Hvað sagði Göran Persson ?

Göran Persson, sem var forsætisráðherra Svíþjóðar þegar mikill samdráttur dundi á þjóð hans, hélt fyrirlestur hér á landi rétt í kjölfar Hrunsins. 

Boðskapur hans var skýr: Þið verðið að taka á ykkur allan vandann strax, þótt það kunni að sýnast alltof sársaukafullt.  Ef þið dragið að taka að fullu á vandanum þegar í stað og undanbragðalaust mun hann aðeins verða verri og mun erfiðara en ella að ná þjóðinni upp úr öldudalnum. 

Með því að ráðast ekki að fullu strax að vandanum mun kreppan verða lengri og enn dýpri en hún þyrfti að verða. 

Nú eru liðin tæp tvö ár síðan Persson mælti þessi orð og fréttin, sem þetta blogg er tengt við, sýnir að hann hafði lög að mæla. 

Vanskil og vextir hlaðast upp og skuldirnar vaxa hröðum skrefum. Það leiðir hratt og örugglega til þess að ástandið verði æ erfiðara viðfangs. 

Ef óhjákvæmilegt reynist að verja miklum fjármunum í að afstýra stórkostlegum óförum heimila og fyrirtækja mun það bara bitna á ríkissjóði sem þarf þá að taka á sig skellinn, því að þótt gagrýna megi bankana hart er það ljóst að ekki má verða hér annað bankahrun. 

Svo kann að fara að aðeins ríkissjóður geti afstýrt bankahruni á sama tíma sem skorið er inn að beini og allt að því aflimað í velferðarkerfinu. 

Aðvörunarorð Perssons koma í hugann þegar horft er á ástandið. 

Ég held að tillaga Framsóknarmanna um 20% flata afskrift af öllum skuldum hafi hvorki verið sanngjörn né skynsamleg. 

Hún hafði þó einn kost: Hún var afar einföld og virkaði strax. 

Ég var einn þeirra sem taldi að réttara væri að ráða fram úr hverju skuldamáli útaf fyrir sig. En forsenda þess var að það gerðist hratt og örugglega með hjálp af skýrum og einföldum reglum og miklum afköstum í fjármálakerfinu.  

En það er sitthvað að orða hlutinn eða framkvæma hann og nú er að koma í ljós að þrátt fyrir vilja og orð gengur þetta verk alltof, alltof hægt og heildarvandinn vex og verður æ erfiðari viðfangs. 

Aðvörunarorð Perssons áttu greinilega fullan rétt á sér enda mælt af reynslu. 


mbl.is Brot af tapi heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýta þarf öll sambönd.

Fundur Bjarna Benediktssonar með David Cameron er af hinu góða.  Við Íslendingar þurfum að nýta okkur öll þau sambönd og áhrif sem við getum haft erlendis í okkar málum.

Vonandi hefur Bjarni komið því til skila til Camerons hve ósanngjarnt það er að hve íslenskur skattborgari sé krafinn um 25 sinnum hærri upphæð en breskur skattborgari vegna máls sem siðferðilega er á ábyrgð stjórnvalda beggja þjóða, burtséð frá lagatæknilegum atriðum. 


mbl.is Íslendingar taki ekki á sig byrðarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður að meiri.

Ásbjörn Óttarsson er maður að meiri þegar hann nú biðst afsökunar á því að hafa í fljótræði verið full hvassyrtur í garð listamanna og sýnt þeim lítinn skilning.

Ég bloggaði um þetta tafarlaust á eyjunni þar sem ég benti á að með orðum sínum væri Ásbjörn, fyrstur þingmanna svo vitað væri, að leggja til að þurrkaður sé út útgjaldaliður, sem verið hefur við líði í heila öld, jafnvel í kreppunni miklu þegar þjóðin var mun verr stödd en nú.

Hann hefði þess vegna geta spurt: "Af hverju fékk Laxness sér ekki bara vinnu eins og venjulegt fólk?" 

Ásbjörn hefur vafalaust verið fræddur á "fínum og uppfræðandi" fundi um þá veltu og útflutnginstekjur sem skapast af íslenlistsköpun, bæði beint og óbeint. 

Síðasta dæmið er uppfærsla Vesturports í London en nefna má þær tekjur sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa skapað, bæði við eigin kvikmyndatökur og einnig með því að lokka erlenda kvikmyndagerðamenn til landsins.


mbl.is Ætlaði ekki að vega að starfsheiðri manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin tilviljun.

Það er skrýtin tilviljun að ég skuli í gær vera með tvo bloggpistla sem snerta frétt Morgublaðsins um gamla fólkið sem tekur sparnað út úr bönkunum og setur hann í bankahólf til að komast hjá skatti og skerðingu bóta.

Annar pistill minn hét "með peningana undir koddanum" en hinn, aðeins nokkurra klukkustunda gamall, fjallar um það að "þeir sem bruðla mest komast best af." 

Nú er það svo að ekki má alhæfa um þá sem vilja geyma fé sitt "undir koddanum". 

Þó er líklegt að þeir sem græði mest á því að koma fé undan og borga jafnvel undir bankahólf til þess arna séu einmitt þeir sem eigi mest fjármagn. 


mbl.is Með peninga í bankahólfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband