ferskvatnsmyndun nyrst á Atlantshafi vegna bráðnunar jökla gæti dregið úr afli Golfstraumsins og valdið kuldaskeiði á Norður-Atlantshafi og í norðanverðri Evrópu.

Nú liggur óumdeilanlega fyrir að ísinn í Norður-Íshafinu hefur minnkað meira en dæmi eru um og hér á Íslandi hopa jöklar árlega og lækka. Svipaða sögu er að segja af Grænlandsjökli og jöklum annars staðar.

Í frétt í Morgunblaðinu í dag er mikið gert úr því að ýktar hafi niðurstöður um minnkun jökla í Himalaya. 

Þegar fréttin er lesin nánar kemur þó fram að jöklarnir muni minnka og þeir minnstu hverfa.

En ýkjurnar og réttmæt gagnrýni á Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna vegna þeirra eru orðnar aðalatriðið, ekki staðreyndirnar, sem meðal annars blasa við á jöklum Íslands. 


mbl.is Játa á sig ýkjur um bráðnun jökla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband