Ísbirnir, hreindýr og rím.

Á hverju ári eru leyfðar hreindýraveiðar á norðausturhálendinu. Enginn hefur haft neitt við slíkt að athuga heldur kannski frekar rætt um álitamál við framkvæmd veiðanna. 

Þess vegna er ekki hægt að sjá að neitt annað eigi að gilda um ísbirni, sem eru þar að auki algerlega ósambærileg við hreindýr hvað varðar þá hættu sem svona rándýr skapa.

Í dag var ísbjörninn að sögn heimamanna svo nálægt fé og mannabyggð og barnaskóla og enginn búnaður fyrir hendi til að fanga hann.

Ég hef ekki heyrt spurt um það hvort hægt hefði verið að skjóta skoti með deyfilyfjum í dýrið.

Ísbjarnarstofninn er ekki í útrýmingarhættu og ekki sýnist mér að það hefði verið mannúðlegra að eyða miklu fé á þessum síðustu blankheitatímum til að fanga björninn og fara með hann í húsdýragarðinn í Reykjavík.

Læt síðan fylgja með limru sem ég gerði á sínum tíma og tileinkaði Birni Malmquist þegar hann var dugnaðar aðstoðamaður við gerð þáttanna "Aðeins ein jörð", þá kornungur.

K.N. var laginn á sínum tíma að lát íslensku og ensku ríma saman og ég nýtti mér það, þótt forsenda fyrir að rímið komi í ljós sé sú að vísan sé lesin upphátt. 

Þótt mér hann þá úrræðagóður og mikill reddari en limran er svona:

 

Víst ertu snjall og vís, Björn,  / 

og vin engan betri ég kýs, Björn.  / 

You solve my case   /

and save my face   /

so sweetly with grace   / 

and ease, Björn.  


Óðinn fimmtugur.

Nú er hálf öld síðan varðskipið Óðinn kom til landsins. Hann kom þegar nokkuð var liðið á fyrsta þorskastríðið og er eina skipið sem tók þátt í öllum þremur stríðunum.

Hann hefur líka aðra sérstöðu því um borð í honum var tekinn eina heimildarmyndin, sem tekin var um borð í varðskipi í þorskastríði.

Af þessum sökum skipar Óðinn sérstakan sess í mínum huga því í desember 1975 var ég ásamt tveimur öðrum sjónvarpsmönnum sendur í nokkura daga úthald um borð í skipinu á miðunum norðaustur af landinu og gerði um það heimildarþátt, sem hét "Á vígstöðvum þorskastríðsins" og var sýndur í sjónvarpinu skömmu síðar.

Erfiðasta myndskeiðið var ekki tekið þegar herskip gerði atlögu að Óðni heldur tekið í vélarrúmi skipsins þótt ótrúlegt megi virðast. Ástæðan var sú að vegna þess að vél skipsins var sex strokka var takturinn í gangi hennar 1-2-3-1-2-3-1-3 sem er sami taktur og sami hraði og í laginu La Dansa.

Þess vegna voru margar nærmyndir teknar af ventlaörmum og hverju því sem sló þennan takt í vélinni.

En þegar ég ætlaði að klippa þetta myndskeið kom í ljós að hraðinn á vélinni var ekki jafn, þegar skipið sigldi upp öldur hægði örlítið á vélinni og þegar hún sigldi niður í öldudal herti hún aðeins á sér.

Ég var heila vökunótt að basla við þetta þangað til ég var ánægður.


Toyota, tákn um gæðakröfur?

Í lok sjöunda áratugs síðustu aldar gerðu japanskir bílaframleiðendur langtímaáætlun um innrás á bandaríska bílamarkaðinn og aðra markaðii heimsins. 

Hún fólst í því að bjóða fyrst ódýrustu og minnstu bílana sem stóru bandarísku framleiðendurnir höfðu ekki áhuga á að framleiða, svo sem Honda Civic og Datsun, en þeir voru það litlir að nú myndu þeir teljast til smæstu bíla á markaðnum.

Bandarisku bílaframleiðendunum var nokk sama þótt fólk í litlum efnum og námsmenn keyptu þessa bíla en gleymdu tvennu:

1.  Japönsku bílarnir buðu upp á áður óþekkt gæði og biluðu nánast aldrei. Slík gæði höfðu síðast verið á             boðstólum í BNA um miðja öldina.  

2. Námsmennirnir, sem keyptu litlu ódýru bílana, urðu eldri og fjárráð þeirra jukust. Þeir héldu tryggð við japönsku bílana og Japanir buðu þeim smám saman stærri og dýrari bíla með sömu gæðum og fyrr. 

Tveimur áratugum eftir innrásina vöknuðu bandarísku risarnir við vondan draum þegar Lexus veitti sjálfum "Standard of the world", Cadillac, flengingu í gæðum og þægindum og Japanarnir höfðu brotist í gegn í öllum stærðarflokkum.

Síðustu 40 ár hefur gengi japanskra bíla byggst á gæðum, og Toyota og Mazda hafa lengst af verið efstir en aðrir japanskir framleiðendur alveg við hæla þeirra og hafa einstöku sinnum skotist upp fyrir.

Hér á landi hefur Toyota auglýst: "Toyota, tákn um gæði."

Þess vegna er þessi stóra innköllun að sönnu mikið áfall og atlaga að grundvelli velgengni japönskra bílaframleiðenda um allan heim. 

En ljóst er að viðbrögðunum, sem eru fordæmalaust að umfangi, að Toyota skynjar þá miklu hættu sem steðjar að og það er skýringin á hinum óhemju harkalegu viðbrögðum framleiðandans við ótíðindunum.

