Borgin og bílarnir.

Fyrrum fjölmiðlamenn eru nú að hasla sér völl í skipulags- og umhverfismálum í Reykjavík. 

Ég fór síðdegis á fyrirlestur Gísla Marteins Baldurssonar í Þjóðminjasafninu þar sem hann reifaði það helsta sem hann hefur lært í námsdvöl sinni erlendis um skipulags- og umhverfismál í borgarsamfélaginu.

Gísli Marteinn flutti þarna stórskemmtilegan og fræðandi fyrirlestur með tilheyrandi myndefni og var gerður góður rómur að málflutningi hans. 

Það hefur vantað á að Íslendingar hafi farið til útlanda til að víkka sjóndeildarhring sinn í þessum málum. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom hingað heim frá reisu sinni víða um lönd til að kynna sér þessi mál og hristi rækilega upp í stöðnuðum og úreltum sjónarmiðum, sem hér réðu þá för. 

Báðir þessir menn eru fyrrverandi samstarfsmenn mínir í Sjónvarpinu og hafa kynnst rannsóknarblaðamennsku og vinnubrögðum sem nýtast vel á öðrum sviðum. 

Auk þeirra er Hjálmar Sveinsson kominn á kreik fyrir Samfylkinguna með svipaðan málaflokk sem helsta áhugamál eftir vel heppnaða og upplýsandi umfjöllun í þáttum sínum í útvarpinu. 

Helsti gallinn við umfjöllun Gísla Marteins og fleiri í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna er sá að vegna þess að höfða þarf til Reykvíkinga er vettvangur þeirra bundinn um of við borgina eina. 

Gísli Marteinn og Hjálmar munu fá harða samkeppni frá öflugum keppinautum sem eru á svipaðri línu og þeir og hafa barist fyrir svipuðum sjónarmiðum.

Hjálmar Sveinsson fór í þáttum sínum ofan í þessi mál í nágrannasveitarfélögunum ekki síður en í Reykjavík, en spurning er hvort hann geti haldið þeirri víðu sýn áfram í kapphlaupinu um fylgi í Reykjavík.

Meðal gesta á fyrirlestri Gísla í dag var Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

Fyrir nokkrum árum fór ég í ferð um þrjú Norðurlandanna til að taka myndir í fyrirhugaða þætti mína um skipulagsmál í norrænum borgum og tók myndir í alls tólf borgum.

Var þetta gert í tilefni af skýrslu borgarsamtaka Norðurlanda sem bar saman 16 norrænar borgir. 

Athyglisvert var að allar borgirnar sem voru álíka stórar og Reykjavík voru álíka dreifbyggðar og það sýnir að dreifð byggð í Reykjavík er ekki einstætt fyrirbrigði eins og heyrst hefur í sibylju hér á landi í áratugi.

Meðal skemmtilegra hugmynda Gísla Marteins var að fjölga íbúum í Skeifuhverfinu í Reykjavík úr einum upp í 1300 án þess að leggja nokkra verslun eða þjónustu þar niður.

Þar kemur hann inn á ný viðhorf skipulagsarkitekta erlendis sem Sigmundur Davíð minntist líka á á sínum tíma, en þeir eru að hverfa frá blokkabyggðum, sem annað hvort eru skrifstofublokkir eða íbúðablokkir og halda frekar fram blandaðri byggð og sækjast ekki eingöngu eftir háhýsum í viðleitninni við að þétta byggð. 

Í DV hefur verið rætt um að innan raða Sjálfstæðismanna sé hreyfing um að koma Gísla Marteini út úr efstu sætunum.

Ég hjó eftir því í fyrirlestrinum að hann kvað þurfa sátt um innanlandsflugið í borginni og á landsvísu. Ef hann heldur sig við það er það klókt hjá honum og ef hann stendur sig jafnvel í kosningabaráttunni og á fyrirlestrinum í dag verður spennandi að sjá hvernig honum mun vegna. 

Læt svo fylgja með í lokin að ég var fyrst núna að klára pistil sem kemur inn á eitt vandamál umferðarinnar sem er stærð farartækjanna og datt of snemma inn á bloggsíðuna ókláraður.

Það er pistill er nú fullklráraður hér á undan með nafninu "Japönsku Kei-bílarnir á Íslandi" og er nú hægt að lesa hann í endanlegri mynd. 

 

 

 

 


Þetta er það sem þarf.

Núverandi efnahagslega"stríðsástand" sem hófst með beitingu Breta á hryðjuverkalögum gegn okkur hefur nú staðið í rúma 15 mánuði. 

Þegar við stóðum í þorskastríðunum á áttunda áratug síðustu aldar fóru forsætisráðherrar Íslendinga til Bretlands til viðræðna við starfsbræður sína þar.

Það er nauðsynlegt að Iceasave-málið fái atbeina af þeirri vigt sem hæfir máli af þessari stærð og að allar þær kanónur, sem við eigum, sé notaðar til að skýra málstað okkar.

