14.10.2010 | 13:34
Siðlaus blekkingaleikur.
Í viðtalinu sem birtist við Ásmund Friðriksson á mbl.is í dag segir hann að skipulagsmál hafi hamlað framgangi álvers í Helguvík. En skrýtið. Hingað til hefur VG og "öfgamönnum" verið kennt um allar tafir.
Og hvernig skyldi standa á því að skipulagsmál koma nú allt í einu upp. Það skyldi þó ekki vera að það hafi verið byrjað á álverinu án þess að hafa leyst það mál að raflínur þarf að leggja í gegnum tólf sveitarfélög og afla orku í fleiri en einu.
"Öfgamönnum" og VG var kennt um tafir á orkuöflun þegar hið sanna er að Orkustofnun hefur ekki getað samþykkt stækkun Reykjanesvirkjunar vegna þess að orkuöflunarsvæðið er ekki aðeins þegar fullnýtt heldur jafnvel ofnýtt með því sem hefur hingað til kallast rányrkja á íslensku.
Nú segir Ásmundur að bjartsýnin hafi aukist vegna þess að Norðurál sé reiðubúið að "einbeita sér að fyrstu þremur áföngunum við byggingu álversins" sem eykur líkur á framgangi verkefnisins.
Það að "einbeita sér að fyrstu þremur áföngum verkefnisins" segir ekkert um það að ætlunin sé að láta þar staðar numið.
Í stað þess að krefjast orku fyrir alla fjóra áfangana, sem ekki er finnanleg, á að blekkja menn með því að "einbeita sér að þremur áföngum" sem hvort eð er hefði verið gert ef menn hefðu ætlað að láta þar við sitja.
Ég hef setið á mjög upplýsandi fundi með fulltrúa Norðuráls þar sem það kom skýrt fram að álver á okkar tímum verða að framleiða minnst 340 þúsund tonn af áli á ári.
Lengi var þrætt fyrir þetta í sambandi við álver á Bakka en síðan var því játað.
Það er óheiðarlegt hvernig beitt hefur verið blekkingum í þessu máli frá upphafi, vaðið af stað með framkvæmdir og kaup á túrbínu án þess að hafa orkuöflun og skipulagsmál klár í skjóli þess að allt til enda verði hægt að stilla mönnum upp við vegg fyrir framan gerðan hlut og
Þessum leik á að halda áfram með því að láta í veðri vaka að aðeins verði reistir þrír áfangar í stað fjögurra enda er orðalagið nógu loðið til þess að hægt verði að láta okkur bergja af þessum bikar í botn þegar þar að kemur.
Þá verða það Kerlingarfjöll eða Landmannalaugar sem verða tekin.
![]() |
Aukin bjartsýni vegna álvers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
14.10.2010 | 03:04
Fólk fær það sem það kaus.
70% þjóðarinnar vill nýtt eða ný framboð í næstu alþingiskosningum samkvæmt síðustu skoðanakönnun. Knappur meirihluti vill kosningar strax.
Besti flokkurinn var nýtt framboð við borgarstórnarkosningar og fékk 36% atkvæða og sex borgarfulltrúa. Eina leiðin til þess að aðrir flokkar en Besti flokkurinn gætu myndað meirihluta var að Sjálfstæðismenn og Samfylkingarfólk myndaði meirihluta.
En þetta voru sömu flokkar og mynduðu "Hrunstjórnina" á landsvísu sem Búsáhaldabyltingin hafði púað niður þ annig að þetta ekki inni í myndinni.
Jón Gnarr kom hreint fram og kvaðst bjóða sig fram vegna þess að hann vildi fá gott, þægilegt og skemmtilegt djobb, leyfa hæfileikaríkum vinum sínum að fást við áhugaverð verkefni í borgarkerfinu og hafa spillingu frekar uppi á borðum heldur en að vera að pukra með hana.
Hann kvaðst vilja verða skemmtilegur borgarstjóri sem létti kjósendum lundina. Ekki veitti af eftir Hrunið.
Stórsigur Besta flokksins var túlkaður sem eindreginn vilji kjósenda varðandi nýtt framboð eða nákvæmlega það sama og nú kemur fram í skoðanakönnunum varðandi næstu kosningar til Alþingis.
Kosningaúrslitin voru túlkuð sem vantraust kjósenda á gamla fjórflokkinn.
Afleiðingin af þessu gat aðeins orðið ein: Að Besti flokkurinn í krafti yfirburða stöðu í borgarstjórn yrði leiddur til valda þótt 64% borgarbúa hefðu ekki kosið hann.
Þríflokkurinn (Framsókn úti) treysti sér ekki til að sniðganga Besta flokkinn.
Sjálfstæðismenn, sem töpuðu tveimur mönnum þrátt fyrir nokkuð vinsælan borgarstjóra, fundu fyrir því að miðað við þátt flokksins í Hruninu og ítrekaðan darraðardans á fyrri hluta kjörtímabilsins var það í skjön við kosningaúrslitin að hann yrði í meirihlutasamstarfi við Besta flokkinn.
Raunar virtist slíkt aldrei koma til af hálfu Besta flokksins hvort eð er og það kom því í hllut fulltrúa Samfylkingarinnar að mynda meirihluta með Besta flokknum.
Fyrir Besta flokkinn gaf þetta honum mun sterkara valdahlutfall í merihlutanum heldur en samvinna við Sjálfstæðismenn hefði gefið honum.
Jón Gnarr hefur viðurkennt hreinskilnislega að erfitt sé fyrir alls óvanan mann að setja sig inn í alla mögulega hluti í borgarkerfinu og sitja leiðinlega fundi, svo sem sviðsstjórafundi og aðra slíka.
Allir áttu að geta séð fyrir að þannig yrði það.Hann kemur einfaldlega til dyranna eins og hann er klæddur og kjósendur geta ekki eftir á farið að túlka niðurstöður síðustu borgarstjórnarkosninga öðru vísi en gert var þegar úrslit skoðanakannana og úrslit kosninganna birtust á sínum tíma.
Nú vilja 70% fólksins nýtt framboð á landsvísu og fari svo að sagan úr Reykjavík endurtaki sig í alþingiskosningum fær fólk einfaldlega það sem það kýs, hverju svo sem Ragnar Reykás kann að halda fram.
![]() |
Ný staða eða aukin verkefni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)