Frb. 9365: Dómsmálin og Stjórnlagaþingið.

Dómsmálin verða eitt af sviðunum í löggjöf landsins sem koma til kasta Stjórnlagaþings. Núverandi stjórnarskrá er fámál um skipan þeirra og kannski er ekki allt fengið með því að hafa ákvæði stjórnarskrárinnar mörg og löng um þau.

Þó hlýtur að koma til álita að kveða á um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds, til dæmis við skipun hæstaréttardómara. 

Einnig það hvort rétt sé að koma á fót millidómsstigi og sérstökum stjórnlagadómstóli, auk þess sem ákvæðin um Landsdóm þarfnast skoðunar og þá jafnvel til umræðu að leggja hann niður og skipa málum þannig að viðfangsefni hans falli undir stjórnlagadómstól. 

Það eru augljósir vankantar á því og hætta á hagsmunaárekstrum að Alþingi ákveði málshöfðun á hendur ráðherrum, sem það sjálft hefur borið ábyrgð á að voru skipaðir. 


mbl.is Fjölgun dómara m.a. vegna landsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Fb. 9365) "Ekkert fær staðist..."

Það er gróin hefð fyrir því að sjóði upp úr í einstaka vinnustaðasamkomum hér á landi.

(Það sauð þó ekki uppúr partýinu eins og sagt er í tengdri frétt á mbl.is, heldur sauð upp úr í því)

Eitt af mörgum svona atvikum í skemmtanasögu landsins komst í fréttir fyrir meira en áratug þegar mikil átök urðu á skemmtun björgunarsveitarmanna sem haldið var á Nesjavöllum svo að kalla varð lögreglu til ef ég man rétt og urðu af þessu talsverð eftirmál. 

Hér í gamla daga skemmti ég árlega á árshátíð prentsmiðjunnar Eddu, en sú prentsmiðja prentaði dagblaðið Tímann.

Á einni árshátíðinni urðu óvenju margir mjög ölvaðir og bar þá svo við að ritstjóranum sýndist einn prentaranna gera sér full dælt við eiginkonu sína og skarst í leikinn. 

Kom til átaka á milli þeirra sem fóru alveg úr böndunum og lauk þeim þannig að ritstjórinn sá ekkert annað ráð til bjargar sér en það, að hann beit prentarann í lærið. 

Fyrir hverja árshátíð var gefið út sérstakt blað starfsmanna sem var dreift á árshátíðinni og hét "Hálftíminn".

Þetta var stórskemmtilegt blað því að þar létu menn þar gamminn geysa í miklu gríni um það helsta sem hafði borið við á árinu á undan. 

Ári eftir að ritstjórinn beit prentarann var úr vöndu að ráða, því að þetta atvik hafði verið það, sem var einna fréttnæmast á því ári innan fyrirtækisins. Þótti mönnum sýnt að yfirstjórn blaðsins og prentsmiðjunnar myndi ekki verða skemmt yfir slíkri umfjöllun og gætu frekari eftirmál hlotist af. 

Loks duttu menn þó niður á lausn, sem gerði málinu skil, án þess að áberandi væri.

Í hverjum Hálftíma var dálkur undir nafninu "Málshættir og orðtök" og inn í þann dálk var laumað sakleysislegu máltæki:  "Ekkert fær staðist Tímans tönn." 

Taldist máli þessu þar með endanlega lokið. 


mbl.is Sauð upp úr starfsmannapartýi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband