24.10.2010 | 18:19
"Við vorum hræddari við Finnana..."
Það er alveg sama hvaða þjóð á í hlut á í hernaði, stríðsglæpir verða ævinlega fylgifiskur hernaðar.
Dæmin frá Írak eru ekkert einsdæmi.
Fyrir nokkrum árum fór ég um hávetur í kvikmyndatökuferðalag til bæjarins Demyansk, sem er 550 kílómetrum fyrir norðvestan Moskvu. Þar lokuðust 110 þúsund þýskir hermenn inni frá janúar til maí 1942 en tókst síðan að brjótast út úr herkvínni.
Þjóðverjum tókst með stórkostlegri loftbrú mörg hundruð kílómetra leið að viðhalda styrk hins innilokaða hers, flytja 20 þúsund særða á brott og 16 þúsund hermenn inn í staðinn.
Hernaður Þjóðverja var háður undir formerkjum sem leyfðu og óskuðu eftir áður óþekktri grimmd í garð Rússa. Urðu þessi grimmdarverk slík að fá dæmi eru um slíka villimennsku.
Fyrir tilviljun hitti ég konu skammt frá Demyansk sem var þar á þessum tíma og ég spurði hana hvernig þýsku hermennirnir hefðu verið.
"Þeir voru hvorki verri né betri en búast mátti við" svaraði hún. "Þetta voru mest ungir menn sem voru komnir í fjarlægt land án þess að vita nákvæmlega af hverju", sagði hún.
"Innan um voru ribbaldar og glæpamenn eins og gengur, " sagði hún, "en við vorum ekkert sérstaklega hrædd við þá, heldur Finnana. Þeir voru villimenn og sýndu hræðilega grimmd."
Ég varð hugsi við að heyra þetta sagt um norræna vinaþjóð. En síðan áttaði ég mig á því af hverju þetta var svona.
Það var vegna þess að hinir ungu þýsku hermenn áttu engra harma að hefna. Það áttu hins vegar Finnarnir eftir nýliðið vetrarstríð við Rússa.
Ótrúlegar og ömurlegar fréttir bárust fyrir nokkrum árum frá Danmörku um það hvernig farið var með þýsk-dönsku "hermannabörnin" í kjölfar stríðsins.
Hvernig gat norræn frændþjóð látið slíkt gerast í landi sínu?
Tómas orti um það að fólkinu svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. Það var mikið til í því.
![]() |
Ótrúlega alvarlegar skýrslur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.10.2010 | 17:43
Galdurinn við að skapa viðmið.
Volkwagen verksmiðjurnar voru í miklum vanda um 1970. Þeim hafði tekist að framleiða mest selda bíl heims, Bjölluna, strax eftir stríð, og þessi eina bílgerð ásamt Volkswagen "rúgbrauðinu" varð að tákni um ævintýralega endurreisn Vestur-Þýskalands, "þýska efnahagsundrið".
Bjallan átti velgengni sinni að þakka hve hún var einföld, sterkbyggð, endingargóð og vönduð smíð.
Vegna þess að vélin var fyrir aftan afturhjólin var hún dugleg í snjó og á vondum vegum.
Á hinn bóginn var hún þröng, þótt fimm manns gætu troðið sér inn í hana, miðstöð loftkælingarinnar gaf lítinn hita og vegna þess að þyngsti hluti bílsins, var fyrir aftan afturhjól, gat hún skvett út rassinum á óvæntan hátt ef of hratt var farið í beygjur.
Það liðu 15 ár frá upphafinu eftir stríðið þar til verksmiðjan bauð upp á aðra gerð, Volkswagen 1500, sem var í meginatriðum sami bíll og Bjallan, aðeins yfirbyggingin með öðru lagi.
Áfram voru loftkældar "boxara"vélar atfturí með afturdrifi allsráðandi hjá verksmiðjunum og ljóst að á áttunda áratugnum myndu framdrifnir bílar með vatnskælda vél þversum frammi taka völdin á markaðnum.
Minnstu munaði að VW misstu af strætisvagninum vegna tregðu til breytinga en það vildi verksmiðjunum til happs að hönnunin á VW Golf var afar vel heppnuð. Til þess að tryggja það smíðuðu verksmiðjurnar fyrst Passat, Audi 80 og Póló og nýttu sér reynsluna af þeim.
VW náði strax að gera Golf að þvílíku viðmiði fyrir aðra bíla, að heill stærðarflokkur bíla var nefndur eftir honum, Golf-flokkurinn.
Þótt ótrúlegt megi virðast var þessi bíll ekki valinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom fram 1973, heldur Citroen CX, sem ekki náði neitt viðlíka fótfestu og Golfinn, enda mun stærri bíll.
Nú er á boðstólum fimmta kynslóðin af Golf og VW hefur gætt þess að stækka bílinn jafnt og þétt eftir því sem tekjur helsta kaupendahópsins hafa aukist.
Nú er Golf hálfum metra lengri, 15 sentimetrum breiðari og 500 kílóum þyngri en 1973.
Í kringum þennan bíl hafa verksmiðjurnar byggt mestallan bílaflota sinn í millstærð af gerðunum Skoda, Audi og Seat, og keppinautarnir verða enn, 37 árum eftir að Golf kom fram, orðið að sætta sig við að keppa í "Golf-flokknum", sem er höfðar til stærsta hóps kaupenda með meðaltekjur.
Á mektarárum sínum var Packard "standard of the world" í flokki lúxusbíla og Cadillac tók við í nokkra áratugi. Sá framleiðandi sem ræður yfir þeirri vöru sem aðrar verða að miða sig, við, hefur yfir að ráða svipuðu atriði og kallað er "ring generalship" í hnefaleikum, sem sé að ráða ferðinni.
![]() |
Stóraukinn hagnaður VW |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2010 | 12:19
Mögulegt í alræðisríki.
Í apríl 1960 fór fyrsti maðurinn út í í geiminn og Sovétríkin bættu einni af mörgum skrautfjöðrum í hatt sinn sem forysturíki í tækni og vísindum. Margir minntust nú orða Krjústsjoffs árið áður: "Við eigum eftir að salta ykkur" sem því miður var ranglega þýtt yfir í "við munum jarða ykkur."
Stórslysinu, sem varð síðar á árinu 1960 hefði ekki verið hægt að leyna nema af því að alræði og kúgun ríktu í Sovétríkjunum.
Sovétmenn reyndu meira að segja að leyna sannleikanum um hið mikla kjarnorkuslys í Chernobyl þótt augljóst væri að það yrði í mesta lagi hægt í nokkra daga.
Nýjustu upplýsingar Wiklleaks sýna að langt er hægt að komast við að leyna sannleikanum ef menn gefa sér fyrirfram að leynd skuli viðhafa, jafnvel þótt um sé að ræða lýðræðisríki sem vilja hafa gegnsæi og mannréttindi í hávegum og snupra aðrar þjóðir, þar sem því er ábótavant.
![]() |
Svartur dagur í Rússlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)