Velja þarf tíma og tilefni af gaumgæfni því að þetta er eins og skák þar sem leikið er eftir klukku og leikirnir verða að vera í réttri röð. 

Mér líst vel á það sem haft er eftir forsetanum úr viðtali hans við BBC.

Hann hætti sér samt út á hálan ís þegar hann ýkti þá miklu lýðræðishefð þjóðaratkvæðagreiðslna um veigamestu mál sem hann sagði að hér ríkti.

Hér hefur slík atkvæðagreiðsla ekki farið fram í 65 ár og allir þeir stjórnmálamenn látnir sem að henni stóðu.  


mbl.is Ólafur í kröppum dansi á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Susan Boyle og Stella í Knarrarnesi.

Ég var að sjá þátt um Susan Boyle á Stöð 2, hina 47 ár gömlu Öskubusku, sem varð heimsfræg á mettíma á YouTube og hefur selt 4,5 milljónir platna með söng sínum.

Susan kom fram á réttum tíma þegar heimurinn þurfti uppörvun í kreppunni og hún gat því látið drauminn rætast og gefið öðrum með því vonir og drauma. 

P1011181

Í fyrra var borin til grafar Guðríður Jóna Árnadóttir, fyrrum húsfreyja í eyjunni Knarrarnesi undan Mýrum, ævinlega kölluð Stella. 

Rétt fyrir heimsstyrjöldina var búið að ganga frá því að Stella færi til söngnáms í Þýskalandi vegna þess að hún hafði fágæta sönghæfileika, sem minnti fólk síðar á frænku hennar, Guðrúnu Á. Símonar.

Þá dó faðir hennar og móðir Stellu og hún urðu að snúa sér í bili að því að vinna sig út úr því með þremur bræðrum hennar.

Stella gerði ráð fyrir því að einhver þeirra myndi kvænast og taka við búskapnum í eyjunni, en aldrei kom til þess.

Í þess stað bjó þetta fólk allt sitt líf í þessari litlu eyju, sem ég get flogið á 15 mínútum út í og lent þar í krafti gamals leyfis Stellu, en eyjan er samt það afskekkt, að Knarrarnesfólkið fór aðeins tvisvar í land á hverju ári, á vorin og haustin, til að selja vörur sínar og birgja sig upp. Eftir að móðir systkinanna dó komst Stella aðeins einu sinni á ári í land.

Stella fór því aldrei til söngnáms en fyrir tilviljun heyrði ég hana einu sinni syngja þegar ég kom heim að bænum og undraðist af hverju hún hafði, aldrei þessu vant, ekki komið út úr bænum til að taka á móti mér.

Þegar ég nálgaðist húsið heyrði ég háværa tónlist sem hljómaði inni í bænum og barst út á tún. Greinilegt var að Stella var búin að hækka í útvarpinu til að njóta óperutónlistar En það vakti furðu mína að verið var að spila upptöku með Maríu Callas þar sem önnur frábær söngkona söng með henni tvísöng.

Ég minntist þess ekki að hafa heyrt Callas syngja þessa aríu með annarri söngkonu og því síður að til væri dúett útgafa af þessari einsöngsaríu.

En þegar ég kom nær áttaðí ég mig á því að það var Stella sem söng svona frábærlega vel með hinni heimsfrægu söngkonu, Callas hljómaði af hljómplötunni en Stella í beinni útsendingu fyrir mig einan.

Þetta atvik kemur í hugann þegar þátturinn um Susan Boyle er sýndur í sjónvarpinu.

Stella í Knarranesi hefði getað orðið hin íslenska Öskubuska á sínum tíma, fræg óperusöngkona í stað þess að lifa allt sitt líf á einu byggðu eyjunni í Faxaflóa, svo afskekktri að aðeins tvisvar á ári fór hún í land.

Ég harma enn þessi örlög Stellu en henni auðnaðist með lestri, hlustun á útvarp og síðar áhorfi á sjónvarp að sætta sig við þetta hlutskipti sitt og ferðast í huganum um heiminn og verða heimskona á sinn hátt.

Á hverju hausti fór hún í eina viku til Reykjavíkur og eyddi tímanum í að fara á alla tónleika og sýningar sem í boði voru áður en haldið yrði til baka heim til bræðranna þriggja sem hún fórnaði lífi sínu til að þjóna til viðhalds hinni einstæðu byggð og mannlífi í Knarrarnesi.  

P1011183

Ef einhverjir vilja kynna sér nánar þetta mál má geta þess að ég gerði nokkra sjónvarpsþætti og fréttir bæði á Sjónvarpinu og á Stöð tvö um hin stórmerku systkin í Knarrarnesi, - og í bókinni "Fólk og firnindi" er kafli um heimsókn út í eyjuna.  

Hér til vinstri er mynd úr bókinni þar sem einsmannsfisið "Skaftið" flögrar yfir bænum áður en komið er inn til lendingar á túnbleðlinum neðst á myndinni. 

Vegna tæknilegra mistaka eru myndirnar tvær. 

P1011183

Bloggfærslur 7. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband