31.10.2010 | 19:45
Hvað um meðal þingmanninn hér?
Víst eru eistnesk lágmarkslaun svo lág að það er langt, langt fyrir neðan allt sem hér þekkist. Því engin furða að eistneski þingmaðurinn, sem reyndi að lifa af þeim, missti þrjú kíló á einum mánuði.
Fróðlegt yrði þó að vita hvernig íslenskum þingmanni myndi reiða af, sem reyndi skyndilega að lifa í einn mánuð á lágmarkslaunum okkar lands.
Efast ég raunar um að hann ætti fyrir húsnæðiskostnaðinum einum af meðalíbúð þingmanns, hvað þá rekstrarkostnaði meðalbíls íslensks þingmanns. Afleiðingin yrði væntanlega að viðkomandi þingmaður yrði dauður úr hungri og þorsta eftir viku eftir að hafa ekki átt eyri fyrir mat.
![]() |
Lifði á lágmarkslaunum í mánuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.10.2010 | 11:04
Ekki öll eggin í sömu körfunni.
Höfuðröksemdin fyrir Blönduvirkjun var sú, að hún væri utan eldvirks svæðis og að það gæti verið varasamt að hafa öll eggin í sömu körfunni, þ. e. að allar helstu stórvirkjanir Íslands væru á hinu eldvirka Tungnaár-Þjórsársvæði.
Nú er það svo að áhöld eru um hvort Hofsjökull, sem Blanda kemur úr, teljist eldvirkt svæði en á sínum tíma tóku menn því sem svo að engin hætta væri á eldsumbrotum þar, sem gætu skilað hamfaraflóði í Blöndulón.
Þótt ég gæfi ekki opinberlega upp afstöðu mína til Blöndvirkjunar á sínum tíma vegna þess að ég var starfandi fréttamaður, var ég hlynntur virkjuninni á framangreindum forsendum en hefði þó viljað, að farið hefði verið eftir tillögum Páls Péturssonar og fleiri þess efnis að hafa lónið mun minna.
Það er hins vegar neyðarlegt, að varðandi virkjanir á Norðausturlandi og Suðvesturlandi vilja menn nú endilega hafa "öll eggin í sömu körfunni" og jafnvel fleiri egg en eru til.
Með tilkomu álvers á Bakka verður einu erlendu stórfyrirtæki afhent öll nýtanleg orka á svæðinu frá Skagafirði og allt austur til Austfjarða og fyrirsjáanlegt að engir aðrir kaupendur muni komast að næstu hálfa öldina að minnsta kosti.
Í ofanálag ætla menn í fúlustu alvöru að afhenda þessu stórfyrirtæki virkjanirnar líka og gefa því í raun þar með frítt spil um orkuverð ofan á það að vera allsráðandi í atvinnumálum á hálfu landinu.
Svipað er uppi á teningnum á Suðvesturhorninu að álfurstunum verði afhent öll fáanleg orka og öll orkueggin okkar sett í álkörfuna.
Meðan þessi áform eru uppi auk þess álitshnekkis sem Græðgisbólan og Græðgishrunið hefur valdið okkur er eðlilegt að aðrir hugsanlegir orkukaupendur hiki við að eiga við okkur viðskipti.
![]() |
Stór skjálfti við Blöndulón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (82)