Hættan af fastri bensíngjöf er að vísu ekki mikil ef bílstjórinn er með á nótunum. Hann einfaldlega kúplar vélinni frá og hemlar og drepur síðan á vélinni ef bíllinn er beinskiptur eða hemlar og setur sjálfskiptinguna í hlutlausa stöðu ef bíllinn er sjálfskiptur og drepur síðan á vélinni. 

En hættan er mikil á því að fum komi á bílstjóra, einkum ef bíllinn er sjálfskiptur og á óheppilegum augnablikum getur slíkt valdið slysum af öllum stærðargráðum.  

Meðan á þessu stendur munu þessi skilaboð verða send út með lokun verksmiðjanna og rannsókninni: Til þess að Toyota haldi sessi sínum sem tákni um gæði verður það sýnt og sannað að gæðakröfurnar verða ofar öllu, sama á hverju gengur.

Við getum þess vegna átt von á því að heyra nýtt slagorð: Toyota, tákn um ítrustu gæðakröfur."  


mbl.is Toyota tekur átta tegundir úr sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Askja og tunglið 67-69. Gjástykki og mars næst.

Íslendingum fannst mikið til þess koma þegar Guðmundur Jónasson fór með  Sigurð Þórarinsson jarðfræðing og væntanlega tunglfara inn í Öskju 1967 til æfingaferðar vegna væntanlegrar tunglferðar. 

Við vorum réttilega stoltir af því að á Íslandi væri að finna þann stað sem best hentaði fyrir þessa merkilegu menn sem rituðu nöfn sín síðar gullnu letri í heimssöguna.

Síðan þetta gerðist munu vonandi fáir Íslendingar láta sér detta í hug að reisa ígildi Hellisheiðarvirkjunar í Öskju, staðar sem erlendir ferðamenn koma til í því skyni að upplifa þær aðstæður sem gerðu þennan stað að vettvangi frumherja í geimferðum. 

DSC00205

Þó er aldrei að vita miðað við það hvað er í ráði á öðrum stað sem tekur jafnvel Öskju fram en á nú að gera að virkjanasvæði. 

Myndir af þessu svæði eru hér á síðunni.  

Á eftir æfingaferð tunglfaranna í Öskju fylgdu tunglferðir en eðlilegt næsta skref er reikistjarnan mars, sem bíður þess að verða fyrsta reikistjarnan í sólkerfinu sem maðurinn fer til.

Fyrir áratug voru forsíðumynd og aðalgrein tímaritsins Time helguð ferðum til mars.

DSC00202

Meðal annars var rætt við helsta frumkvöðul alþjóðasamtaka áhugafólks og vísindamanna um marsferðir og hugsanlega búsetu manna þar. 

Þessi maður, Bob Zubrin, kom til Íslands árið 2000 og flaug ég með hann yfir Kverkfjöll, Öskju og norður í Mývatnssveit í leit hans og samtaka hans að æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.

 

Þremur árum síðar kom heil sendinefnd á vegum samtakanna til landsins og valdi sér æfingasvæði í Gjástykki. 

DSCF0591

Ég fylgdist með þeim í þessari ferð og tók við þau sjónvarpsviðtal.

Þetta var allt hámenntað fólk sem vissi hvað það var að gera og eftir hverju það sæktist.  

 

Þótt þeir sem koma í Öskju hrífist af því að upplifa hina hráu sköpun sem þar hefur átt sér stað tekur Gjástykki Öskju þó fram.

Það er vegna þess að engar myndir eða samtímavitnisburðir eru um atburðina í Öskju 1875.

P1010063

En í Gjástykki er hægt að upplifa þessa sköpun á einstæðan hátt, sem enginn annar staður á Íslandi eða í heiminum getur keppt við, ekki einu sinni svonefnd "Brú á milli heimsálfa" sem nú er ferðamannastaður á Reykjanesi.

Undir þeirri brú sjást engin merki um þá sköpun Íslands sem sést í gjám í Gjástykki, sem hægt er að ganga ofan í með Ameríku sem vestari gjábarm og Evrópu sem hinn eystri, og koma þar að þar sem nýtt land sprautaðist upp úr gjánni og ýmist breiddi úr sér eða féll ofan í og kom upp aftur. 

Ljósmyndir og kvikmyndir voru teknar af þessu fyrir aldarfjórðungi og með aðstoð þeirra hægt að upplifa þarna rek meginlandanna hvors frá öðru og sköpun nýs lands.

P1010157

Þegar þetta tvennt, "sköpun jarðarinnar" og "ferðir til mars" eru lögð saman er ljóst að þetta svæði tekur sjálfri Öskju fram.

En nú fara virkjanamenn þarna fram af alefli og gefa lítið fyrir þau spjöll sem þeir muni valda á þessu landi og heiðri þjóðarinnar, heldur mun fjárhagslegur ávinningur af þessu verða miklu minni en sá ávinningur sem hægt er að fá með því að nýta svæðið ósnortið sem eina af allra merkilegust náttúruperlum landsins.  

Menn fara kannski að verða leiðir á því hve oft ég hef fjallað um þetta hér á blogginu og geta þá bara sleppt því að lesa það.

En samt virðist ríkja óskapleg fáfræði um þetta málefni. Halldór Blöndal orðaði það vel í blaðagrein með þessum orðum: "Og nú vilja menn friða Gjástykki. Hvers vegna skilur enginn."  


mbl.is NASA viðurkennir ósigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband