4.1.2010 | 21:40
Babelsturn okkar tíma?
Sagnirnar um Babelsturninn sem á að hafa verið reistur í Babylon hinni fornu þálifandi valdhöfum og mönnum til dýrðar kemur upp í hugann við fréttirnar af langhæsta turni heims í Dubai.
Turninn í Dubai er reistur til dýrðar núverandi valdhafa þar og ber nafn hans og á að vera vitni um dýrð og mikilleik hans og núlifandi landsmanna hans á sama tíma og landið er í raun gjaldþrota og því haldið uppi með hjálp nágrannaþjóða, sem sjálfar ausa af fyrirhyggjuleysi af skammvinnri orkulind og nota gróðann af henni til að viðhalda spilltum og einræðisfullum valdhöfum í þjóðfélögum misréttis á marga lund.
Í mannkynssögu framtíðarinnar verður veldi olíuríkjanna við Persaflóa minnst sem einhvers skammvinnasta og skammsýnasta fyrirbæris sögunnar og turninn mikli í Dubai og önnur fáránleg bruðlmannvirki þessa ríkis verða tákn um græðgi og sjálfumgleði sem skilur eftir sig sviðna jörð þegar spilaborgin hrynur.
Samsvarandi turnar risu líka hér á landi í gróðærinu mikla, og byrjunin var auðvitað sú að okkar kynslóð reisti stærsta mannvirki sem nokkur íslensk kynslóð hefur reist eða mun geta reist um sjálfa sig, Kárahnjúkavirkjun.
Var þar engu skeytt um rétt milljóna ófæddra Íslendinga, heldur eyðilögð um aldur og ævi náttúruverðmæti sem voru ekki metin krónu virði.
Eins og það væri ekki nóg fylgdu í kjölfarið fleiri tákn bruðls, hroka og yfirlætis.
Eitt þeirra, Hálvitinn við Borgartún, sem ég kalla svo, ber innantómt að mestu við loft séð frá þeim stað sem ég bý á og byrgir fyrir sjálfan Snæfellsjökul sem áður var augnayndið mesta á góðviðrisdögum auk þess sem eyðilögð var sjónlína frá innsiglingarvita Reykjavíkur og mun kosta ótalda milljónatugi ef ekki hundruð að lagfæra það.
Það merkilega við Babelsturna Babylons, Dubai og Íslands er að svo virðist sem menn geti ekki lært af sögunni.
![]() |
Mikið um dýrðir í Dubai |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.1.2010 | 18:17
Hvernig var þjóðaratkvæðagreiðslan 1944?
Á þeim tíma sem heimsstyrjöld geysaði og nasistar réðu enn yfir nær allri Evrópu vestan við Sovétríkin og norðan syðsta hluta Ítalíu ákváðu Íslendingar að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
Þessi atkvæðagreiðsla fór fram án þess að maður hafi séð að nokkur sérstök vandkvæði hafi verið á því.
Þess vegna á að vera alger óþarfi að vandræðast með þjóðatkvæðagreiðslu nú, jafnvel þótt þeir séu nú látnir sem stóðu að atkvæðagreiðslunni 1944.
Það ættu að vera til heimildir um hana.
Það segir hins vegar sína sögu að það skuli vera svona langur tími síðan svona atkvæðagreiðsla hefur farið fram.
![]() |
Blaðamannafundur í fyrramálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.1.2010 | 15:08
Niðurstaða nauðsynleg.
Það er fagnaðarefni að fyrirtæki sem veitir fleira fólki vinnu hér á landi en heilt risaálver eykur starfsemi sína. Actavis er eitt af ótal dæmunum um að það, sem kallað hefur verið "eitthvað annað" með fyrirlitningartóni stóriðjusinna.
Actavis virðist líka vera eitt af dæmunum um vel heppnaða útrás og ætti að kenna okkur að fordæma ekki allt það sem getur fallið undir það orð.
Frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar er aðeins 20 mínútna akstur og verksmiðja Actavis getur því verið vinnustaður sem nær til sín fólki og þjónustu þótt farið sé yfir kjördæmamörk.
Í sambandi við þetta mál kemur enn og aftur upp umræða um eignarhaldið, svipað og var varðandi gagnaverið á Keflavíkurflugvelli.
Það leiðir hugann að því brýna óleysta verkefni bíður þessa nýja árs að kryfja hrunið til mergjar, upplýsa um ábyrgð manna, sem þeir síðan axli og sýni að þeir iðrist og vilji leggja sig fram í bót og betrun.
Á eftir þessu getur síðan fylgt sú sátt, fyrirgefning og samstaða sem þjóðinni er svo nauðsynleg.
Við höfum ekki enn komist að hinu sanna og því er eftir að fara í gegnum allan þennan feril.
Á meðan svo er verður að halda haus og hrapa ekki að illa ígrunduðum dómum og aðgerðum.
Niðurstaða í þessu máli er forsenda fyrir uppbyggingu hins nýja Íslands.
![]() |
Mikil stækkun fyrirhuguð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)